19.08.1915
Neðri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

73. mál, Siglufjarðarhöfn

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Mig furðar á því, að háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) skuli ekki taka því með þakklæti, að nefndin leggur það til, að landssjóður ábyrgist 150 þús. kr. lán til hafnargjörðarinnar á Siglufirði.

Háttv. þm. (St. St.) mintist á Vestmannaeyjar í þessu sambandi, en það tvent er ekki nefnandi í einu, vegna þess, að í Vestmannaeyjum er ákaflega mikil framleiðsla af Íslendingum einum, og auk þess er hættan þar mikil, sem ekki er á Siglufirði.

Út af vjefengingum hans á þeim orðum mínum, að við mundum betur settir, ef Norðmenn hættu veiðum hjer við land, þá skal jeg geta þessa í fyrsta lagi, að öll síld kemur utan af hafinu, þar sem þeir stunda veiðarnar, og í öðru lagi, þá spilla Norðmenn fyrir okkur á heimsmarkaðinum. Framleiðsla þeirra færir verðið svo afar mikið niður, og jeg býst við því, að verðmunurinn, sem yrði, ef við værum einir um hituna, mundi fullkomlega vega upp útflutningsgjaldið. Jeg er því sannfærður. um það, að það er enginn búhnykkur fyrir okkur Íslendinga, að vera að greiða götu útlendinga, sem spilla fyrir okkur á heimamarkaðinum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið, en vænti þess, að tillaga nefndarinnar verði samþykt. Lengra finst mjer ómögulegt að fara.