12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

95. mál, stofnun Landsbanka

Framsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Jeg þarf ekki miklu að bæta við það, sem jeg sagði áðan. En út af því, sem háttv. framsm. minni hlutans (J. M.) sagði, vil jeg taka það fram, að það var ekki meining mín, þótt jeg kunni að hafa komist einhvern vegin þannig að orði, að jeg yrði misskilinn, að háttv. minni hlutinn væri með neinn ófrið. Jeg skal segja háttv. þingm. (J. M.) hreinskilnislega hvað fyrir mjer vakti. Við vitum allir hverjar pólitískar væringar hjer hafa átt sjer stað; og sumir gætu ætlað það enn, eins og áður, að eitthvað slíkt lægi á bak við, þegar farið er að skora á stjórnina að gjöra eitthvað. Háttv. 1. þingm. G.-K. (B. K.) sagði það við 1. umræðu þessa máls, að öll afskifti stjórnarinnar af bankanum hafi verið pólitísk. Jeg veit nú ekki hve mikið kann að vera hæft í þessu, en það þykist jeg mega fullyrða, að nokkuð sje til í því, og af því að jeg legg áherslu á það, að bankinn verði framvegis ópólitísk stofnun, svo að hann geti starfað í friði, óáreittur af flokkunum, þá virðist mjer ekki ástæðulaust, þótt þetta væri haft bak við eyrað. — Það er alls eigi þar með sagt, að vantreysta þurfi þeirri háttv. stjórn, er nú situr að völdum, í þessu; það getur verið, að hún reynist vel að því leyti; hún er alveg óreynd enn þá; en það er ekki óhugsandi, að eitthvað slíkt gæti verið á seyði, sem benti í þá átt, að hjer væri pólitík á ferðinni, því að þótt leiðinlegt sje að þurfa að segja það, þá er það nú satt samt, að pólitíkin hefir haft of mikil áhrif á þessi mál. Það getur verið, að jeg hafi komist eitthvað ófimlega að orði í garð háttv. minni hlutans, en þetta var nú samt ekki út í bláinn sagt.

Nefndin hefir öll orðið sammála um það, að nauðsynlegt sje, að greiða fyrir viðskiftum vorum erlendis og að hafa til þess sjerstakan mann. Þetta hefi jeg áður tekið fram, og jeg endurtek það, að það er bankinn, sem á að standa fyrir framan, þegar lán eru tekin þar. Það er öfugt, sem nú á sjer stað, að landsstjórnin gjöri það. Bankinn á að útvega landinu lán, en landið ekki bankanum.