16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

55. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson:

Háttv. flutningsm. (B. Kr.) gat þess, að hann hefði komið fram með þetta fyrirliggjandi frv. af knýjandi nauðsyn. Þessa nauðsyn get eg með engu móti komið auga á. Eg álít meira að segja miklu betra að láta sitja við það sama, heldur en að samþykkja þetta frumv. Það er að vísu satt, að háttv. flutningsm. á þakkir skilið fyrir að vera fyrsti hvatamaður þess, að þessi lög komust fram, en eg álít samt ekki rétt af honum að vera á móti öllu, sem gert er í þessu máli, þótt hann sé ekki við það riðinn. Það sem hann gerir er varla svo fullkomið, að ekki sé hægt að bæta það að einhverju leyti.

Háttv. flutnm. (B. gr.) sagði, að starf þingsins í fyrra í þessu máli hefði verið lítilsvirði. Þetta finst mér vera að lítilsvirða þá menn, sem fjölluðu um málið í fyrra í nefnd þeirri, sem þá hafði málið til meðferðar. Og eg sé satt að segja enga ástæðu til þessara ummæla, enda þori eg að fullyrða, að þau munu af flestum, sem til þekkja, og óhlutdrægt líta á málið, verða talin ómakleg og ástæðulaus.

Nefndin, sem um þetta mál fjallaði í fyrra, gerði sér far um að vinna í samráði við þá menn, sem hún taldi færasta til að fjalla um þetta mál, t. d. mikilsvirta kaupmenn, bæði hér og út um land, og eins við innheimtumenn tollfjárins hér í Reykjavík og víðar. Innheimtumaður tollfjárins hér í Reykjavík var oftar en einu sinni til staðar á fundum nefndarinnar, enda hlýtur hann að vera allra manna kunnugastur öllu, sem að þessu máli lýtur, og engu var slegið föstu í nefndinni, sem hann ekki taldi vel framkvæmanlegt.

Eg skal ekki fara inn á einstök atriði frv. þótt háttv. flutningsm. (B. Kr.) gerði það, mér finst að það eigi fremur við við 2. umr., en mér þótti hann gera of mikið úr þessum grundvelli, sem hann sagði, að lögin væri bygð á. Mér finst að þingið eigi óhægt með að ráða við það, hvað þessi og þessi maður í útlöndum nefnir þá vöru, sem hann sendir til landsins. Eg get ekki búist við, að vér getum hindrað það, að vörur sem settar eru á farmskrár, sé nefndar ýmsum öðrum nöfnum en þeim, sem í lögunum standa:

Mér finst það sjálfsagður hlutur, að þeir, sem látnir eru innheimta tollinn, sé svo vel að sér, að þeir geti séð hvað heyrir undir hverja einstaka tolltegund af því sem á farmskrá stendur í það og það skifti.

Að nokkuð verði erfiðara að fara kringum lögin, ef þetta frumv. verður samþykt, get eg ekki séð, enda er það skoðun mín, að þeir sé mjög fáir, sem nokkra viðleitni hafa í þá átt.

Eg get ekki séð, að þetta frv. létti á nokkurn hátt verk þeirra, sem hafa á hendi innheimtuna og tollgæzluna, og álit að það sé fremur komið hér fram af óþarfa tilfinningasemi, en af knýjandi nauðsyn. Það er nú orðið svo lítið eftir af þeim tíma, sem ætlast var til að vörutollslögin stæði í gildi, að eg sé ekki ástæðu til að tefja tíma þingsins með óþarfa breytingum á þeim.

Eg verð á móti því, að þetta frumv. fari lengra, en það er þegar komið. En hvort nefnd verður sett í það liggur mér í léttu rúmi, ef það annars verður látið fara lengra.