19.08.1915
Neðri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Eggert Pálsson:

Það er að eins stutt athugasemd sem jeg vildi gjöra.

Mjer finst dálítil ónákvæmni í frumv., ef brtt. nefndarinnar verður samþykt. Í 2. brtt. er gengið út frá, að kirkjugarðarnir verði tveir, en í 3. gr. frumv. er sagt; að legkaup skuli greiða fyrir þá, sem grafnir eru í kirkjugarði Reykjavíkur. Hjer ætti vitanlega að standa: í kirkjugörðum Reykjavíkur.

Hvað það snertir, að óviðfeldið sje að hafa legkaup hjer í Reykjavík en ekki annarstaðar, þá er þess að gæta, að hjer stendur nokkuð sjerstaklega á. Alstaðar annarstaðar á landinu er hægt að fá land undir kirkjugarða fyrir mjög lítið verð, og víðast hvar fyrir alla ekkert. En því er ekki að heilsa hjer. Það er því ekki tiltökumál, þó að Reykvíkingar verði fyrir þessu misrjetti, sem sumir kalla svo. Einnig er þess að gæta, að hjer í Reykjavík er fleira fríkirkjufólk en nokkurstaðar annarstaðar á landinu, og er ekki nema eðlilegt, að landssjóður leggi því ekki grafreit fyrir ekki neitt. Hins vegar verð jeg að segja, að mjer þætti það ekkert óviðfeldið, þó að legkaup væri alstaðar tekið upp. Það yrði vitanlega haft þeim mun lægra, því minna sem til kirkjugarðanna þarf að kosta.