17.07.1915
Neðri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

15. mál, forðagæsla

Flutningsm. (Eggert Pálsson):

Frumv. þetta, sem jeg og þrír aðrir hv. deildarmenn hafa komið fram með, er ekki langt, en mjög einfalt og óbrotið. Jeg vona, að jeg syndgi ekki á móti þingsköpunum, með því að tala um einstakar greinar þess, því að það er ekki hægt, þar sem frumv. er ekki nema ein einasta grein.

Það, sem kemur mjer til að bera þetta frumv. fram, er það, að lögin, sem hjer ræðir um, hafa komið að litlum notum eða engum, og heyrst hafa ákveðnar raddir almennings víðsvegar að um það, að fá þau numin úr gildi. Jeg ímynda mjer, að það sje ekki einungis jeg, sem hefi orðið þessa var, heldur muni og aðrir hafa orðið áskynja hins sama. Í þingmálafundargjörðum alstaðar að, þar sem laganna hefir á annað borð verið minst, hefir komið fram ákveðin óánægja með þau, og óskir um, að fá þau annað hvort afnumin með öllu eða breytt í heimildar- eða samþyktarlög. Að vísu eru til kjördæmi, þar sem ekki hefir verið minst á lögin, en það þarf ekki að vera vottur þess, að menn sjeu þar ánægðir með þau, heldur mun það vera af þeim rótum runnið, að menn hafa haft önnur meiri áhugamál fram að bera. Af þingmálafundargjörðum þeim, sem jeg hefi rekið mig á, þar sem komið hefir fram eindregin ósk um að breyta lögunum eða afnema þau alveg, skal jeg nefna Snæfellsnessýslu, Austur-Skaftafellssýslu víðast, Eyjafjarðarsýslu sumstaðar, Múlasýslur sumstaðar. Og í Strandasýslu, þar sem alment er álitið, að vagga þessara laga sje, hafa komið fram ákveðnar áskoranir um að afnema lögin með öllu og láta ekkert í staðinn koma. Því er nú skotið að mjer, að sama ósk eigi sjer einnig alment stað í Vestur-Skaftafellssýslu. Að því er snertir Rangárvallasýslu, þá liggur þar ekki fyrir nein þingmálafundargjörð, en mjer er það persónulega kunnugt, að þar er mjög sterk alda á móti lögunum, svo sterk, að varla hefir verið hægt að fá nokkurn mann í sumum hreppunum til að gegna forðagæslumannsstörfum, og hefir orðið að taka til þess stranga úrræðis, að skipa menn til þess nauðuga.

Á sýslunefndarfundi Rangæinga kom þetta mál til umræðu, og var þar samþykt með öllum greiddum atkvæðum sýslunefndarmanna, að skora á Alþingi að nema lögin úr gildi. Í Árnessýslu hygg jeg, að svipuð óánægja með lög þessi eigi sjer stað, og að flestir búendur þar mundu einnig því fegnastir, að lög þessi yrðu numin úr gildi, eða að minsta kosti breytt í heimildarlög, þótt erfitt sje að draga ályktanir um skoðanir Árnesinga á þessu máli út úr þingmálafundargjörðunum þaðan, þar sem einn af þingmálafundum þeirra hefir óskað, að lögin yrðu feld úr gildi, annar hefir sætt sig við, að þau fái að standa til frekari reynslu enn um hríð, á þriðja fundinum eru samþyktar tillögur hvor ofan í aðra.

Mjer og okkur flutningsmönnum er það ljóst, að það er eindregin ósk landsmanna, að lögunum verði breytt, eða þá að þau yrðu numin úr gildi, og okkur væri öllum kærast, að þau yrðu afnumin með öllu og ekkert sett í staðinn, þar sem vjer búumst við svo litlum notum af lögum yfir höfuð að tala í þeim efnum, sem hjer ræðir um. Aðrir munu ef til vill fremur geta sætt sig við, að í stað þess að láta lögin standa eins og þau eru, yrði sett eitthvað í heimildar- eða samþyktaráttina, og eru því sammála um, að eins og lögin eru úr garði gjörð, sje ekki hægt að vænta neins gagns af þeim. Til þess, að um einhvern árangur væri að tala af slíkum lögum, þyrftu þau að fara lengra inn á þá braut, að hefta persónulegt atvinnufrelsi manna. Það má búast við, að lögin gætu haft einhvern árangur, ef forðagæslumenn hefðu vald til að skera af heyjum manna, og þá jafnframt ábyrgð á gjörðum sínum. En sá agnúi er á þeirri leið, auk ófrelsisins, að þá fengjust engir forðagæslumenn. En þar sem nú er engin heimild fyrir hendi fyrir forðagæslumanninn í lögum til að tryggja það, að til sjeu nægar fóðurbirgðir hjá hverjum einstökum, þá getur forðagæslumaðurinn ekkert annað gjört, en að áminna menn. En ef áminningin ein dugar, þá þarf ekki heldur neinn forðagæslumann, því að það er sjálfsagt innan handar hverjum einum að fá áminningu í þessum efnum, án þess að til þess sje með lögum skipaður forðagæslumaður.

Jeg vona, að háttv. deild taki vel í þetta frumv., og sannfærist um, að það, sem í þessu máli getur að haldi komið, verður að koma innan að frá mönnunum sjálfum, en ekki utan að frá löggjafarvaldinu. Til samkomulags gæti jeg þó sætt mig við, að samþyktarlög yrðu sett um þetta efni, í stað þeirra laga, sem nú gilda, því að með því móti hafa menn meira frjálsræði til að hegða sjer eftir því, sem til hagar, hver í sinni sveit. Jeg vona svo góðs til háttv. deildar, að hún vilji að minsta kosti athuga málið í nefnd, og leyfi mjer að gjöra það að tillögu minni, að 5 manna nefnd verði sett í málið að umræðu lokinni. Sje jeg svo ekki að svo komnu ástæðu til að fjölyrða frekar um mál þetta.