24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

74. mál, skipun prestakalla

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg ætla ekki að fara að minnast á fríkirkjuhugmyndina, heldur ætla jeg að eins að minnast á fyrirkomulag þjóðkirkjunnar, viðvíkjandi prestafjöldanum. Jeg hefi alt af litið svo á, þegar minst hefir verið á þetta mál, að mátulegt mundi vera að hafa hlutfallslega nokkuð jafnt af prestum og læknum. Jeg fæ ekki sjeð, að fleiri presta þurfi en lækna. Nú höfum við miklu fleiri presta, og álít jeg það öfugt, og þess vegna hlýt jeg að vera á móti frekari fjölgun þeirra. Þetta er ekki af því, að jeg hafi neinn ímugust á prestum — öðru nær. En við erum svo fáir og höfum nóg við okkar fje að gjöra, að það má alte ekki fleygja því út í hálfgjörðan óþarfa. Jeg fæ ekki heldur skilið það, að það geti rýrt mikið trúarlífið, þótt sjaldnar sje messað, og jeg hefi tekið eftir því, að messuföll eru, þar sem jeg þekki til, mikið sjaldgæfari, tiltölulega, á annexium en aðalkirkjum. Annars hygg jeg, að heppilegra væri, að hafa messur sjaldnar en þær eru, en láta í þess stað koma andlega fyrirlestra, sem væru baldnir 6–8 sinnum á ári við hverja kirkju, og mundu þeir verða vel sóttir og hafa bætandi áhrif á fólkið og trúarlífið. Þess ber líka að gæta í þessu tilfelli, að það er einskis manns líf í hættu, þótt messufall verði, en sje ekki hægt að ná í læknir fljótlega, hefir það oft valdið hörmulegum afleiðingum. Það er því auðsætt mál, að lækna er miklu meiri þörf en presta. Hjer á þinginu hafa oft áður verið borin fram frv. um fjölgun lækna á þessu sama svæði, en aldrei náð fram að ganga. Það væri því harla einkennilegt, að samþykkja nú frumv., eins og þetta, sem miklu óþarfara er. Jeg skal ekki neita því, að það getur fyrir ýmsra hluta sakir verið nógu gott að hafa marga presta, en hin þörfin er bráðari. Það ríður meira á að bjarga konu í barnsnauð en að skíra barnið. Sje erfitt eða ómögulegt að ná í lækni, þegar lífið liggur við, þá finna menn alvarlega til þess, sem von er, og jeg hefi sjálfur reynt þau tilfelli, og þekki því dálítið hvað slíkt hefir að þýða, en jeg man aldrei eftir, að jeg hafi ekki alt af haft nóga prestlega aðstoð, hvenær sem jeg hefi þurft á að halda, bæði fyrir mig og mína.

Andlega hjálpin og andlega fæðan kemur að fullum og jöfnum notum, hvort sem hún kemur deginum fyrr eða síðar, en læknishjálpin verður oft til einskis, ef ekki næst í hana strax. Það kann að koma fyrir, að presta sje jafn mikil þörf og læknis; en jeg lít svo á, þegar þarf að þjónusta mann, sem eindregið óskar eftir því sjálfur, þá sje full þörf að sækja prestinn fljótlega, engu síður en læknir í lífsnauðsyn, en þetta er líka það eina tilfelli, sem jeg man eftir, er skapar fljótlega þörf á prestsverki, og slík tilfelli koma sjaldan fyrir núorðið. Jeg stend í þeirri meiningu, að ótímabært sje, að fjölga prestunum, held að rjettara væri að fækka þeim. Þá mætti líka launa þeim betur en nú er gjört, án þess að meira fje þyrfti í því skyni úr landssjóði. Og það væri að mínu áliti miklu betra, því að það er óneitanlega óheppilegt, að presturinn þurfi að hugsa mikið um búskap og veraldlegar sýslanir til að hafa ofan í sig að borða. Það er alt af ilt, að þurfa bæði að þjóna guði og mammon, en það hafa prestarnir þurft að gjöra, og verða líklega því miður að gjöra framvegis. Helst ættu þeir að geta lifað af embættistekjum sínum einum. Og fremur eru líkur til þess, að þeir geti það, ef embættin eru stærri, því að þá eru tekjurnar meiri. Jeg mun af ofangreindum ástæðum greiða atkvæði á móti þessu frv.