09.07.1914
Neðri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

14. mál, vörutollur

Flutningsm. (Pétur Jónsson) :

Eg hefi flutt þetta frumv. aðallega fyrir beiðni eins síldveiðaútgerðarmanna við Eyjafjörð, og eg býst við, að ekkert hefði verið átt við að breyta þessum lögum, ef hvötin hefði ekki komið einmitt frá síldveiðamönnum.

Tilgangur frumvarpsins er sá, að koma í veg fyrir, að vörutoll þurfi að greiða af endursendum íslenzkum vörum, sem ekki hefir verið um að koma í sæmilegt verð á erlendum markaði. Þær vörutegundir, sem við flutningsm. höfum sérstaklega haft í huga, er saltkjöt, saltfiskur og síld.

Það hefir átt sér stað, að saltkjöt, sem annaðhvort vegna skemda eða af öðrum ástæðum hefir verið óseljanlegt í útlöndum, hefir verið endursent til landsins. Skemdirnar hafa venjulega verið smávægilegar, oftast fólgnar í því, að kjötið hefir orðið »súrt«, sem kallað er, en þó fullgóð fæða, og hefir það vanalega reynst svo, þegar kjöt hefir verið endursent af þessum ástæðum, að það hefir verið notað og selst með þolanlegu verði. Sama má að miklu leyti segja um saltfiskinn. Smágallar, sprottnir af verkuninni, hafa stundum orðið til þess að spilla fyrir sölu á honum erlendis, þó hann hafi engan veginn verið óætur og komið að góðum notum hér heima, þegar hann hefir verið endursendur.

Aðalvaran er síldin. Hún fellur stundum svo í verði á erlendum markaði, að það er hrein frágangssök að selja hana þar í samanburði við að nota hana í landinu sjálfu.

Eins og kunnugt er, eru nú að rísa upp síldarbræðsluverksmiðjur við Eyjafjörð, og hefir mönnum hugkvæmst, að það myndi borga sig að flytja síldina heim aftur til bræðslu, í staðinn fyrir að fleygja henni sama sem í sjóinn í útlöndum eða selja hana þar fyrir allra lægsta verð. En vörutollslögin eru þessu til hindrunar. Af hverri endursendri síldartunnu verður samkvæmt þeim að greiða 3 krónur í vörutoll og af hverri kjöttunnu um kr. 3,50. Það var ekki tilætlunin þegar þau lög vóru samin, að þau yrði því til hindrunar, að hægt sé að hagnýta í landinu sjálfu þær vörur, sem ekki komast í viðunanlegt verð á erlendum markaði. Frv. það, sem hér liggur fyrir, á að bæta úr þessum misfellum. Af því getur ekki leitt neitt tekjutap, því að vörutollurinn er sama sem fullkomin þvergirðing fyrir því, að íslenzkar vörur verði endursendar, enda ekki heldur tilgangurinn, að hafa tekjur af endursendum íslenzkum vörum. Það gæti reyndar komið fyrir, að t. d. smjör og tólg yrði endursent vegna verðfalls í útlöndum, en þó trauðla og alls ekki í stórum stíl. Það er því fullkomin sanngirniskrafa, sem farið er fram á í frv. þessu.

Við vildum hindra það, að hægt væri að smeygja öðrum vörum inn í endursendinguna. Þess vegna er þess krafist, að vörurnar sé því aðeins undanþegnar gjaldi, að þær sé endursendar í sömu umbúðunum. Það ætti að vera næg trygging fyrir því, að ekki yrði smýglað inn undir þessu yfirskini. Ennfremur er þess krafist, að sama vottorð ið fylgi vörunni heim og til útlanda. Eg álít óþarft að tala meir um málið. Það er svo sérstaklega ástatt, að eg álít nefnd óþarfa. Málið er svo ljóst.