03.08.1915
Neðri deild: 23. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Bjarni Jónsson:

Að eins örstutt athugasemd. Þegar háttv. framsögum. minni hl. (Þ. J.) hafði talað, fann jeg, að jeg þurfti eiginlega ekki að standa upp. Till. minni hluta nefndarinnar um útflutningsbannsheimild, þegar aðflutningar teptust, skildi jeg svo, að þegar stjórnin óttaðist aðflutningsteppu, gæti hún grípið til útflutningsbannsins. Hitt liggur í augum uppi, að ofseint er að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann.

Þegar jeg heyrði, að háttv. framsm. minni hl. (Þ. J.) tók líkt í strenginn, sá jeg, að jeg hafði skilið rjett. Skilst mjer þá jafngott fyrir stjórnina, að taka við lögunum eins og minni hluti nefndarinnar vill ganga frá þeim, einkum ef orðalaginu væri breytt þannig, að ekki orkaði tvímælis um, hvernig þau beri að skilja. Finst mjer nú, að mjög hafi verið rifist hjer um keisarans skegg, viðvíkjandi útflutningsbanninu.

Það eina, sem menn greinir eiginlega á um, er það, hvort leggja eigi lag á vöruna um leið og útflutningabann er lagt á hana. Jeg vil standa við það, sem jeg sagði um daginn, að jeg tel rjett, að það verð verði látið ráða, sem er á heimsmarkaðinum, þegar varan er kyrsett. En af því að jeg sje fram á, að það verður harla erfitt fyrir þurrabúðarmenn að kaupa kjöt við svo háu verði, sem væntanlega verður á því, þá endurtek jeg það, sem jeg sagði um daginn, að jeg vil að þeir fái það við sannvirði, og landssjóður borgi mismuninn. (Ráðherra: Hvar á hann að fá fje til þess?). Af landsmönnum. (Ráðherra: Hvernig?). Með sköttum og tollum.

Út af þessum spurningum hæstv. ráðherra skal jeg geta þess, að mjer hefir dottið í hug, að ef stjórnin yrði fjárþrota, gæti hún gefið þessum mönnum skírteini fyrir því, að þeir ættu innistandandi verðmismuninn. Annars tel jeg áreiðanlegt, að stjórnin komist fram úr þessu á sæmilegan hátt, án hjálpar minnar. En ef hún vill þiggja hjálp mína, er jeg boðinn og búinn til að veita hana, því að jeg sje hjer hundrað vegi fyrir einn.

Jeg vil beina þeirri spurningu til nefndarinnar og stjórnarinnar, hvort ekki mætti koma þessu svo fyrir, sem jeg stakk upp á, að landssjóður verði látinn greiða mönnum mismuninn á gangverði og sannvirði vörunnar. Ef enginn annar verður til þess, má vera að jeg komi með till. í þessa átt við 3. umr. Vænti jeg þess, að þeir menn, er að málinu standa, spjalli um þetta og hugsi djúpt og lengi. Býst jeg þá við, að þeir fallist á, að þetta sje besti og greiðasti vegurinn út úr vandræðunum.