13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

48. mál, Hólshérað

Flutn.m. (Skúli Thoroddsen):

Að því er snertir frumv. sem hér liggur fyrir, þá er það gamall kunningi þingsins, þar sem eg flutti samakonar frumv. á síðasta alþingi, og hafði þó flutt það nokkrum sinnum þar áður.

Því miður hefir málið þó enn ekki náð fram að ganga, og er það þó, sem von er, mjög mikið áhugamál þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, eins og eg hefi á undanförnum þingum þrásinnis sýnt fram á, enda bent þá og á nauðsynina, sem til þess ber, að Hólshérað, með Bolungarvíkurverzlunarstað, verði gert að sérstöku læknishéraði og nenni eg því ekki að tína þau rök öll upp aftur að svo komnu, en læt mér nægja að vísa til þeirra í þingtíðindunum.

Eg geri það því að tillögu minni, að frv. verði vísað til nefndarinnar, sem skipuð hefir verið til að íhuga læknahéraðamálin, og vænti þess, að hún taki málið þá til sem rækilegastrar yfirvegunar.