12.08.1914
Neðri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Einar Jónsson:

Það er ekki svo að skilja, að eg standi upp af því að eg sé á móti þessum heiðurs- og listamanni, sem hér er um að ræða. Heldur stend eg upp til þess að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ef myndirnar eru þess verðar, að vera keyptar fyrir 4000–5000 kr. farmgjald, þá geti það ekki komið til mála, að hægt sé að geyma þær í 300 kr. skúr, sem hvorki getur haldið vindi né vatni. Það nær ekki nokkurri átt. En ef myndirnar eru þannig úr garði gerðar, að enginn vill kaupa þær þar sem þær eru, þá get eg ekki skilið, að það sé landinu sá vegsauki að eiga þær, að tilvinnandi sé að gjalda fyrir flutninginn á þeim 4000– 5000 kr., og sízt verður vegur landsins meiri fyrir það, ef myndirnar verða síðan geymdar í skúrræfli, þar sem þær gera ekki annað en að grotna niður. Ef myndirnar verða fluttar til landsins á annað borð, þá liggur næst fyrir að byggja utan um þær dýrt hús. En þá skilst mér að spurningin sé þessi, hvort það borgi sig betur að veita manninum það sem styrk, sem annars færi í það að flytja myndirnar og geyma þær hér. Sú upphæð mundi nema sæmilegum ársstyrk um langan tíma, og með því mundi manninum verða gert hægara fyrir að komast áfram í list sinni og stunda hana eins og honum sjálfum sýnist. Eg get ekki annað sagt, en að eg er mjög vantrúaður á, að það verði landinu til hagsmuna eða heilla að flytja myndirnar hingað heim með ærnum kostnaði og geyma þær síðan í járnskúr, sem venjulega er ekki einu sinni hægt að geyma í mjölpoka eða sykurkassa, án þess að það skemmist. En jafnvel þó að slíkir járnskúrar sé ekki betri húsakynni, en eg hefi nú lýst, þá verð eg þó að efast stórlega um, að nokkur vilji taka að sér að byggja skúr utan um myndirnar fyrir jafnlítið verð og háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir haldið fram. Eg gæti, sem sagt, miklu betur fallist á að þessi maður, sem af öllum er vel þektur og viðurkendur að standa framarlega í listinni, fengi árlegan atyrk til þess að þurfa ekki að svelta.

Það kann að vera, að ýmsir kunni að hafa skemtun af því að sjá myndirnar hér, þó að ekki væri öðru vísi en í járnskúr, en eg met þá skemtun ekki svo mikils, að eg telji ekki heppilegra að sýna listamanninum sóma á einhvern annan hátt, jafnvel þó að brjóta þyrfti myndirnar vegna húsnæðisleysis þar suður í Kaupmannahöfn.

Það var minst á það í gær hér í deildinni, hvað farið var með þegar rætt var um stofnun Háskólans. Það var talið víst, að Háskólinn og þingið gæti hvorttveggja rúmast á sama tíma í sama húsinu, og að ekki væri ástæða til að fella frumvarpið um Háskólann fyrir þá sök, að það rækist hvað á annað. En hvað hefir ekki komið á daginn? Eins hygg eg að fari um þetta. Þó að nú sé sagt, að lítið sem ekkert þurfi að leggja í kostnað til þess að geyma myndirnar, þá mun svo fara innan skamms, og ef til vill á næsta þingi, að farið verður fram á að veita fé til þess að byggja dýrt hús fyrir þær.

Í sambandi við þetta mál vil eg minnast á eitt dæmi. Fyrir nokkrum árum var flutt hingað eitt listaverk eftir þennan sama mann. Það er Útilegumaðurinn. Eg segi fyrir mitt leyti, að eg hefi alt af gaman af að líta á Útilegumanninn, því að hann er vel gert verk. En hvar er hann látinn standa? Í forstofu í einu húsi hér í bænum, þar sem strákar sparka í hann og hafa þegar skemt hann talsvert. Raunar sýnist mér, að eitthvað muni hafa verið dubbað upp á hann síðan í fyrra. En það, sem eg vildi segja, var það, að meðan landið hirðir ekki betur þetta eina listaverk, sem það hefir í sinni umsjá, þá sé eg ekki, að því sé fært að hirða um alt draslið, ef það verður flutt hingað.

Mig minnir, að verkin hafi verið talin að undanförnu eitthvað um 40, en þeim mun hafa fjölgað síðan, að minsta kosti bendir þetta háa flutningsgjald, sem áætlað er, á það, að þetta sé nokkuð mikið að vöxtunum. Get eg þá trúað því, að ýmislegt af því hafi menn hér aldrei séð og geta þeir þá lítið dæmt um það.

Eg vona að menn hafi skilið, að eg er engan veginn að lasta þennan mann, sem af öllum er viðurkendur bezti drengur og mikill listamaður. Eg vildi gjarna að honum væri veittur einhver styrkur, svo að hann þyrfti ekki að svelta, því að þótt ófriðurinn geri það ef til vill að verkum, að vér deyjum allir úr hungri, þá vil eg ekki að nafni minn, listamaðurinn, hnígi fyrstur í valinn.