29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

75. mál, sparisjóðir

Sveinn Björnsson:

Þegar þetta mál var síðast til umræðu hér í deildinni, þá stóð eg hér upp sem framsögumaður meiri hluta nefndarinnar og barðist fyrir því að skipaður yrði einn eftirlitsmaður fyrir alt landið, til þess að sjá um að ákvæðum sparisjóðslaganna yrði fylgt. Sú uppástunga var feld, eins og allir muna, með þeim ummælum, að eftirlitið yrði á þann veg kostnaðarmikið og kæmi eigi að notum.

Síðan hefir það skeð, að þeir, sem fastast lögðu á móti eftirlitsmanninum, hafa nú komið fram með tillögu um aukið eftirlit með sparisjóðum. Þetta gleður mig. Það skal tekið fram, um uppástungu vora í meiri hluta nefndarinnar, að hún er í upphafi frá háttv. framsögumanni, svo að óþarfi er að bera honum á brýn nokkura skoðanabreytingu í þessu máli frá síðasta fundi. Hitt gleður mig, þegar háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem áður lögðu fastast á móti öllu eftirliti, koma nú fram með tillögur um strangara eftirlit en nefndin treystir sér með nokkuru móti að fara fram á. (Bjarni Jónsson: Við höfum ekki gert það). Það vill svo vel til, að nafn hv. þm. er prentað á þskj. 243, svo að hann getur illa neitað því, að eg fari með rétt mál.

Mér virðist að munurinn á till. vorum sé aðallega þessi: Vér höfum eftir atvikum talið nægja, að stjórnarráðið gæti, þegar það álítur heppilegt, látið líta eftir sparisjóðunum, án þess að tiltaka nánar, hvernig því eftirliti yrði hagað. Þetta vilja þeir ekki láta sér nægja, heldur vilja þeir koma á föstu, árlegu eftirliti. Svo vilja þeir koma eftirlitinu dálítið öðruvísi fyrir, og skal eg nú sýna fram á, að það er ekki hagkvæmt. Þeir vildu ekki fallast á uppástungu meiri hluta nefndarinnar um daginn, um að eftirlitið væri framkvæmt af föstum og vel hæfum manni. Nú hefir þeim hugkvæmst að setja mann í hverri sýslu, til þess að hafa þetta eftirlit á hendi, með öðrum orðum: vilja bæta við einum endurskoðenda við hvern sparisjóð, eða þannig skildi eg ræðu háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Eg gat ekki fundið annað í því, sem hann sagði, en að þessum manni væri ætlað að hafa á hendi venjulega endurskoðun, og annað ekki. Vor meining var sú, að þessi maður hefði miklu meira og víðtækara eftirlit en endurskoðunarmaður getur haft.

Það hlýtur öllum að vera ljóst, sem um málið hugsa, að óheppilegra er, að innanhéraðamaður hafi eftirlitið á hendi, heldur en utanhéraðsmaður. Þó að það sé enginn »fantur«, heldur góður maður, þá getur hann verið á ýmsan hátt við, sjóðinn riðinn. Hann getur verið lántakandi eða bundinn í ábyrgðum. Það er því auðsætt, að heppilegra væri, að einn maður á öllu landinu hefði eftirlitið á hendi. Það er ekkert samræmi, að hafa sinn manninn í hverri sýslu fyrir eftirlitsmann. Afleiðingin af því gæti ennfremur orðið sú, að peningarnir drægist frá þeim sparisjóðum, sem hefði ekki sem fullkomnast yfirlit, yfir í nágrannasjóðina, þar sem eftirlit væri betra. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) kallaði umsjónarmanninn, sem við stingum upp á, óþarft líffæri. Líklega álíka eins og botnlangann í manninum. Eg veit ekki hvort háttv. þm. heldur, að þetta líffæri batni við það, að vera brytjað niður í smábúta.

Annað, sem felst í breytingartillögum þeirra félaganna, er það, að þeir ætlast til, að sparisjóðirnir greiði sjálfir fyrir eftirlitið. En vér lögðum það á landa- sjóð. Mér finst háttv. 2. þm. Árn. (E. S.) sé kominn í mótsögn við sjálfan sig, þegar hann heldur jafnframt þessu því fram, að ekki megi með nokkuru móti íþyngja sparisjóðunum, til þess að þeir geti borið sig. Og eg trúi því varla, að hann haldi því fast fram að leggja þennan kostnað á sparisjóðina.

Þá skal eg geta um einstakar breytingartillögur. Eg skal játa það, að heppilegra er að ákveða, að hver sparisjóður skuli hafa gerðabók. En slíkt þarf ekki að ákveða í lögunum. Nóg væri, að það væri ákveðið í reglugjörð þeirri, sem stjórnarráðið semur. Viðvíkjandi 5. breytingartillögunni, á þskj. 226, skal geta þess, að eg er á sama máli og hæstv. umboðsm. ráðherrans. Eg hygg, að það sé óheppilegt að fella burtu alveg þessi 5%, en get, til þess að miðla málum, verið því meðmæltur, að það sé fært niður í 3%.

Út af því, sem háttv. 2. þm. Sunnmýlinga sagði, að hann álíti sjálfsagt að ganga ekki til atkvæða um málið nú, það sé ekki hægt að átta sig á málinu vegna þess, hve margar brt. sé fram komnar, skal eg geta þess, að það er vel komið, að eg reyni að leiðbeina honum við atkvæðagreiðsluna, og skýra málið fyrir honum. Mér er hægt um vik að gera þetta, þar sem við sitjum saman.

Eftir að eg hefi nú boðið svona stórmannlega, þá treysti eg því, að hann geti fallist á, að gengið verði til atkv. nú þegar.