08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Það hefir verið svarað flestum mótbárum, sem komið hafa fram gegn málinu.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) var að tala um, eftir því sem mér skildist, að ekki mundi hægt að gera þarna höfn. Landsverkfræðingurinn er þó ekki í neinum vafa um það, og það fyrir þetta verð, 75 þús. krónur, fyrir 50 mótorbáta.

Menn hafa talað um það, að ekki mundi rísa upp borg eða bær kring um þessa höfn. En til þess hefir heldur ekki verið ætlast, heldur hins, að mótorbátaútvegurinn frá Eyrarbakka og Stokkseyri flyttist til Þorlákshafnar. Við það mundu mörg mannslíf sparast en fleiri fiskar koma í land. Það hefir og verið fært fram móti þessu máli, að ekkert liggi á. Það er gamla sagan; menn reyna hér á þingi svo oft að friða samvizku sína með því að segja, að ekkert liggi á.

Þá hafa menn og fárast mikið um undirbúningaleysi þessa máls, en hvað sem um það er, þá stendur það þó fast, hvað verkið mundi kosta og hvaða gagn er að því.

Hvort garðurinn sé á þurru landi eða í sjó, skoða eg sem fyndni og lítið annað. Menn eru víst óvanir að byggja hafnir á þurru landi eingöngu.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J ) talaði um þetta mál í sambandi við fjáraukalögin sálugu, en það kemur þeim ekkert við. Sjálfur hefir hann gerst flutningsmaður, ýmist einn eða með fleirum að öðrum málum, sem ekki geta kallast betri mál en þetta. Hann ætti því að rétta okkur hendina og bjóða okkur að vera með okkur. Sparnaður í þessu efni er að spara aurana en fórna, mannslífinu, og eg get bætt við, að henda krónunni en hirða eyrinn. Því það er enginn vafi á því, að ef höfn yrði gerð í Þorlákshöfn, þá mundi fiskiútvegur aukast mikið austanfjalls, en við það blómgast hagur sýslnanna og þá um leið hagur alls landsins. Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) talaði um, að kring um Þorlákshöfn væri tómir sandar, en graslendi lítið. Áður hefir þó verið búið þar stórbúi. Fjörubeit er þar ágæt og líka hraunbeit. Það hagar þar líkt til og í Selvogi, en þar er líka búið stórbúum. Það er satt, að til slægna er nokkuð langt, en þó ekki meira en 1–2 klst. ferð. Honum þótti jörðin lítil og óvistleg. Í nefndarálitinu er skýrt frá því, að ógreidd jarðarafgjöld fyrir síðasta ár sé 500 kr. (Guðmundur Hannesson: Ekki ljóst, að það sé aðeins fyrir eitt ár). Jú, eg hélt að háttv. þm. væri svo skynugur maður, að hann vissi, að átt væri við 1 ár aðeins, en ekki 50 eða 100 ár. Það er ekkert smákot, sem gefur af sér 500 kr. í jarðarafgjöld auk alls annars.