06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Hjörtur Snorrason:

Eins og jeg hefi tekið fram í athugasemd þeirri, er jeg ritaði neðan undir nefndarálitið í þessu máli, er jeg að mestu leyti samþykkur samnefndarmönnum mínum,hvað ástæðurnar snertir, en ósamþykkur þeim, er snertir niðurstöðuna. Jeg viðurkenni að vísu þörfina á því, að umrætt embætti sje stofnað og til þess liggja aðallega tvær ástæður. Sú er önnur, að Háskólinn hafi nú má ske ekki þeim kenslukröftum á að skipa, sem fullnægi kensluþörfinni í fræðum þeim, sem hjer er um að ræða. En hin ástæðan er sú, að jeg tel þingi og stjórn landsins skylt að hlynna sem best að Háskólanum, sem enn þá má hvítvoðungur heita, hlynna svo að honum, eftir því sem ástæður leyfa, að hann nái tilgangi sínum sem slíkur, og verði landinu til sem mests gagns og sóma. En þrátt fyrir þetta álít jeg, að naumast sje rjett, að umrætt embætti sje stofnað nú á þessu þingi, þar sem brýn nauðsyn krefur; að svo varlega og sparlega sje farið með fje landsins, að hefta verður framgang jafnvel nauðsynlegustu fyrirtækja, er miða að því, að bæta samgöngur og eða framleiðsluna í landinu, sem telja verður aðalskilyrðin fyrir efnalegu sjálfstæði þjóðarinnar. Jeg mun því ekki greiða atkvæði með því, að umrætt embætti sje stofnað í þetta sinn.