04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Bjarni Jónsson:

Það eru harla einkennileg forlög, sem mín hafa beðið í þessu máli. Jeg er sem sje með þeim mönnum, sem eru á gagnstæðri skoðun við mig í þessu máli, en á móti þeim, er sömu skoðun hafa og jeg. (Hlátur). Ja, þetta er alveg satt, þó undarlegt kunni að virðast. Jeg ætla mjer ekki að sundurliða þetta neitt frekar að þessu sinni, en læt mjer nægja, að vísa til greinar einnar í nefndarálitinu um skattamálin, þar sem jeg gríp á þessu. Jeg álít, að landið eigi að eiga sig sjálft, en get á engan hátt verið fylgjandi þessu káki, að fresta sölunni. Slíkt er þýðingarlaust, og þeir, sem kaupa vilja, álíta það órjett. Þetta er engin stefnubreyting, og mjer þykir það skrítið, ef Alþingi ætlar að komast með þessu inn á þá stefnu, er jeg nefndi, og fara þannig í gegnum sjálft sig. Það er ekkert annað en illur blekkingaleikur, líkastur því, er hálfvaxinn hvolpur leitast við að bíta í skottið á sjálfum sjer.