16.07.1915
Neðri deild: 8. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

11. mál, verðtollur

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Það er rjett hjá hæstv. ráðherra, að frumv. er ekki undirbúið af mjer. Jeg tók það upp, eins og það lá fyrir til 3. umr. á þinginu 1912. Höfðu þá margir lögfróðir menn um það fjallað, svo jeg taldi ekki hætt við því, að nefnd gæti ekki tekið það til meðferðar, og hirti jeg því ekki um að laga á því þá galla, sem á væru frá mínu sjónarmið. Hafði jeg hugsað mjer, að geyma allar umræður um frumvarpið þangað til nefnd hefði fjallað um það, og mjer og öðrum, þar meðal hæstv. ráðherra, gefist kostur á, að gjöra tillögur til breytinga.

Það atriði, sem hæstv. ráðherra tók fram, að tollurinn hækkaði þegar verð vörunnar hækkaði, er að vísu rjett. En óvenjulega verðhækkun er rjett að skoða sem óhapp, og þess er einnig að gæta, að tollurinn lækkar, þegar varan lækkar í verði, og er það að skoða sem happ.

Jeg veit ekki, hvort menn vilja leggja mikið upp úr þessu frumvarpi, en engum mun þó dyljast það, að grundvallarreglan, sem í því felst, að leggja á verð en ekki vog, er miklu rjettlátari og nær skynsemi. Yfirleitt tel jeg alla tolla rangláta., hverju nafni sem nefnast, nema verndartolla, þegar alveg sjerstaklega stendur á.