28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg á hjer enga brtt., og hefi enga fjárbón hjer fram að bera. Jeg vildi samt minnast lítið eitt á þá tillögu strandferðanefndarinnar, að hún vill færa niður þann styrk, er veittur hefir verið undanfarin ár til mótorbátsferða um Hvítá í Borgarfirði, úr 800 kr. niður í 300 kr. Jeg skal ekkert um það segja, hversu rjettlátt sje að kippa þessum styrk þannig í burtu, sökum þess, að jeg stend í töluvert nánu sambandi við fjelagið, er styrks þessa hefir notið. En jeg vildi gjarna spyrjast fyrir um það hjá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), hvar hann hefði heyrt það talið efasamt, að nauðsyn væri á svona háum styrk. Enn fremur á hverju nefndin bygði þessa tillögu sína og í þriðja lagi hverjar ástæður háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) hefir til þess, að vilja fella styrkinn algjörlega. Jeg þykist vita, að Mýramenn og Borgfirðingar muni álíta, að allir þessir menn sjeu ekki nauðakunnugir hvernig hagar til á þessu svæði, og vildu því gjarna sjá í Þingtíðindunum, hvaðan þessir háttv. þm. hefðu fengið upplýsingar sínar. Þeir hafa að minsta kosti leitt alveg hjá sjer, að spyrja mig nokkurs um þetta mál, sem mjer er þó harla kunnugt, og þar sem jeg þá líka er þingmaður fyrir annað kjördæmið, er jeg nefndi. Jeg býst þó við, að það hefði aldrei dáleitt þá að tala við mig um þetta. Þó nú að það sje kunnugt, að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) sje maður fróður og vel að sjer, þá munu þeir þar efra tæplega fást til þess að trúa því, hvað sem hann segir sjálfur, að hann þekki mikið til þarna af eigin reynd, og væri því gaman og fróðlegt að vita, hvaðan hann hefir fengið þekkingu sína. Jeg get líka gefið þær upplýsingar, að 300 kr. styrkur myndi ekki verða þeginn, vegna þess, að fjelagið getur ekki gengið að því, að taka á móti svo litlum styrk, og annaðhvort mun fjelagið þá hætta ferðunum eða þá að öðrum kosti reyna að halda þeim uppi með eigin tilstyrk. Jeg vil því að eins gefa háttv. deild þær upplýsingar, að þessar 300 kr. verða ekki þegnar, og því ekki til neina að vera að láta þær standa í fjárlögunum.

Hæstv. ráðherra tók svo greinilega fram í ræðu einni, hvílík fjarstæða væri að fella í burtu landmælingastyrkinn, svo jeg skal ekki fjölyrða um það. En mjer þykir það mjög leiðinlegt, að þessi tillaga skuli hafa komið fram hjer í háttv. deild, því það er hvorttveggja, að þetta er hið mesta nauðaynjaverk og að við hefðum aldrei, eða að minsta kosti seint, komið þessu í verk af sjálfsdáðum. Verkið er líka prýðilega af hendi leyst. Það er þess vegna eins og verið sje verið að slá þá menn á munninn, sem verkið hafa unnið, með þessari tillögu. Jeg get heldur ekki skilið orsökina til þess, að hún skyldi koma fram, nema ef vera skyldi, að hún sje nokkurs konar tákn upp á íslensku stefnuna, er lýsir sjer svo einkennilega hjá einstaka háttv. þm. hjer í deildinni. Jeg hygg tillöguna óhyggilega og illu heilli hjer framkomna.

Þá er og fram komin brtt. frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um að brúa Bleikdalsá. Jeg hygg að þetta væri þarft verk; að minsta kosti kom það fram við 2. umr., að oft væri hin mesta nauðsyn á brúnni, ef læknis þyrfti að vitja, og þar að auki væri hún á póstleiðinni, og því, hvernig sem á er lítið, um mesta nauðsynjaverk að tala.

Ein brtt. er enn þá, sem mig langar til þess að mæla með. Hún er á þgskj. 594, frá háttv. l. þm. Rvk. (S. B.), og fer fram á styrk til kolanámurannsókna vestan lands. Jeg held að þetta sje sannarlegt áhuga- og alvörumál, eða ætti að vera það að minsta kosti fyrir þing og þjóð. Jeg veit að vísu, að háttv. framsögum. (P. J.) kvað erfitt að leggja fram fje sem stendur til slíks. Mjer ofbýður satt að segja næstum, hve mikið hjer er hlaðið saman af fjárbænum og tillögum til fjárframlaga, en þrátt fyrir það vil jeg ekki strika yfir þessa fjárbeiðni. Jeg álít, að við höfum ekki efni á því og það sje ekki forsvaranlegt fyrir okkur, að kasta frá okkur tækifæri, sem líkindi eru til að leiði til að beisla og hagnýta fólgna fjársjóðu og verði auðsuppsprettur landsins. Jeg vil því eindregið mæla með þessari tillögu.