07.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Hákon Kristófersson :

Án þess að jeg ætli mjer að lengja mikið umræðurnar um þetta mál, þykir mjer hlýða að gjöra grein fyrir afstöðu minni til málsins með nokkrum orðum.

Mjer var það ljóst, þegar jeg var kosinn í þá nefnd, sem átti að fjalla um þetta mál, að til þess var jeg allra manna ófærastur. Afstaða mín til málsins varð því að byggjast mikið á því, hvort jeg álíti ástæður þeirra, sem fylgdu málinu fast fram, svo veigamiklar, að jeg gæti veitt því fylgi mitt. Í fyrstu leit jeg svo á, að þörf sú, er væri fyrir stofnun þessa kennarastóls, væri tæplega svo mikil sem stæði, að stofna bæri nýtt embætti í því skyni. En er jeg athugaði ástæður þær, sem hv. meðnefndarmenn mínir færðu fyrir því, að þörf væri á stofnun þessa kennarastóls, þá virtust mjer rök þau, sem fram voru borin málinu til stuðnings, svo veigamikil, að jeg yrði að hugsa mig vandlega um, áður en jeg gjörði nokkuð til að hindra að málið gengi fram, þó jeg á hinn bóginn verði að játa, að jeg er mjög andvígur fjölgun embætta.

Það var því með tilliti til þessa, er jeg þegar hefi tekið fram, að jeg skrifaði undir nefndarálitið án fyrirvara, og gjörði jeg það með það fyrir augum, að jeg mundi ekki breyta skoðun minni frá því, sem hún var þá, heldur fylgja málinu fram• vegis.

En eins og hinni háttv. deild er kunnugt, þá eru nokkuð aðrir tímar nú en þegar málið var fyrst til umræðu hjer í deildinni og nefndin hafði það til meðferðar, þó skamt sje síðan. Það er því ekki því að leyna, að margskonar útlit hinna síðustu daga hafa gjört það að verkum, að jeg hefi ráðfært mig enn betur við sjálfan mig og samvisku mína og komist að þeirri niðurstöðu, að jeg með engu móti gæti fylgt neinu því máli, er hefði útgjöld fyrir landssjóð í för með sjer, nema brýn þörf væri til slíkra framkvæmda.

Þar sem jeg verð að álíta, að þessu máli sje ekki þannig varið, að það með engu móti geti þolað bið, þá verð jeg að lýsa því yfir, að jeg mun greiða atkvæði með þeirri rökstuddu dagskrá, sem nú er fram komin hjer í deildinni og læt mjer á sama standa, þó að einhverjir segi að jeg hafi horfið frá fyrri skoðun minni í þessu máli, þar sem jeg get ekki með góðri samvisku gjört annað eins og nú standa sakir. Hversu háttv. meðnefndarmenn mínir líta á þetta mál nú, veit jeg ekki, en ljúft væri mjer að heyra, að afstaða þeirra til málsins væri nú orðin lík þeirri, sem jeg nú hefi tekið. Það er laust við að jeg sje þessu máli andvígur í sjálfu sjer; jeg álít að kensla í þessum málum verði innan skamms að komast á við Háskólann, en breyttir tímar gjöra það að verkum, að jeg get ekki fylgt þessu máli nú, eins og jeg hafði ætlað mjer í fyrstu. Það kæmi í bera mótsögn hvað við annað, ef við færum að leggja landssjóði útgjöld á herðar, sem vel mega bíða, á sömu tímum og við gjörum ráðstafanir til þess að verja landið hættu, sem því stafar af ófriði þeim, er nú geysar. Jeg vil enda þessi orð mín með því að taka það fram, að jeg er ekki að öllu leyti andvígur þessu frumvarpi, en eins og nú standa sakir, get jeg ekki fylgt því fram.

Þess hefir verið getið til, að það mundi vera af hræðslu við kjósendur mína, að jeg vildi ekki veita máli þessu, jafnsjálfsagt og rjettlátt og það væri, fylgi mitt. Þeim til skilningsauka, er þessari skoðun halda fram, vil jeg geta þess, að jeg hefi enga ástæðu til að vera hræddur við mína kjósendur, og þó svo væri, að jeg gjörði eitthvað, er væri gagnstætt vilja þeirra, þá hefði það aldrei verri afleiðingar fyrir mig en það, að þeir kysu mig ekki aftur á þing, en þó svo færi, þá tel jeg það ekki með skaða mínum, því með allri virðingu fyrir þingmenskunni, verð jeg þó; að álíta það, að fyrir hana sje ekki svo mikið gefandi, að menn láti af sannfæringu sinni.