08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

113. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherra (S. E.):

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) hefir ráðlagt mér, stöðu minnar vegna, að blanda mér sem minst í málið. Því þá það? Því skyldi eg leggja slæðu yfir skoðanir mínar, þó eg sitji nú í ráðherrastólnum.

Annars kemur okkur háttv. þm. Ak. (M. Kr.) saman um það, að höfðatalan ein sé ekki réttur grundvöllur. En úr því að horfið er frá þeim grundvelli; þá fer grundvöllurinn að verða nokkuð vafasamur. Og þá kemur sú spurning fram: Úr því að vér höfum svo lengi unað við þá kjördæmaskipun, sem nú er, og óánægja yfir henni kemur svo að segja að eins fram úr einni átt er þá rétt að vera að breyta — að minsta kosti tel eg skylt áður en það er gert, að leggja málið rækilega undir kjósendur og yfirvega ráð sitt vel.