28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Einar Arnórsson:

Eg skoða það sem óþarfa viðkvæmni og óþarfa umhyggjusemi fyrir stjórninni hjá háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að vera að bera kvíðboga fyrir því, að næsta fjárlagaþing samþykki ekki þessa fjárveitingarheimild, sem hér er tekin upp. Sjálfur hefir hann oft eins og vonlegt er og sjálfsagt, ofgoldið fé úr landssjóði, þó að engin hafi heimild verið og tvímælis orkað um þörf til þess, og því átt miklu meira á hættu í sinni löngu stjórnartíð, en hér á sér stað.

Út af því, sem sagt hefir verið um, að aukaþing megi ekki samþykkja lög, sem hafi í för með sér fjárveitingu, skal eg leyfa mér að benda á það, að eg hefi hér fyrir framan mig lög frá 22. október 1912 um stofnun yfirsetukvennaskóla í Rvík. Þar stendur, að landlæknir skuli vera kennari skólans og hafa 1000 kr. laun fyrir starfa þann. Eg veit ekki betur, en að það fé hafi verið goldið úr landssjóði án heimildar í fjárlögunum frá 1911. Í þeim eru, á sama hátt sem fjárl. 1913, að eins heimild til greiðslu á gjöldum, lögheimiluðum á þinginu 1911, en eigi á þinginu 1912. Hér er nákvæmlega eins ástatt. Hér er verið að heimila fjárgreiðslu 1914, enda þótt hún hafi ekki staðið í fjárlögunum 1913. Hvers vegna risu þessir háu herrar ekki upp 1912 þegar yfirsetukvennaskólinn var á döfinni? Hversvegna sögðu þeir ekki þá, að það væri ekki hægt að borga þetta út af því að það væri ekki samkvæmt fjárlögunum og að þá væri verið að fremja brot á 24. gr. stjórnarskrárinnar?

Eg sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál meira. Að eins vil eg að endingu taka það fram, að eg tek undir það með háttv. þm. Dal. (B. J.), að mér finst það harla óviðeigandi, að hæstv. umboðsmaður ráðherra standi hér upp og komi fram sem eindreginn og harðskeyttur flokksmaður. (Klemens Jónsson: Eg neita því harðlega). Hann á að vera hlutlaus og mæta hér í þinginu að eins til þess að gefa skýringar og svara atriðum, sem beint er til stjórnarinnar.