07.09.1915
Neðri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

þó er auðvelt að sannfæra, ef rök eru. Það kann að vera rjett hjá honum, að embættismenn geti ekki gengið burtu eða sagt upp starfi sínu fyrirvaralaust, en hitt er víst, að sýslunarmenn geta það. Hann óttast dóma, en það er ekki hætt við hann verði dæmdur til að borga. (Ráðherra:

Það væri gaman að sjá hv. þm. Dal. (B. J.) sem oddamann í þessum gjörðardómum hans).

Jeg veit að þm. Dal. mundi bera þá stöðu betur en margur annar, og að minsta kosti er það meira en hægt er að segja um marga af þeim, er skipa landsstjórn oft og einatt. En svo jeg víki að málefninu aftur, þá getur það ekki komið til neinna mála, að samkvæmt þessar brtt. okkar afsali þingið sjer fjárveitingarvaldinu. Eins og menn vita, hefir stjórnin vald til að ákveða verkakaup; einungis verður þingið að samþykkja það síðar. Enda væri það erfitt fyrir þingið, ef það ætti að ráða öll sín hjú og ákveða laun þeirra í svipinn. Nei, það getur ekki komið til greina, að tekið sje fram fyrir hendurnar á fjárveitingarvaldinu með þessari breytingartillögu okkar. Hæstv. ráðherra talar um, að yfirboðarar sjeu máttlitlir gegn undirmönnum sínum, en jeg fæ ekki betur sjeð en að landið sje fullkomlega trygt, þó málið sje lagt í gjörðardóm, þegar honum er svo hagað, sem breytingartillagan segir fyrir, enda er óþarft að gjöra endilegla ráð fyrir því, að kröfur verkamanna um kauphækkun sjeu endilega ósanngjarnar, og ótrúlegt, að stjórnin þurfi að nota sultinn sem keyri á starfsmenn landins. Hæstv. ráðherra mintist á það, að hjá mörgum þjóðum væri til lög um verkfali, sem legðu meiri og minni refsingar við. En eins og flestir vita, þá er verkfali neyðarvörn fyrir heilan flokk manna, og sama er að segja um opinbera starfsmenn, ef þeir hafa engin vopn til að knýja fram kröfur sínar. Ef að verkamenn og opinberir starfsmenn gætu ekkert frekara gjört en senda vinnuveitanda sínum auðmjúkt bænarskjal um launaviðbót, þá gjöri jeg ráð fyrir, að hver og ein stjórn mundi daufheyrast, ekki síst á erfiðum tímum.

Það er full tryggilegt fyrir land og þjóð, að stjórnin skipi annan .dómarann, en æðsti dómstóll landsins hinn. Mjer er sama þótt hæstv. ráðherra nefni annan enn þá óttalegri mann en hann nefndi áðan. Það er miklu betra vopn heldur en ströng lög, að tryggja landinu og einstaklingunum góða gjörðardóm í ágreiningamálum. Auk þess er það bæði viturlegra og mannúðlegra. Það þýðir ekki neitt, þótt hæstv. ráðh. telji agnúana á lögunum formsatriði. Það sýnir ekki annað en það, að lögin eru eins og mennirnir, ekki eins góð og þau ættu að vera. Þótt hægt sje að finna einhver ákvæði í hegningarlögum annara landa, sem beita má óviturlega gegn því, sem ekki er hegningarvert, þá efast jeg um, að það sje nokkur grein til í íslenskum hegningarlögum, sem hægt sje að teygja út yfir þetta, því að þetta er í eðli sínu alls ekki glæpsamlegt. Má vera að landið einn góðan veðurdag standi vopnlaust uppi gagnvart verkfalli. Ef það er þá trygt, þá nægir. — Þetta mál er í eðli sínu ofur einfalt, og það vona jeg að allir sjái. Þessir starfsmenn eiga að hafa einhvern veg til að ná sínum rjetti, eins og aðrir menn.

Hvað sem öðru líður, þá hefi jeg þó að minsta kosti gjört sjálfum mjer það þægðarverk, með því að bera fram þessar brtt., að mjer verður ekki kent um, þótt þingið samþykki þessi lög. Slík lög sem þessi ættu ekki að vera samþykt á þingi neinnar svonefndrar menningarþjóðar, svo gjörræðisfull sem þau eru.

Með þessu ætla jeg, að nægilega sje svarað öllu því, sem fram hefir komið í þessu máli.