27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Framsögum. minni hl. (Þórarinn Benediktsson) :

Eg sé enga ástæðu til að fjölyrða mikið um málið, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að minni hl. nefndarinnar hefir lýst afstöðu sinni all-ítarlega í nefndaráliti sínu á þgskj. 197, og í öðru lagi vegna þess, að frv. á þskj. 69 var vel tekið hér í deildinni við 1. umr.

Þess er að gæta, að þetta mál er ekki nýtt. Það hefir áður verið hér til meðferðar í þinginu, þó að það hafi verið í dálítið annari mynd. Árið 1909 var lagt frv. fyrir þingið um að afnema eftirlaun ráðherra með öllu, en það gekk ekki fram af þeirri ástæðu, að mönnum þótti það koma í bága við stjórnarskrána. Var því horfið frá málinu á þeim grundvelli. En á þinginu 1911 var því breytt í þá mynd, að færa eftirlaunin niður, og gert ráð fyrir, að þau skyldi vera 1200 kr. á ári í jafnmörg ár og ráðherrann hefði þjónað embætti. Nú er frv. í þeirri mynd, sem það hafði upphaflega 1909, sem sé, að ráðherraeftirlaunin verði afnumin með öllu. Þegar nýja stjórnarskráin gengur í gildi er hún því ekki lengur til fyrirstöðu að þetta geti komist á. Þegar litið er á umræðurnar frá þinginu 1911, sér maður, að það var vilji mjög margra þingmanna, að sporið væri stigið fult, og eftirlaun ráðherrans afnumin með öllu. Aðalástæðan er sú, að talsvert mikil alda er risin upp í landinu og gengur hún í þá átt, að afnema eftirlaun allra embættismanna. Á þessu þingi hefir tillaga verið samþ. þess efnis, að þetta mál verði rannsakað og það framkvæmt, ef kostur er á. Minni hl. nefndarinnar í þessu máli taldi því rétt að byggja frv. á þeim grundvelli, að öll eftirlaun yrði afnumin innan skamms. Þess er getið í nefndaráliti minni hl , að sterkar raddir hafi borist frá þingmálafundum, sem haldnir hafi verið víðsvegar um land á síðastl. vori, um það, að eftirlaun yrði afnumin, og þá einkum ráðherraeftirlaunin. Þegar litið er á þingmálafundargerðirnar, sem hér liggja frammi í lestrarsalnum, þá skýra þær nálega allar frá því, að fram á þetta hafi verið farið.

Háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.) gat þess, að það væri ekki mikið, sem skildi meiri og minni hl. nefndarinnar í þessu máli. Eg get ekki kannast við það, en held því aftur á móti fram, að nokkuð mikill stefnumunur komi fram í nefndarálitum beggja hluta nefndarinnar. Háttv. meiri hl. gengur út frá því, að embættismenn hafi eftirlaun, og leggur til, að ráðherra hafi eftirlaun í 2 ár eftir að hann lætur af embætti, með öðrum orðum, hann gengur inn á till. háttv. þm. Ak. (M. Kr.). En minni hl. byggir á því, aftur á móti, að þetta sé fyrsta sporið til þess að afnema algerlega öll eftirlaun. Þetta er það sem skilur. Hins vegar kom allri nefndinni saman, um að það væri sjálfsagt, að ef maður slepti embætti með eftirlaunarétti, til þess að gerast ráðherra., þá héldi hann þeim rétti, sem fyrra embættið veitti honum, enda hefir það ætíð verið álitið, að svo ætti að vera. Minni hl. taldi ekki þörf á að taka þetta fram í frv. sjálfu, áleit nægilegt að það kæmi fram í nefndarálitinu, en þar kemur það skýrt fram, hvað fyrir minni hl. vakti í þessu efni.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en vona að háttv. deild taki vel þeirri stefnu, sem felst í frv. á þskj. 69, og nánar er vikið að í nefndaráliti minni hl.