30.07.1914
Sameinað þing: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

102. mál, handbært fé landssjóðs komið í gull

Flutningsmaður (Einar Arnórsson) :

Jeg get verið stuttorður. Að eins vil jeg taka það fram í sambandi við það, sem háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) sagði, að það getur með engu móti gjört skaða þó að tillagan verði samþykt, því að framkvæmd hennar er undir því komin, hvort stjórnin telur nauðsyn bera til að framkvæma þær ráðstafanir, sem þar er rætt um. Tillagan leggur engar skyldur á stjórnina, þótt hún verði samþykt. Af orðalagi tillögunnar leiðir það, að ekki getur komið til tals að taka lögboðinn gullforða úr Íslandsbanka samkvæmt henni. Slíkt væri að vísu ef til vill lögleg stjórnarráðstöfun, ef stórnauðsynjar krefðu, en hún væri ekki heppileg, og harðneskjuleg væri hún. Við ætlum stjórninni að sýna þá gætni, að hún fari ekki að grípa til ráða, er sett gætu bankann á höfuðið og þar með stofnað öllu landinu í háska.

Háttv. 2. þm. Rangæinga (E. P.) sagði, að það hefði verið óþarfi að kalla þingið saman nú þegar á næturþeli. Það getur hver haft sína skoðun um það, en nefndin leit svo á, að enginn hætta mundi stafa af því, þótt við flýttum okkur að koma þessu máli í framkvæmd, en hins vegar gæti stafað hætta af biðinni. Sami háttv. ræðumaður hjelt því fram, að nefnd sú, sem kosin hefir verið og umboðsmaður ráðherra hefðu getað komið sjer saman um að gjöra þær ráðstafanir í kyrþei, sem hjer er farið fram á. En má jeg spyrja: Hvers vegna á ekki að lofa þinginu að taka þær ákvarðanir um málið, sem það getur vel tekið, fyrst svo heppilega stendur á, að það stendur nú yfir? Mjer virðist alveg sjálfsagt, að bera þetta mál undir þingið.

Tillagan er komin fram í því skyni, að útiloka það, að stjórnin geti talist vítaverð, þótt hún valdi landssjóði nokkru rentutapi með því að víxla fje hans í gull.

Háttv. 1. þm. Húnvetninga (G. H.) sagði, að ef engin styrjöld yrði, þá væri engin hætta á ferðum. Þetta er alveg rjett. En það kemur að eins ekki þessu máli við, því að ef engin styrjöld verður, þá kemur ekki til að þær ráðstafanir verði gjörðar, sem hjer er um að ræða. En þá fyrst, er víðtæk styrjöld, sem heftir aðflutninga, hefst, kemur til mála að grípa til þeirra ráða, sem hjer ræðir um.

Viðvíkjandi því, hvort nefndinni væri kunnugt um vöruforða hjá kaupmönnum hjer, er því til að svara, að hún hefir ekki haft tækifæri til þess að rannsaka það. En það má búast við að vörubirgðir hjer sjeu nú alllitlar, vegna þess, að aðflutningar eru mestir á vorin og haustin. Vorflutningarnir eru nú um garð gengnir og menn eru farnir að eyða þeim, en haustflutningarnir eru ekki komnir ennþá.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 2. kgk. (E. B.) sagði, skal jeg geta þess, að nefndinni hefir ekki komið til hugar að binda stjórnina með það, hvar hún geymdi gullforðann.

Jeg get ekki sjeð, að það geti undir nokkrum kringumstæðum verið rangt að samþykkja tillöguna, en það er alls ekki útilokað að maður geti ef til vill bætt eitthvað hag sinn með því, og virðist mjer því sjálfsagt að tillagan verði samþykt.

Þá er hjer var komið höfðu umræður staðið um 1½ klukkustund. Var þá komin fram skrifleg tillaga frá þessum þingmönnum um að hætta umræðum :

Sigurði Stefánssyni,

Einari Arnórssyni,

Matthíasi Ólafssyni,

Stefáni Stefánssyni, 2. þm. Eyf.,

Benedikt Sveinssyni,

Magnúsi Pjeturssyni,

Jósef Björnssyni,

Birni Kristjánssyni,

Sigurði Gunnarssyni,

Þorleifi Jónssyni.

Með því að þá höfðu nokkrir þingmenn beðið um að taka til máls, bar forseti tillöguna undir atkvæði.