30.07.1914
Efri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

34. mál, friðun fugla og eggja

Kristinn Daníelsson:

Jeg býst við, eftir því sem mjer hefir heyrst á mönnum, að eigi muni mikill áhugi á því, að mál þetta fái framgang að þessu sinni. Mörgum þykir það varúðarvert, að breyta nýjum lögum áður en nokkur veruleg reynsla getur verið komin á það, hvernig þau muni gefast, og er þessi skoðun næsta eðlileg. Hins vegar dylst mjer það ekki, að margir eru óánægðir með fuglafriðunarlögin frá síðasta þingi, og óska að þeim sje breytt. Skal jeg geta þess, að það hefir verið farið fram á það við mig af kjósendum mínum, að jeg leitaðist við að fá þeim þegar breytt. Jeg hefi svarað þeim því, að það mundi þykja varúðarvert, að fara nú þegar að breyta nýjum lögum. Þó finst mjer rjettast, að málið sje athugað hjer, eins og í háttv. Nd. Rjettast þætti mjer, að nefnd væri skipuð hjer í málinu, og þótt farið sje mjög að líða á þingtímann, má vænta þess að þeirri nefnd mundi þó vinnast tími til að koma fram með rökstutt álit, er síðar meir gæti orðið til leiðbeiningar við meðferð málsins. Þó ætla jeg ekki að svo stöddu að stinga upp á nefndarskipun; en þess vildi jeg óska, að málið fengi að ganga til 2. umræðu.