30.07.1915
Neðri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

42. mál, Möðruvellir í Hörgárdal

Bjarni Jónsson; Jeg ætla að gjöra örlitla grein fyrir undirskrift minni undir nefndarálitið, af því að jeg hefi bætt þar við einu litlu orði, orðinu ósamþykkur. Jeg vil lýsa í örfáum orðum í hverju það ósamþykki er fólgið. Jeg get ekki sjeð, að eftir þeirri stefnu, sem ráðið hefir í þessu máli, sje hægt, með nokkurri skynsemd, að gjöra upp á milli manna, sem sækjast eftir að fá ábýlisjarðir sínar keyptar, þegar svo stendur á, að hið opinbera þarf ekki á jörðunum að halda. Þó að jeg, að grundvellinum til, sje á móti allri þjóðjarðasölu og vildi helst, að þveröfug stefna væri tekin í því máli, þá get jeg ekki verið því samþykkur, að einstakir menn sjeu ranglættir, með því að draga eina og eina jörð undan, þegar ekkert mælir á móti því, að jarðirnar sjeu seldar, frá sjónarmiði þeirrar stefnu, sem annars er látin gilda.

Nú er það auðsjeð, að þessi hálflenda, sem hjer er um að ræða, er ekki þannig, að hið opinbera þurfi nokkurn tíma á henni að halda. Þessi helmingur var áður skólajörð. En nú datt mönnum það snjallræði í hug, að flytja skólann til Akureyrar, og má búast við, að þeirri stefnu verði haldið áfram, að setja þar alla skóla. Hinn helmingurinn er prestsetur, og er nægur til þess, að allra dómi.

Hvað mælir þá á móti því að selja þenna jarðarhelming? Jú, það er þessi undarlega grasbýlishugmynd. Nú er það vitanlegt, að ekki getur komið til mála, að nokkur maður geti framfleytt sjer og sínum á grasbýlisbúskap einum saman. Grasbýli verða aldrei nema aukageta handa þeim mönnum, sem annara stunda fiskiveiðar eða iðnað. Fyrir því er augljóst, að grasbýlin verða að vera í námunda við verstaði eða kaupstaði. Hitt er barnaskapur, að ætla sjer að skifta niður í grasbýli jörðum, sem liggja langt inni í landi, langt frá verslunarstöðum og verstöðum. En svo er því farið um þessa jörð, svo sem kunnugt er.

Vegna þess, sem jeg hefi nú tekið fram, er jeg samnefndarmönnum mínum ósamþykkur í þessu máli, og vil leggja til, að frumv. verði samþykt.