16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

104. mál, útflutningsgjald

Magnús Kristjánsson:

Jeg var því miður ekki viðstaddur síðast þegar þetta mál var til umræðu, því að jeg hefði þá lagt til, að fella þetta mál þá þegar. Þegar þessi núgildandi lög um útflutningsgjald af síld voru samin, þá varð ágreiningur um það, hvort rjett væri að leggja á slíka kvöð. Þetta gjald var þungur skattur á síldarútveginn, sem var í barndómi, er lögin voru samin. Innlendir síldarútvegsmenn áttu þá við mikla örðugleika að stríða, og það útheimti mikið fje, að reka slíka atvinnu, sem síldarútgjörðin var þá. Það var því ekki nema eðlilegt, að þá komu strax fram mótmæli frá síldarútvegsrekendum gegn þessu gjaldi. Jeg átti þá þátt í, að ákvæði var sett inn í lögin, sem gjörði það að verkum, að menn sættu sig fremur við kvöðina. Nú er farið fram á, að kippa þessu ákvæði í burtu og það alveg að ástæðulausu. Ef það er viðurkent, að ekki sje rjett, að íþyngja innlendum síldarútvegi meira en gjört er, þá er það ekki rjett að kippa þessu ákvæði burtu. Þetta var viðurkent á þinginu 1907, og því var sett inn það ákvæði, að 10% af útflutningagjaldinu væri greitt í Fiskveiðasjóð Íslands og þaðan aftur íslenskum síldarútgjörðarmönnum.

Jeg vil nú biðja háttv. framsögum. þessa frumv. að athuga það, að hafi þetta verið rjettlátt 1907, þá hlýtur það að vera órjettlátt að kippa þessu ákvæði burtu nú.

Jeg geng út frá því sem gefnu, að mjer verði svarað því, að þetta sje gjört til þess að bæta landhelgisvarnirnar, og gangi því eins og áður til þess að ljetta undir með síldarútgjörðinni. En til þess er því að svara, að það virðist vera mjög óviðeigandi, að ætlast til þess af útvegsmönnum, að þeir haldi uppi löggæslu á landhelgissvæðinu, auk alls annars, sem þeir greiða í landssjóðinn. Að taka þetta fje af útgjörðarmönnum, er ekki annað en að fara ofan í vasa þeirra eftir því fje, sem landinu í heild sinni ber að borga.

Yrði þetta frumv. samþ. hjer á þinginu, þá er ekki hægt að líta öðru vísi á en að það sje spor í öfuga átt — brot á allri sanngirni. Þegar útgjörðarmennirnir fara þess á leit við þingið, að meira sje gjört til að halda uppi löggæslu á landhelgissvæðinu, þá er það frekasta, sem hægt er að heimta af þeim, það, að þeir leggi fram eitthvað mjög lítið á móti landsjóði.

Nú leggur háttv. fjárlaganefnd til, að færa hluttöku þeirra niður í 1/3 á móts við landsjóð. Það mælir líka öll sanngirni með því, að það framlag væri látið hverfa að mestu, sem áskilið er í fjárlögunum, að útvegsmenn leggi fram til landhelgisvarna. Að taka það fje, sem ætlað er til endurgreiðslu á síldartolli til innlendra manna, til greiðslu á kostnaði við landhelgisvarnir, eins og háttv. fjárlaganefnd fer fram á, það er ekkert annað en að bjóða steina fyrir brauð.

Jeg álít, að það sje mjög óviðfeldið að ráða þessu máli til lykta nú, þegar svona fáir þingmenn eru viðstaddir, því að hjer er verið að hafa endaskifti á því, sem þingið 1907 gjörði. Jeg vil því mælast til þess við hæstv. forseta, allt hann taki málið út af dagskrá.