31.07.1914
Neðri deild: 27. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Eggert Pálsson:

Það eru að eina tvær stuttar athugasemdir.

Því var skotið fram í gær, að ef til vill mundi ekki unt að ná í konungsstaðfesting á þeim lögum, sem hér liggja fyrir. Og þar sem svo horfir við, vil eg leyfa mér að beina þeirri spurningu til háttv. framsögum. (E. A.), hvert gildi þetta frumv. hefði, eftir að þingið hefði fyrir sitt leyti samþykt það, ef ekki næðist staðfesting konungs.

Eg er ekki lögfræðingur, en mér skilst, að ef ekki næst konungsstaðfesting, séum vér í rauninni sama sem konungslausir, og þingið þá og ráðherrann fari með nokkurs konar einveldi eða alt vald. Og lögunum yrði að framfylgja eins og þau væri undirskrifuð af konungi. Auðvitað í vissri von um konungsstaðfestingu eftir á, þegar til hans næðist. Sé ekki hægt að framfylgja þeim skilningi, þá virðist mér, ef svo færi, að símasambandið yrði slitið í fyrra málið, að frv. sé alveg þýðingarlaust og alt það strit, sem þetta mál hefir á oss lagt, unnið fyrir gýg. Þetta atriði ætla eg lögfræðingum til úrlausnar. —

Hin athugasemdin laut að nefnd þeirri, sem til er ætlast að skipuð verði til aðstoðar landastjórninni. Nú liggur sú spurning opin við. Hvar lendir ábyrgðin fyrir það, sem gert kann að vera eða ekki gert í þessum efnum, sem hér ræðir um, hvort heldur á nefndinni eða á stjórninni? Ef stjórnin vill gera eitthvað, en nefndin er því andvíg, hvar liggur þá ábyrgðin, hvort heldur hjá nefndinni eða stjórninni? Þetta virðist mér að geti verið nokkurt álitamál, með því að nefndin kemur hér að nokkru leyti í þingsins stað. Eg fyrir mitt leyti teldi því langréttast og umsvifaminst, að stjórnin ein hafi málið með höndum og þar með alla ábyrgðina; tillögur, ráð og leiðbeiningar getur hún vitanlega sjálf aflað sér, ekki að eins hjá sínu stjórnarráði og embættismönnum, heldur hvar annarstaðar, sem henni kynni að sýnast.