13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Flutningsm. (Benedikt Sveinson):

Þetta litla frv. er flutt fyrir tilmæli ábúanda jarðarinnar Núps. Hann hefir búið á jörðinni í mörg ár og vill nú kaupa hana. En sá er hængur á, að sýslunefndin hefir lagt á móti sölu jarðarinnar. Ábúandinn hefir því snúið sér til þingsins og hefir bréf hans hér að lútandi verið lagt fram í lestrarsalnum. Í hreppnum, sem jörðin liggur í, hafa verið haldnir tveir fundir um málið síðastliðið vor, annar fyrir en hinn eftir sýslufund, og var það einróma ósk fundanna, að ábúandinn fengi jörðina keypta. Núpur liggur yzt í Öxarfirði — er ekki mikil jörð, en stendur til bóta, ef komið verður þar upp vatnsveitingum. En ábúandi getur ekki lagt í eins mikinn kostnað til þess meðan hann er leiguliði og hann mundi gera, ef hann væri eigandi jarðarinnar. Til þess að kostir hennar komi að fullum notum þarf hún að komast í sjálfsábúð.

Sveitin, sem jörðin liggur i, hefir í hyggju að koma sér upp heyforðabúri, og hefir það orðið að samningum milli ábúandans og sveitarbænda, að sveitin fengi 50–100 heyhesta ítak í jörðina árlega um aldur og ævi, ef jörðin fengist keypt. Það, sem aftraði því, að málið næði fram að ganga á sýslunefndarfundi, var það, að menn höfðu fyrr meir álitið, að jörðin lægi vel fyrir læknissetur. Þetta var það, sem sýslunefndin bar fyrir sig, þegar hún lagði á móti sölu á jörðinni. Í sýslunefndargerð fundarins, sem haldinn var 16.–17.maí síðastliðinn segir svo, að héraðsbúar hafi fyrr ætlað jörðina fyrir læknissetur. En þótt þetta hafi verið vilji manna fyrr, þá hefir sá vilji breyzt, því að nú hefir læknissetrið verið ætt við Kópasker, og héraðsbúar hafa reist lækni þar timburhús. Þessi ástæða sýslunefndar er því þar með fallin úr sögunni. Jörðin lá að sönnu að sumu leyti vel við sem læknissetur. En þar sem nú lækni hefir verið reist hús að Kópaskeri, og það er eina kauptúnið, sem mestur hluti læknishéraðsins sækir til, og símastöð verður sett þar á næsta ári, þá væri ástæðulaust að fara að breyta til í þessu efni og færa læknissetrið innar í sveitina.

Eg get því ekki annað séð, en ástæða sýslunefndar sé ekki á rökum bygð og hún hefði því með góðri samvizku getað orðið við beiðni ábúandana. Það kemur ekki þessu máli við, hvaða skoðun menn hafa á þjóðjarðasölulögunum yfir höfuð. Eg skal geta þess, að sjálfur er eg þeim andstæður, en fyrst þau gilda á annað borð, þá er það hart, að einstaka maður njóti ekki sama réttar og aðrir. Það er síður en svo, að eg vilji selja þær jarðir, sem svo stendur á um, að salan geti komið í bága við hag almennings. En eins og sést á sveitarfundargerðunum, sem eg nefndi áðan, þá fer því fjarri, að svo sé ástatt hér. Eg vona, að þetta litla frv. fái framgang og skoðun manna á þjóðjarðasölumálinu bitni ekki á því Vegna þess, að nokkuð mörg fylgiskjöl eru með frv., sem væri æskilegt að menn kynti sér, þá vil eg leggja til að kosin verði 5 manna nefnd í málið.