06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

11. mál, verðtollur

Magnús Kristjánsson :

Jeg hefi áður látið í ljós skoðun mína á þessu máli, og get því verið stuttorður.

Jeg tel það illa farið, að vörutollslögin skyldu vera framlengd. Og þegar það er athugað, að nefndin hefirklofnað, ekki einungis í þrent, heldur jafnvel í fernt, þá hlýtur það að vera af því, að nefndarmenn margir hafa verið mjög hikandi. Þótt þeir hafi greitt atkvæði með framlengingunni, þá hafa þeir samt viljað sýna, að þeir væru ekki mótfallnir þessu frumv. Af því marka jeg, að þótt vörutollslögin hafi verið framlengd nú, þá verði það samt í síðasta sinn. Það liggur í augum uppi, að þar sem svo hagar til sem hjer, að engin veruleg tollgæala á sjer stað, þá hlýtur verðtollur að hafa ákaflega mikla yfirburði fram yfir vörutoll. Þetta er svo augljóst, að ekki þarf að rökstyðja það nánara.

Þetta stóra nefndarálit meiri hl. hefir verið athugað af minna hl.,og get jeg í einu og öllu undirskrifað það, sem hann hefir fært fram máli sínu til stuðnings.

Að halda því fram, að fátæklingum eða efnaminni mönnum sje íþyngt með verðtollinum, nær ekki nokkurri átt. Það er augljóst, að gjald efnamannanna verður hærra, bæði til eigin þarfa og til fjölskyldna þeirra, en hinna, sem spara verða hvern eyri.

Jeg er fullkomlega sannfærður um það, að ef þingið framvegis verður ekki mjög óheppilega skipað, þá verður það eitt af aðalætlunarverkum þess, að fá breytt þessu fyrirkomulagi.

Jeg sje ekki brýna ástæðu til þess, að fara lengra út í þetta mál nú; vildi að eins hafa lýst afstöðu minni til þess. Þótt óviðfeldið kunni að sýnast að afgreiða bæði þessi tollfrumvörp í senn, þá mun jeg þó greiða atkvæði með þessu frumvarpi, þótt gjöra megi ráð fyrir, því miður, að þeir, sem greiddu atkvæði með framlengingu vörutollsins, muni snúast á móti þessu frumv. En sannast mun það, að þess verður ekki langt að bíða, að þessi stefna verði ofan á.