31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

93. mál, hagnýting járnsands

Björn Kristjánsson :

Háttv. 2. þm. N.-M. (J. J.) bar, að því er mjer skildist, kvíðboga fyrir því, að þessir menn, sem um einkaleyfið sækja, mundu. ekki fá að njóta einkaleyfisins, ef ráðherranum væri í sjálfsvald sett, hverjum hann veitti leyfið. Jeg sje ekki ástæðu til að óttast þetta svo mjög, en býst við því, að hæstv. ráðherra taki til greina umræður þær, sem orðið hafa hjer í deildinni, og láti þessa menn sitja fyrir, þótt það sje ekki beint tekið fram í frumvarpinu. Mjer þykir það eðlilegra, að þeir fái að sitja fyrir að verða einkaleyfisins aðnjótandi, vitanlega að öðru jöfnu. Úr því að þeir hafa brotið ísinn, þá er rjett að þeir fái að njóta ávaxtanna af vinnu sinni, en hitt finst mjer ekki rjett, að þeir fái einkaleyfið, svo framarlega sem aðrir bjóða miklu betri kjör.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þingm. (J. J.) sagði um það, að æskilegast væri fyrir einkaleyfishafana, að fá einkaleyfið bundið við alla sanda á landinu, þá er það vitanlega rjett, að það er mjög æskilegt fyrir þá. En hvort að þjóðfjelaginu er það jafn æskilegt, að slíkt einkaleyfi verði veitt, er annað mál. Jeg óska, að hæstv. ráðherra vildi gjöra svo vel að láta það í ljós, hvort hann mundi ekki láta þessa menn sitja fyrir, þó að einkaleyfið væri ekki bundið við nafn. Mjer virðist, að þótt nauðsynlegt sje að setja lög um þetta efni, sem jeg raunar efast um, þá sje þó ekki nauðsynlegt að setja stjórninni skilyrði fyrir því, hverjum einkaleyfið megi veita.

Það getur verið, að það verði til baga, eins og háttv. þm. N.-M. (J. J.) komst að orði, að útiloka útlendinga frá þessu fyrirtæki, en jeg sje ekki, að það sje gjört með brtt. mínum. Jeg skal benda honum á eitt hlutafjelag hjer í bænum, sem er sams konar eins og jeg gjöri ráð fyrir, að hægt væri að setja á laggirnar í þessu tilfelli. Það er hlutafjelagið »Edinborg«. Það hlutafjelag starfar fyrir enskt »capital« að öllu leyti, en er þó innlent fjelag. Mætti nú ekki í þessu tilfelli setja á stofn slíkt fjelag? Það var það, sem jeg meinti þegar jeg samdi brtt. mínar.

Eina árs uppsagnarfrestur er hjer settur til þess, að gefa leyfishöfum tæki- færi til að kippa því í lag, sem aflaga fer.

Mjer skildist á háttv. framsm. (J. J.), að hann áliti, að það væri ekki hægt að vinna járn úr sandi úti á sjó. En það má að sjálfsögðu eins vel gjöra það úti á sjó, eins og í landi, hvort sem til þess eru notaðar vjelar eða rafmagn.

Það fer eftir því, hvernig maður lítur á þetta mál, hvort maður vill fela stjórninni að setja skilyrðin. Jeg hygg að það sje tryggast, að þingið sjálft setji skilyrðin sem allra greinilegust, svo að stjórnin hafi ekki annað að gjöra en að hegða sjer þar eftir.