26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Skúli Thoroddsen:

Það, sem hefir gefið mjer tilefni til að koma fram með brtt. mína á þgskj. 98, eru undirtektir háttv. nefndar undir þingsályktunartillögu mína á þgskj. 86, um landhelgisvarnirnar.

Eins og nefndarálitið ber með sjer, leggur nefndin til, að þingsályktunartill. verði feld, og leiðir þá þar af, að jeg tel þá og nauðsynina enn brýnni, en ella, að efla Landhelgissjóðinn sem fyrst, svo að vjer Íslendingar getum þá sjálfir tekið strandvarnirnar að oss.

Jeg sje ekki, að það sje landinu ofvaxið, að styrkja sjóðinn með 60 þús. kr. á ári, enda aðgætandi, að hjer er þá og um það að ræða, sem vjer, hvað sem tautar, blátt áfram verðum að geta.

Það kemur ekki það árið, er ekki sjeu t. d. síkvartanir frá Vestfjörðum: Síkvartanir úr Aðalvík, Jökulfjörðum, Ísafjarðardjúpi, Dýrafirði, Patreksfirði, Arnarfirði, og hvað á að telja? Enn fremur heyrast og sömu umkvartanirnar undan Jökli, úr verstöðunum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og frá Austfjörðum (Sigurður Eggerz: Úr Skaftafellssýslu.) — sömu umkvartanirnar um það, að strandgæslan sje alsendis ófullnægjandi, eina og mjög eðlilegt er, meðan einu skipi er ætlað að annast hana að öllu leyti.

Það hefir verið haft á móti brtt. minni, — þeirri tillögu minni, að skora á ráðherra, að koma því til leiðar, við Dani, að þeir ljetu 4–5 fallbyssubáta, á stærð við botnvörpunga, annast, strandgæsluna, en notuðu »Islands Falk« á annan hátt, — »haft á móti henni«, að hún kæmi í bága við sjálfstæðisþrá Íslendinga. En jeg verð að telja það mjög einkennilega skoðun, að sjálfstæðismanni sje það ekki samboðið; að heimta skuld sína hjá öðrum, eða borgi hann öðrum fyrir framkvæmd ákveðins verks, þá megi hann þó ekki ganga eftir því, að það sje almennilega af hendi, leyst.

Jeg þykist og hafa sýnt það, að jeg er ekki minni sjálfstæðismaður en hver annar, en samt sem áður gat jeg þó ekki gengið í gildru hæstv. ráðherra, er hann sló á þessa strengi; er málinu var fyrst hreift hjer í deildinni.

En hitt get jeg vel skilið, að það gæti verið óþægilegt fyrir hæstv. ráðherra, að fara að þrefa um þetta við Dani. Jeg þykist vita, að þeim muni falla þessar málaleitanir illa, og að hæstvirtur ráðherra vilji því sjálfsagt helst vera laus við þær.

Á hinn bóginn mega menn ekki gleyma því, að því fer mjög fjarri, að hjer sje verið að biðja Dani um ölmusu. Þeir fá fulla borgun fyrir strandgæsluna, og því er það ekki nema sanngjarnt, að krefjast þess af þeim, að þeir leysi hana og full viðunanlega af hendi.

Hjer ræðir eigi að eins um það, að Danir hafa slegið því föstu, með stöðulögunum, sem þeir telja hjer gildandi, að strandvarnirnar sjeu alríkismál, heldur hafa þeir, og Færeyingar, sem og danskir þegnar yfirleitt, fengið æ að njóta jafnrjettis við Íslendinga, að því er til fiskveiðanna við Ísland kemur, og gegn því er það þá síst um of, að þeir hafi strandgæsluna á hendi, bæði í vora, og í sína eigin, þágu.

Jeg spái því og, að svo fari — verði þingsályktunartillaga mín feld, en tillaga nefndarinnar samþykt, — að þá fái þeir, sem því. valda, fyrr eða síðar, bölbænir margra.

Hitt, að byggja á því, að vjer fáum að nokkru bætt landvarnirnar, með eftirliti hjerlendra vjelbáta, býst jeg við, að geti reynst fallvalt, enda blátt áfram hættuspil, að stefna íslenskum vjelbátum á botnvörpungana, sem eiga á hættu, að missa jafn vel yfir mánaðar-atvinnu, verði aflinn gjörður upptækur, en vita ef til vill albjargarlaus heimilin, og geta því leiðst út í það, að svífast jafn vel alls einskis.

Menn verða og að gæta þess, að nú, þegar manndrápin daglega fara fram í stórum stíl víðs vegar í heiminum umhverfis oss, þá horfa margir ekki í mannslífið, verða að mun óprúttnari, en áður en Norðurálfuófriðurinn mikli hófst.

Mjer finst því, að þingið ætti nú að sýna þá sjálfstæðisþrá, að samþykkja tillögu mína á þingskjali 98, þar sem ekki er um hærri upphæð en 60 þús. króna á ári að ræða, svo að sá tíminn kæmi þá heldur fyrr, en síðar, er vjer þyrftum ekki lengur að heyra sí-kvartanir um yfirgang botnvörpunga, eins og nú á sjer stað og fá eigi að gjört.

Jeg vona því, að háttv. deild samþykki oft nefnda tillögu mína, og fjölyrði því eigi frekar um málið