08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

113. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherra (S. E.):

Það er ekki meining mín að fara í stríðið hér í deildinni, en af því að hér er um stórt mál að ræða, þyki mér rétt að gera grein fyrir atkvæði mínu.

Eg held í raun og veru að kjördæmaskipunin sé ekki eins auðvelt mál og sumir virðast ganga út frá. Auðvelt teldi eg málið, ef hægt væri með réttu að sýna fram á, að kjördæmunum eigi eingöngu að skifta eftir einu ákveðnu »principi«, eins og t. d. höfðatölunni. Í því frumv., sem hér liggur fyrir er því »principi« engan veginn haldið, og framsögum. minni hl. (M. Kr.) hefir lýst því yfir, að til fleira ætti að taka tillit en til höfðatölunnar. En þegar vikið er frá höfða »principinu«, þá verður vandinn meiri á því, að vega þær ýmsu ástæður, sem til greina geta komið hver á móti annarri.

Sú kjördæmaskipun, sem við eigum nú við að búa, er búin að standa lengi. Óánægjan með hana stafar aðallega frá Reykjavík, og má ef til vill segja að það sé vonlegt, því að hún er langfjölmennust, en hefir að eins tvo þingm. En því er hins vegar ómögulegt að neita, að þegar á alt er litið, þá verður Reykjavík ekki eins illa úti og í fljótu bragði sýnist. Hér eru margir þingmenn búsettir, og þeim verður það ósjálfrátt, að gæta hagsmuna Reykjavíkur. Því hverjum þykir sinn fugl fagur, og Reykjavík er nú orðin þeirra fugl. Í öðru lagi er þingið háð á þessum stað, svo að kjósendur hafa mörg og góð tækifæri til að kynna þinginu sinn vilja, og á þetta legg eg ekki litla áherzlu, enda sýnir reynsla, að Reykjavík hefir ekki orðið illa úti, þó að eins hafi haft tvo þingmenn. Hins vegar er eg ekki í neinum vafa um það, að afskektu héruðin, ef að eins fengi þingmenn eftir höfðatölu, myndi verða fyrir mjög miklu ranglæti. Jafnvel eins og kjördæmaskipuninni er nú fyrir komið veitir þeim fullerfitt að koma réttmætum kröfum sínum fram. Og þessi ástæða verður ekki hrakin með því að segja, að heill landsins vegi meira en hreppapólitík héraðanna., því að bæði er nú það, að heill landshlutanna er heill landsins og svo hitt, að engin ástæða er til að ætla, að almennum málum landsins sé verr komið í höndum þingmanna eftir núverandi kjördæmaskipun, en þó kjördæmi væri ákveðin eftir höfðatölu.

Nú er kjördæmaskipuninni þannig hagað, að hún er bundin við sýslutakmörk, en innan hverrar sýslu eiga menn á ótal sviðum ýmsa sameiginlega hagsmuni, og hefir mönnum þótt fara vel á þessu. Og óánægjan yfir kjördæmaskipuninni kemur sannarlega ekki utan úr sveitunum. Að eins aðallega úr einu kjördæmi, eins og tekið hefir verið fram.

Eg mun greiða atkvæði með því, að fella burtu 7. gr., og eg geri það með góðri samvizku og tek fram um leið, að það er fjarri því, að eg telji að kjördæmaskipun, eftir höfðatölunni einni, sé réttlát, þvert á móti. Slík kjördæmisskipun væri ranglæti gegn afskektu stöðunum, enda hefir fyrrverandi stjórn ekki treyst sér að byggja á höfðatölunni einni. En því þá að breyta, meðan kröfurnar koma að eins úr einni átt og þjóðin er ekki búin að átta sig á, hvert og hvernig hún vill breyta ?