19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

13. mál, harðindatrygging búfjár

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla að eins að minna háttv. þm. Rang. (E. P. og E. J.) á það, að frumv. um afnám forðagæslulaganna var ekki vísað til landbúnaðarnefndar, af alveg sjerstökum ástæðum. Flutningsmaður þess frumv. (E. P.) taldi það sjálfsagða kurteisisskyldu af deildinni, að lofa sjer að eiga sæti í nefnd þeirri, er um málið fjallaði. Nú finst mjer það ekki ólíklegt, að háttv. þingm. (E. P.) vilji sýna mjer sömu skil, og vísa þessu máli til landbúnaðarnefndarinnar, sem jeg á sæti í og frumv. á heima í. Þessi nefnd er kosin samkvæmt samþyktri þingsályktunartillögu, og þá líklega til þess, að athuga búnaðarmál, en ekki til þess eins, að hlusta á, hverjir eru kosnir í aðrar nefndir, til þess að athuga mál, sem hún á að fjalla um í landbúnaðarnefndinni situr líka búnaðarskólastjóri, sem jafnframt er tengdasonur höfundar þessa frumv. og nákunnur skoðunum hans, svo það mælir enn meira með því, að málinu sje vísað til þeirrar nefndar.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að svara framkomnum athugasemdum um einstök atriði, ætla að geyma mjer það, þangað til málið er lengra á veg komið, og jeg hefi sjeð, hvað nefndin gjörir við það.