30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

120. mál, þingsköp Alþingis

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst við, ef Alþingi á að vera þjóðinni það, sem hún ætlast til, að þá ríði ekki lítið á, hvernig þingsköpin eru úr garði gjörð. Alþingi á að vera sverð og skjöldur þjóðinni, og þingsköpin eiga að gjöra það auðveldara, að svo geti verið. En því tryggara verður þetta,, því betur og viturlegar sem að er farið. Það má ekkert það standa í þingsköpunum, er varnar því, að þingmenn njóti sem best rjettar sína, og rjettur kjördæmanna sje ekki fyrir borð borinn, og það hvaða flokkur sem á í

hlut. Það er því nauðsynlegra og auðsæjara en margt annað, að þingsköpin eiga og mega ekki vera óviturlega samin, svo að þau geti ekki valdið skaða.

Háttv. framsm. meiri hl. (J. M.) talaði um breytingartillögur, er væru til bóta. Við erum þá sammála um það, að allar breytingartillögur, er samkvæmar eru stjórnarakránni, sjeu til bóta, og hafi átt fram að koma. En það var ein, sem hann mintist ekki á að koma mætti fram, en það var um ákvæði um, hvernig þingmenn ættu að haga sjer ef t. d. forseti sjálfur yrði vitskertur. En við því er gjört með því, að þingið geti vikið honum frá.

En um það sem jeg tel aðallega til bóta fyrir þingið, eru föstu nefndirnar, því að allir hljóta að vera sammála um það, að meira verði af forsjá unnið, ef þær væru kosnar þegar í þingbyrjun. Þær myndu leggja sig óðara í framkróka með að rannsaka og íhuga málin, því að málin græða ekki svo mikið á því, þótt nefnd setjist niður, svo sem nú er títt, og allir í nefndinni lýsi yfir því, að þetta og þetta sje sín skoðun, að órannsökuðu máli.

En jeg get ekki fallið frá þeirri skoðun minni viðvíkjandi 16 gr., að rjettara sje, að ákveða starfsvið nefndanna í lögunum.. Stæði það berum orðum í lögunum, álít jeg að ekki yrði farið í kringum það, því að þá sæist, hvaða mái ætti að hverfa undir sjerhverja nefnd, þar; sem nú er ekkert beinlínis ákveðið um það.

Um fjölda nefndanna skal jeg svara því, að mjer þykir sjálfsagt, að í þingsköpunum sje gjört ráð fyrir verslunar- og iðnaðarnefnd. Þá nefnd tel jeg einna mesta. Og ef einhver skyldi segja, að það starfssvið, er jeg ætla henni, geti horfið undir samgöngumálanefnd, þá er því að svara, að þótt sú nefnd sje mikilsverð, þá getur hún þó ekki látið til sín taka kjör daglaunamanna og atvinnumál, er ekki heyra undir landbúnaðareða sjávarútveganefnd. En þetta er hvortveggja mjög mikilsvarðandi mál, og veitir því ekki af sjerstakri nefnd, til þess að hafa þau með höndum.

Jeg skal taka það undir eina fram, að þó að frv. verði samþ. óbreytt, þá vil jeg þó ekki láta það sjást, að jeg þegjandi hafi látið það við gangast, að sumar tillögur meiri hlutans kæmist fram.

Fyrst skal jeg þá snúa mjer að eiðstafnum. Hann er sniðinn eftir eiðspjalli Marðar Valgarðssonar, þar sem hann býður Flosa »at hlýða til eiðspjalls síns ok til framsögu sakar«, (Njálssaga, Rvík 1894, kap. 142, bls. 359). Mjer þykir ekki hyggilegt, að taka þenna eið hjer upp, því að þessi eiður er ekki þingmannseiður, heldur eiðspjall málaflutningsmanns. Því að þar sem talað er um vætti, og inna af hendi lögmæt skil, er fram koma, á eigi við um þingmenn, því að varla er hægt að orða það svo, að þeir eigi að inna skil af hendi.

Um hátíðablæinn, sem háttv. framsm. meiri hlutans (J. M.) sagði að væri yfir orðunum: »jeg sver og segi það guði«, þá er meiri hlutanum ekki of gott að eiga ánægjuna og heiðurinn af þessu. En hjer kunna að koma menn, er ekki trúa á guð, og því er betra að vinna lögeið. Og þó að háttv. framsm. meiri hl. þyki ekki orðalag mitt smekkvíslegt, þá má lengi deila um það, hvort orðalagið ber af öðru, en það get jeg sagt honum, og það með jafnmiklum rjetti, að mjer þykir mitt orðalag miklu smekkvíslegra, og óefað er það miklu rjettara, enda mun það verða almannadómur.

En hins vegar skiftir það ekki svo miklu máli, hvernig eiðstafurinn er orðaður.

Svo er það út af brtt. minni við 5. gr. frumvarpsins. Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir mint mig á, að mjer hafi gleymst að breyta öðrum orðum í samræmi við þetta. Jeg tek því þessa brtt. aftur að sinni, og bið háttv. forseta að taka eftir þessu.

Þá kem jeg að 9. gr. Þar hefi jeg ekki heldur getað orðið sammála meiri hluta nefndarinnar, og get ekki orðið það. Raunar var jeg ekki mjög harður á þessu í nefndinni, en við nánari athugun sannfærðist jeg um, að ef t. d. efri deildar þingmaður deyr, kosinn óhlutbundinni kosningu, þá sje rangt að kjósa annan mann beinlíns í sæti hans, heldur skal kjósa mann í sæti hins látna í Ed., þannig, að sameinað Alþingi kjósi einhvern þingmanna, kosinn óhlutbundinni kosningu. Er þá óvíst á hverjum valið lendir.

Þetta kemur bæði af því, eins og tekið er fram í nefndaráliti minni hlutans, að þetta getur brjálað um of flokkahlutföllum og jafnvel orðið stjórn að falli, og þó að jeg sje ekki neinn stjórnarvinur, hvorki fæddrar nje ófæddrar, þá þykir mjer þetta varhugavert, því að Ed. verður hjer eftir þýðingarmeiri fyrir stjórnina og þjóðmál öll, er þeir konungkjörnu eru dottnir úr sögunni.

Þá kem jeg að hinu, sem mælir á móti tillögum meiri hlutana í þessu. En það er það, að í stjórnarskránni er til tekið, að þeir, auk þeirra þingmanna, er kosnir eru hlutbundinni kosningu, sem eiga sæti í Ed., skulu kosnir af sameinuðu . Alþingi, eins og áður er sagt. En sje hinn nýkosni þingmaður beinlínis kosinn í stað hins látna, eins og meiri hl. vill, er stjórnarskráin bersýnilega brotin.

Þetta atriði kom ekki til orða í nefndinni, og jeg vona því, að háttv. meiri hluti samþykki þetta, er hann athugar það.

Þá er það brtt. mín við 11. gr. viðvíkjandi skrifstofustjóra. Mjer virðist svo, að vald forsetanna til þess að ráða starfsmenn þingsins, sje mjög skert með ákvæði frumv. um þetta. Því að þótt gjört sje ráð fyrir því, að skrifstofustjóri ráði starfsmenn þingsins með samþykki forseta, er það ekki sama, sem þeir hafi völdin í þessu efni. Og jeg verð harðari á þessu, eftir að háttv. framsm. meiri hlutans (J. M.) talaði, því að hann kvað þetta vera meira en orðabreytingu. Með öðrum orðum vald forsetanna er minkað.

En það vil jeg ekki, því að þeir geta haft stuðning skrifstofuatjóra um ráðningu þessara manna — og það tel jeg alveg rjett, — án þess að vald þeirra sje skert. Annars er jeg sammála meiri hlutanum um það, að ráða skrifstofustjóra til langa tíma.

Á brtt. mína við 16. gr. hefi jeg minst hjer að framan, og læt jeg þar við sitja: Þá verð jeg loks að gjöra grein fyrir afstöðu minni út af þrem síðustu brtt. mínum, því að þar er mikið sem í milli ber.

Jeg tel það ótækt, og næstum vítavert, að koma fram með slíkar tillögur sem tillaga meiri hlutana er, um að gjöra tiltekinn meiri hluta (»qualificeret Majoritet«) að skilyrði fyrir fjárveitingu, er fjárveitinganefnd hefir ekki fallist á. Með því er þeim þingm., er í henni eiga sæti, gefið meira vald en öðrum þingmönnum. Mennirnir eru þó ekki kosnir í nefndina, til þess að fái meira vald en aðrir, heldur eru þeir kosnir í nefndina til þess, að afla sjer og öðrum upplýsinga um þau mál, er undir nefndina hverfa, skýra þau og greiða úr þeim eftir föngum. — Rjettur þessara manna er því nákvæmlega sá sami, sem annara þingmanna, hvorki minni nje meiri.

Þetta ákvæði frv. er ótækt, því að af því getur. leitt misrjetti og ranglæti gagnvart þeim kjördæmum, sem sá einstaki maður er fyrir. Jeg get líka bent á, að þetta er hárbeitt vopn í hendur flokkunum á mótstöðumenn sína. Því ef sá tiltekni meiri hluti kæmi í framkvæmd, yrði meiri hl. fjárveitinganefndar á móti tillögu hina einstaka þm. Og eftir andanum að dæma, má ekki kljúfa fjárlaganefnd og koma fram með minni hluta tillögu, því að þótt þetta sje hvergi beinlínis nefnt, má samt lesa á milli línanna, að ekki er ætlast til að nefndina megi kljúfa. Þetta er hugsanagangurinn og verður hann líklega færður út í æsar.

En þótt þessi yrði í ekki raunin á, og minni hluti gæti komið fram með sinar breytingartillögur, þá yrði samt mönnum, er væru utan flokka, eða hefðu fámennan flokk að baki sjer engin björg vís. Þeir væru alveg komnir upp á náðir fjárlaganefndar. Því þótt þeir ættu víst, að hafa allan þorra atkvæða þingdeildarinnar á sínu bandi, næði fjárveiting sú, er þeir bæru fyrir brjósti, hversu sanngjörn og sjálfsögð sem hún annars væri, ekki fram að ganga, ef fjárlaganefnd vildi ekki taka hana upp. Þann veg tækju einir 5 menn í fjárlaganefnd öll ráð af meiri hluta allrar þingdeildarinnar. Og er þar langt farið.

Þar að auki er það hlægilegt, að fara að koma með sjerstaka atkvæðagreiðslu um útgjaldatillögur, eins og það sjeu merkilegri mál en alt annað. Alveg eins og það sje merkilegra, svo að jeg taki dæmi, að jeg kom fram með tillögu um bryggju í Salthólavík, en að jeg kæmi fram með breytingartillögu móti mentamálanefnd við einhverjar tillögur hennar, t. d. um refsiákvæði, varðandi líf og æru, og þær væru taldar bandvitlausar, en gengi fram, af því að meiri hlutinn er vitlaus í deildinni.

Það er svo hlægilegt, segi jeg aftur, að gjöra svo mikið úr þessu, því að það er engin hætta á því, að tillögur einstakra manna, er næmu stór-upphæðum, fyndu náð í augum deildarinnar, eða þessir einstöku menn gætu mútað henni. Það mundi aldrei koma fyrir. En þó að róið væri öllum árum að því, að koma slíkum fjárveitingum einstakra þingmanna fram, yrðu þær samt aldrei samþyktar á móti vilja fjárlaganefndar.

Tillögur um fjárveitingar til stórfyrirtækja, kæmust því aldrei fram frá einstökum þingmönnum. En ef meiri hluti þingdeildar vill láta útgjöld, enda þótt þau sjeu borin fram af einstökum mönnum, ná fram að ganga, þá vil jeg spyrja: Hvaða rjettur er þá á þvj, að láta þau ákvæði standa í þingsköpunum, er banna þennan sjálfsagða hlut. Enda er þetta blátt áfram brot á móti stjórnarskránni, því að þar stendur að frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga, er þau hafa gengið í gegn um 8 umræður, verði samþ. þannig, að um það ráði það eitt, að meiri hluti greiði þeim atkvæði. Um önnur lagafrumvörp ræður tiltekinn meiri hluti, en fjárlaga- og fjáraukalagafrumvörp eru undanþegin þessu ákvæði.

Þetta er ekki andi stjórnarskrárinnar. Andi stjórnarskrárinnar er sá, að hefta þá fyrst framgang máls, er það hefir gengið í gegnum allar umræður í báðum deildum, og er komið í sameinað þing, og hann er viturlegri en þetta, þar sem hann ákveður jafnvel, að um fjárlagaákvæði skuli ráða einfaldur meiri hl. Og jeg kann þá ekki að lesa lög, ef það er ekki alveg óleyfilegt, stjórnarskrárinnar vegna, að setja í lög annað eins og þetta ákvæði meiri hl., og þess vegna vona jeg, einkum af þessari ástæðu, að háttv. deild felli það, en fallist á till. mína.

Þá vill háttv. meiri hluti spara tíma og peninga með því, að taka fyrir munninn á framsögumönnum nefnda. Látum nú þetta vera, ef alt væri óbreytt um nefndaskipanir, eins og áður var en þar sem nú eiga að koma fastanefndir, og þar sem gjöra má ráð fyrir, að þeir verði valdið til að vera framsögumenn, sem færastir eru, þá er þetta sjerstaklega óskynsamlegt, að takmarka málfrelsi þeirra. Jeg skal taka það dæmi, að nú spyr jeg framsögum. að einhverju, og hann geymir sjer að svara, til þess að tala sig ekki dauðan, en þá spretta upp einir 10 aðrir þingmenn og tala allir um þetta sama atriði.

Ef nú framsögum. hefði svarað strax, þá hefði ef til vill sparast alt það hjal, og kemur það þá í ljós, að þetta er öfugur sparnaður. Það fjölgar ræðunum, en fækkar þeim ekki, og þingið nær ekki með því þeim göfuga tilgangi, að taka fyrir munninn á sjálfu sjer. Jeg held að sú skoðun hafi ekki orðið til fyrr í nokkru landi, að þingmenn eigi að vera bundnir við eintal sálarinnar við sjálfa sig, af því, að annars tali þeir ofmikið eða heimskulega, og jeg fyrir mitt leyti geng ekki að slíku fyrir mína hönd eða þingsins. Það getur verið, að nú vilji sumir helst hlaupa út eða í felur, til þess að forðast menn, sem ef til vill gætu sannfært þá með ræðu sinni, eða gjört þeim örðugra fyrir að framkvæma vitleysurnar, en þeir ættu samt ekki að álykta af því, að svo ætti eða þyrfti ætíð að verða framvegis, því að það er þó hugsanlegt, að upp kunni að koma þeir menn, sem geti sannfærst af skynsamlegri ræðu. Jeg tel það illa ráðið, og hreint og beint ósæmilegt, að hefta málfrelsi þeirra manna, sem þjóðin hefir sent til að fara með mál sín. Það er ekki slæleg mynd af þingi að tarna, þar sem fulltrúarnir mega helst ekki tala neitt um málin, og greiða svo leynilega atkvæði um þau á eftir! Mjer er sem jeg sjái gengið um með kúlnakassana! Það þarf svo sem ekki að óttast, að borgaralegt frelsi slíkrar þjóðar komist á neinar villigötur, þar sem engu er spilt með óþarfa hjali! — Nei, það er segin saga, að þessar þrjár tillögur: Um tiltekinn meiri hluta, um mestu smámál, en ekki um stærstu velferðarmál; um takmörkun á málfrelsi fulltrúanna, og um leynilega atkvæðagreiðslu. Það er lyklakippa, sem jeg vil ekki ganga með; og jeg vildi ekki vera íslenska þjóðin, og eiga frelsi mitt og velferð undir leynilegri atkvæðagreiðslu þegjandi manna, og þeirra, sem samþykkja slíkt.

Eitt atriði er enn, sem ekki hefir verið vikið að, sem sje ákvæðið um það, að enginn megi greiða atkvæði með styrk til sjálfs sín eða sinna nánustu vandamanna. Það er ekki langt síðan hjer voru greidd atkvæði um fjárveitingarnar til þeirra nafna, dr. Helga Pjeturss og Helga bróður míns, sem gjört hafði verið ráð fyrir í frv. stjórnarinnar, en farið að hrófla við í nefnd. Ef jeg hefði nú ekki mátt greiða atkvæði um styrkinn til bróður míns, eina og til hins mannsins, þá hefði hann fallið, því að þetta marðist rjett í gegn, og það hefði jeg talið illa farið, ekki af því, að hann er bróðir minn, heldur af því, að jeg tel styrknum vel varið, og þegar svo er, þá myndi jeg greiða atkv. með fjárveitingunni. jafnvel þótt versti fjandmaður minn ætti í hlut. Það er jafnvel vafasamt, hvort það er rjett, að meina þingm. að greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. Hún getur sem sje haft aðra hlið en hina fjárhagslegu. Hún getur haft rjettarhlið, þannig, að látin sje í ljósi sekt eða sakleysi mannsins með því, hvort hann fær fjárveitinguna eða ekki, og hví má þá ekki þingm. greiða atkvæði um það í þessu formi, þar sem t. d. jafnvel ráðherra má neyta rjettar síns sem þingmaður í deild til þess að greiða atkvæði um það, hvort hann skuli dreginn fyrir landsdóm eður eigi? Hví ætti þá ekki hver þingmaður að mega greiða atkv. um lítilfjörleg fjármálefni, jafnvel þótt hann eigi sjálfur í hlut, því hvað eru peningar í samanburði við æruna?

Það er ekki langt síðan að þvarg varð um gæslustjóra Landsbankans, og þeir greiddu sjalfum sjer atkv., og var það þá ekki komið á stefnuskrá heimastjórnarmanna, að meina þingm. atkv. í sjálfs sín sök. En upp á síðkastið hafa þeir sýnt lofsverða þrautseigju í því, að koma með slík ákvæði hvað eftir annað, því að þaðan er þetta runnið, og er það víst ekki gjört út í loftið.

Það ætti nú hverjum manni að vera auðsætt, að málið á hjer fram að ganga með þeim breytingum á stóratriðum, sem jeg hefi talað fyrir hjer.

Að því er tekur til þessa, er jeg taldi síðast, þá er það að eins aths., sem jeg gjörði, en engin brtt. Jeg álít það smámunasemi og ástæðulaust, að meina manni að greiða atkvæði um fjárveitingu til sjálfs sín, þar sem það getur alt af komið fyrir, að hann dæmi um annað, sem miklu meira er vert, í sjálfs ein sök. Mjer hefir oftar en einu sinni verið brigslað um það, að jeg hafi notað tækifærið hjer á þingi til að greiða atkvæði með sjálfum mjer, en jeg vil nota þetta tækifæri til þess, að lýsa yfir því, að það er rógur einn og lygi.