23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

128. mál, rjúpnafriðun

Magnús Kristjánsson:

Hafi það verið torskilið, sem jeg sagði áðan, þá er jeg hræddur um, að segja megi hið sama um ræðu hv. þm. S.-Þing. (P. J.), því ekki skildi jeg rökfærslu hans um það, að ógjörningur væri að breyta þessum lögum. Raunar eru ekki æfinlega hans vegir mínir vegir, svo það er ekkert undarlegt, þótt við sjeum ekki alveg á einu máli um þetta. Mjer finst hann stundum vera nokkuð kreddufastur og hafa tilhneigingu til að byggja jafnan á einhverjum gömlum reglum og grundvallarsetningum, sem hann sjálfur kann að hafa sett, endur fyrir löngu. En tímarnir breytast, og jeg gjöri ekki mikið úr því, að þau lög hljóti endilega að vera órjúfanleg, sem hann kann að hafa átt einhvern þátt í að setja.

Jeg skil ekki, hvaða hættu getur af því leitt, að gjöra þessa ráðstöfun, sem hjer er farið fram á. Hjer er í rauninni farið fram á hið sama, sem í hinu frumv., sem samþykt var hjer nýlega, en sem felt var í Ed. Og jeg sje ekki betur en að þetta megi skoða sem bráðabirgða ráðstöfun, alveg eins og það. Jeg skil ekki röksemdafærslu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), nema gengið sje út frá því, að þessu ákvæði megi aldrei breyta. En jeg hefi aldrei heyrt, að að fuglafriðunarlögin sjeu þannig úr garði gjörð, að þau sjeu óbreytanleg. Og ef þeim má breyta, þá má einnig breyta þessu ákvæði. Þetta hygg jeg að öllum sje ljóst.

Jeg verð að efast um, að það sje mikils virði að alfriða rjúpuna sjöunda hvert ár. Að minsta kosti hygg jeg, að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og aðrir eigi erfitt með að sanna, að það hafi mikinn árangur. Eftir þessu frumv. er friðunartími rjúpunnar lengdur frá því, sem nú er, jafnframt því sem hún er ekkert árið alfriðuð, og það tel jeg í alla staði eðlilegra og rjettara. Eins og tekið er fram í nefndaráliti minni hlutans, getur það haft óþægileg áhrif á viðskiftasambönd þeirra manna, sem versla með þessa vöru, að rjúpan er alfriðuð heilt ár í einu. Yfirleitt virðist mjer ýmislegt mæla með því, að breyta friðunarlögunum á þann hátt, sem hjer er farið fram á, en hins vegar sje jeg ekkert mæla á móti því. Rjúpunni stafar minni hætta af veiðiskapnum en þeirri hættu, sem henni stafar af harðindum. En jeg gjöri ekki ráð fyrir, að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) nje aðrir sjái sjer fært að friða hana fyrir hungri og harðrjetti.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. Jeg held því fast fram, að eftir atvikum sje frumvarp þetta í alla staði vel viðeigandi.

Frumv. var tekið út af dagskrá.