12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

51. mál, sparisjóðir

Ráðherra:

Bæði 1913 og 1914 lá frumv. um sparisjóði fyrir þinginu. En svo fór í bæði skiftin að það var ekki afgreitt þaðan sem lög. Það var ekki vegna þess, að þingið teldi ekki nauðsynlegt að setja lög um eftirlit með sparisjóðum, og ýmsar tryggingarráðstafanir þeim viðvíkjandi, heldur vegna þess, að menn komu sjer ekki saman í ýmsum atriðum, hvernig því skyldi hagað.

Þegar jeg tók við stjórninni, var frumvarpið fullbúið, og þó að jeg væri í fyrra ekki samþykkur frumv. því, sem jeg nú legg fram, í öllum atriðum, taldi jeg sjálfsagt að leggja það fyrir þingið.

Um ýms atriði frumvarpsins hefi jeg því óbundnar hendur, jafnvel þótt það sje stjórnarfrumv.