21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Magnús Kristjánsson:

Það er brtt. á þgskj. 407, sem jeg ætla að leyfa mjer að minnast á nokkurum orðum. Það er sú eina brtt., sem jeg á við fjárlögin, svo að það gefur að skilja, að mjer er hún áhugamál og að jeg vænti velvildar háttv. deildar, að því er hana snertir. Vona jeg, að háttv. deild taki eftir því, sem jeg segi um tillöguna, því að rjettast er að heyra málið rætt frá báðum hliðum.

Háttv. framsm. (P. J.) gjörði þessari tillögu talsvert hærra undir höfði en öðrum, því að hann talaði um hana langt mál, þótt ekki vildi hann veita henni stuðning. Hjer liggur nú fyrir þinginu áskorun frá hjer um bil 2000 konum á Norðurlandi um, að þingið veiti 10 þús. kr. styrk til að stofna húsmæðraskóla á Akureyri, og jafnframt er farið fram á 3000 kr. árlegan reksturskostnað. Svo langt hefi jeg þó ekki þorað að fara. Jeg fer að eins fram á 5000 kr. styrk á ári til byggingar, gegn jafn miklu annara staðar frá, því að jeg gjöri ekki ráð fyrir, að hægt verði að koma skólanum upp á einu ári, en býst ekki við, að þingið 1917 verði svo illa skipað, að það neiti um lítinn styrk, ef með þarf.

Jeg ætti ekki að þurfa að fjölyrða um, hver þörf er á þessari fjárveitingu. Næg sönnun fyrir því ætti það að vera, að leitað hefir verið samskota nyrðra og undirtektir orðið góðar, sumar konur gefið 100 kr. og jafnvel meira. Þetta sýnir, að hjer er um alvörumál, að ræða.

Það skal þegar tekið fram, að þessi skóli er ekki ætlaður bænum eingöngu. Gjört er ráð fyrir mörgum heimavist um handa konum, sem heima eiga utan bæjar, og þeim eru ætluð sjerstök hlunnindi, einkanlega þeim efnaminni.

Jeg skal nú ekki fara frekari orðum um þetta í bráð, en vil lítillega taka til athugunar ummæli háttv. framsm. (P. J.). Aðalástæðan hjá honum og nefndinni gegn þessari fjárveitingu átti að vera sú, að hjer hefði fyrr legið fyrir þinginu frumv. um stofnun húsmæðraskóla í sveit. Háttv. framsögum. vildi halda því fram, að þetta mál hefði kafnað í hinu pólitíska moldviðri, sem gengið hefir fjöllunum hærra, en sannleikurinn er sá, að margir munu hafa litið svo á, að það fyrirkomulag, sem þá var stungið upp á, væri afar óhentugt frá fjárhagslegu sjónarmiði. Það hljóta líka allir að sjá, hve ákaflega mikill munur er á því, hvað slíkir skólar mundu kosta landið, hjá því, sem hjer er farið fram á. Það þarf ekki annað en minna á bændaskólana, fyrir utan það, hver munur er á að hafa skólana þar, sem hægastar eru samgöngur og best er að afla mentameðala. Háttv. framsögum. hefir ekki treyst sjer til að neita því, að stofnkostnaður tveggja slíkra skóla mundi ekki nema minna en 100 þús. kr. og reksturskostnaður árlega fyrir hvorn þeirra 10 þús. kr. eða meira, Þetta mun ekki heldur vera of í lagt,. þegar þess er gætt, að bæði þarf aðkaupa jörð; áhöfn o. fl., auk sjálfrar byggingarinnar. Ef nú báðir skólarnir kosta minst 100 þús. kr. og að auki 10 þús. kr. í árlegan reksturskostnað, þá er hjer um mikla fjárupphæð að ræða, og virðist mjer þetta ekki koma vel heim við sparnaðarstefnu þá, sem nefndin þykist fylgja fram. Þess er vert að gæta. í þessu sambandi, að miklu fleiri geta notið kenslunnar, ef skólarnir eru í kaupstöðum en í sveitum. Mjer virðist því ræða háttv. framsögum. (P. J.) miklu fremur vera meðmæli með tillögu minni heldur en hitt, jafnvel þótt hann hafi ekki ætlast til þess.

Af því að jeg ætla mjer ekki að taka oft til máls, þá vona jeg að menn afsaki, þótt jeg rifji þetta mál nokkuð upp fyrir mönnum. Hugmyndin er ekki ný. Málið var talsvert mikið rætt norðanlands, einkum í Eyjafirði og Þingeyjaraýslu, og um það haldinn sameiginlegur fundur. En þá voru einkum Þingeyingar svo einstrengingslegir, að þeir vildu ekki, að skólinn væri annarstaðar en í sveit, svo langt frá kaupstað, að engin kaupstaðarkona gæti gengið í hann.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) veik heldur kuldalega að þessari tillögu minni. Honum fórust orð einhvern veginn á þá leið, að nær væri að styrkja skólann á Blönduósi, heldur en eitthvert kák með skólanafni á Akureyri. En þótt Blönduósskólinn sje góður, þá getur víst enginn neitað því, að hann hefði átt að vera annarstaðar. Það var í trássi við guð og menn, að sá skóli var stofnaður, og þar með eyðilagður sá skóli, sem staðið hafði í Eyjafirði um 30 ár. En svona fór fyrir ofurkapp Húnvetninga, og þætti mjer ekki ólíklegt, að þeir væru nú farnir að sjá, að þetta hafi ekki verið vel ráðið. Jeg verð að álíta, að kvennaskóli Eyfirðinga hafi verið hart leikinn í þeim viðskiftum, mest fyrir hugsunarleysi þingsins, sem þá átti um málið að fjalla.

Þetta mál hefir dýpri þýðingu en margur kann að halda í fyrstu. Það er kunnugt, að konur hafa sótt um. styrk til að koma upp þessum skóla, og finst þeim þingið vera skylt til þess og vilja nú vita, hvort því hafi verið alvara með hin auknu rjettindi til handa konum; eða hvort þau bara sjeu í orði en ekki á borði. Og það hlýtur að hafa víðtæka þýðingu og afleiðingar, hvernig þingið nú hagar sjer, hvort það hefir víðsýni til að ráða hjer rjett fram úr. Ef konur sjá, að alt er skamtað úr hnefa eins og áður, þá gæti svo farið, að þær nú þegar teldu sig knúðar til að kasta sjer alvarlega inn í hina illvígu landsmálabaráttu, sem jeg teldi miður farið, og svo fjarri hinu sanna kvenneðli. En ef þær sæju, að sanngjarnlega væri tekið í mál þeirra, þá hugsuðu þær sem svo, að þær þyrftu ekki að blanda sjer inn í þingmál nje flokkadrætti að svo stöddu; þær geti borið traust til karlmannanna, geti þá rækt heimili sín, sem eðlilegast er, eins og jafnan er ríkast í eðli allra góðra kvenna.

Jeg hefi ekki reynt að gjöra þetta mál að flokksmáli, ekki farið í liðsbón enn sem komið er, treysti því, að þingið sje svo vel skipað, að í öllum flokkum sjeu þeir menn í meiri hluta, sem hafi sanngirni og víðsýni til að líta rjett á þetta mál og telji sjer bæði ljúft og skylt að verða vel við jafneðlilegri og sanngjarnri kröfu, sem þessi er af hálfu kvennanna.

Atkvæðagreiðslan um þessa tillögu sker úr því, hverjir af ykkur, háttv. þingmönnum, eru víðsýnir í velferðarmálum þjóðarinnar og hverjir ekki.

Þá er eitt enn, sem jeg vildi minnast á. Sparnaðarstefnan getur verið góð, ef henni er haldið innan vissra takmarka, en hún getur, eins og alt annað, farið út í öfgar. Hjer hefir nú farið svo, sem svo oft áður, að einn kallar það sparnað, sem annar kallar ekki sparnað. Háttv. fjárlaganefnd talar um að allir eigi að spara, en þó kemur hún með ýmsar tillögur, sem vitanlega eru miklu ónauðsynlegri en þetta, sem hún þó leggur til að verði felt.

Jeg ætla nú ekki að segja mikið meira, en vil að eins geta þess, að ef mínar tillögur verða feldar, þá mun jeg við 2. eða 3. umræðu athuga, hvort það, sem samþykki nær, sje alt svo nauðsynlegt, að ekki megi við því hrófla. Jeg hefi nú lýst minni skoðun. Jeg teldi það mjög illa farið, ef tillögur mínar yrðu leiddar á höggstokkinn í dag, en þó myndi jeg taka því með allri stillingu, því jeg er þess fullviss, að þær rísa brátt upp aftur.