20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Um nefndarálitið þarf eg ekki að tala, það er svo einfalt og óbrotið. Og þó að skiftar sé skoðanirnar um innihaldið, þá get eg ekki séð, að það sé mikið sem á milli ber. Eg er viss um, að þó að leitað væri álits landsmanna á þessari breytingu, sem frv. fer fram á og meiri hluti nefndarinnar hefir fallist á, þá mundi svo fara að almenningur væri henni hlyntur. Það sem gerir þessi lög illa þokkuð er gjaldið frá einstaklingunum. Um gjaldið frá landsjóði hugsa menn litið. Og þar sem þessir peningar renna í sameiginlegan sjóð, hverfa þeir augum manna; þeir finna til þess að þurfa að borga þá, en gera sér miklu minni grein fyrir því, hvað af þeim verður. En ef tillögin væri séreign hreppanna, þá væri peningarnir nær almenningi, hann mundi hugsa um þá sem verulegan eignapóst og hugsa um, hvað hægt væri að gera með þeim. Þar sem eg heyrði menn ræða um þessi lög, töldu menn þessa breytingu eina af þeim, sem að sjálfsögðu ætti að komast á. Eg er breytingunni hlyntur og tel hana til bóta. Eg er þess vegna á móti rökstuddu dagskránni, þó að eg búist ekki við, að hún yrði til annars, en að fresta málinu um eitt ár.