27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

90. mál, forðagæsla

Eggert Pálsson:

Jeg tók það fram, er frumv. lá hjer fyrst fyrir Nd., að það væri ekki sem best til þess fallið, að verð samþykt sem lög, á sama tíma sem verið er að skora á landsstjórnina, að leggja alt forðagæslumálið í heild sinni fyrir sveitarstjórnir til umsagnar og athugunar. Verði þeirri þingsályktun, sem hjer hefir verið samþykt, framfylgt, þá er ekki nema um þrent að gjöra, annaðhvort verða engin forðagæslulög, eða þau látin standa, eins og þau nú eru, eða í þriðja lagi, að vjer fáum algjörlega ný forðagæslulög. En þótt svo illa tækist til, að forðagæslulögin, sem nú eru, yrðu látin halda sjer, þá finst mjer lítt framkvæmanlegt, að fara að láta þau ná til kaupstaðanna. Enda hlýtur framkvæmd slíkra laga að verða æði erfið og kákkend í sjálfum kaupstöðunum. Nokkuð öðru máli er það að gegna með sveitirnar, því að í kaupstöðunum eru fáir, er hafa hey handa skepnum sínum.

Segjum t. d. að maður í kaupstað hafi 1 eða 2 hesta, þá þarf enginn að ætla, að hann muni ætla þeim eingöngu hey til fóðurs, því að menn í kaupstöðum byggja alt af upp á, og hljóta alt af að byggja upp á, korngjöf, eins mikið eða meira en heygjöf. En þar sem talsverða peninga þyrfti, til þess að kaupa það korn alt í einu á haustin, þá kaupa menn það smátt og smátt á veturna, eftir því sem þeir eyða því. Og þar sem þannig er æfinlega innan handar fyrir hvern einn, að ná í fóður fyrir sínar fáu skepnur eftir þörfum, þá er engin ástæða til að skylda þá til að hafa svo og svo miklar fóðurbirgðir fyrirliggjandi.

Af þessum ástæðum sje jeg ekki, að það sje framkvæmanlegt, að lögin nái til kaupstaðanna, því að forðagæslumennirnir, þó til væru, gætu ekki gjört þar gangskör að því, að láta menn farga skepnum sínum, þó að ekki væru nægileg hey fyrir hendi; það segir sig sjálft.

Með þessu væri að eins stofnað starf, er engum kæmi að liði, en hefði þó útgjöld í för með sjer fyrir hlutaðeigandi kaupstað.

En þar sem 7 manna nefnd hefir fjallað um málið, og þeir eru allir með því, að ákvæði forðagæslulaganna skuli ná til kaupstaðanna, þá er sennilega ekki fyrir mig, að etja við svo mikið ofurefli, enda tel jeg líklegt, að þeim auðnist að fá deildina á sitt band. En jeg fæ þó eigi látið af minni skoðun, að þetta er algjörlega gagnslaust frumv. og eftir atvikum illa viðeigandi fyrir deildina að samþykkja það.