20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Eggerz:

Í þetta skifti ætla jeg að eins að beina nokkurum orðum til háttv. þm. Dal. (B. J.), þótt jeg raunar byggist við, að aðrir mundu verða fyrri til svars.

Háttv. þingm. var eitthvað að nudda um endurgjald til sýslumanna fyrir burðareyri og símskeyti. Af því að hv. þm. mun vera óljóst um þetta efni, ætla jeg að reyna að gjöra honum það skiljanlegt. Í sumum sýslum nemur þetta endurgjald á 8. hundrað kr., og verða sýslumenn þó að greiða úr sjálfs sín vasa á 3. hundrað kr., fyrir þá sök, að þeir nenna ekki að eiga í stímabraki við stjórnina um endurgreiðslu. Þessar upphæðir ber sýslumönnum að sjálfsögðu engin skylda til að borga, enda má kalla, að hjer sje tekið úr einum vasanum og látið í hinn fyrir stjórnina, hvað frímerki og símskeyti snertir. Embættismenn hafa leyfi til að nota símann ókeypis í embættis þarfir, og gjörir það öll embættisverk greiðari, t. d. innheimtu á tollum. Það er athugandi, að enginn getur skyldað embættismenn til að nota síma, og verst væri það fyrir almenning, en ekki sjálfa embættismennina, ef þeir notuðu ekki símann. Jeg skal benda á það, að símskeytin, sem Velferðarnefndin sendi, námu sum 30– 40 kr. til sýslumanna. Jeg er viss um, að háttv. þm. Dal. (B. J.) þætti hart, ef skáldunum væri gjört að skyldu að greiða slíkt fje af launum sínum.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. á þgskj. 393, um styrk til nokkurra hreppa í Dalasýslu til að leita læknis. Háttv. þm. Dal. (B. J.) gjörði alt of mikið úr erfiðleikunum, sem á því væru fyrir þessa hreppa, að ná í lækni. Hann segir till. sína vera borna fram af því, að þessi hjeruð hefðu ekki fengið síma. Jeg skal játa það, að símar eru góðir, en þótt margt megi fá með símanum, þá verður þó ekki hægt að senda lækni með þeim. En jeg gæti nefnt mörg hjeruð, sem eiga miklu verri aðstöðu með að ná í lækni, t. d. í Norðurmúlasýslu, Borgarf. o. fl. Yfirleitt verð jeg að álíta það hála braut, að styrkja þannig hreppa; mjer finst annar vegur miklu nær, nefnilega að hækka laun læknanna í hinum afskektu hjeruðum, þar sem fáment er.

Á þgskj. 390 ber háttv. þm. Dal. (B. J.) fram beiðni um 500 kr. árlegan styrk til Magnúsar Guðlaugssonar á Bjarnastöðum. Mjer þykir leitt að geta ekki styrkt alla fátæka menn. Hann taldi þenna mann bjargvætt sinnar sveitar. Jeg held, að það sje of djúpt tekið í árinni, en hitt veit jeg, að hann er vel liðinn. En vottorðin, sem háttv. þm. lagði fram, sanna ekki neitt. Við vitum það allir, að skottulæknum er vel trúað af alþýðu manna, svo að ef maður deyr í höndunum á þeim, þá er sagt, að hann hafi átt að deyja, en ef hann deyr í höndunum á lærðum lækni, þá er stundum annað hljóð í strokknum.