18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Framsm. (Magnús Kristjánsson):

Hæstv. ráðherra hefir viðurkent, að athugasemdir nefndarinnar sjeu rjettar, og eigi tillagan því að samþykkjast, svo að við erum þá að verða sammála, og þarf þá ekki að deila um þetta lengur.

Hann furðaði sig á því, hæstv. ráðherra, að ekki hefðu komið fram aðfinslur við alþingiskostnaðinn, og skal jeg gjöra grein fyrir því, hvers vegna það er ekki. Í fyrsta lagi hefir nefndin ekki fundið til þess, að hann hafi keyrt úr hófi, og svo álítur hún og fleiri, að þingið starfi svo mikið, að það sje langt frá því að vera ofborgað. Því er að vísu af sumum haldið fram, að þeir sjeu óþarflega málugir, sumir þingmennirnir. Það er nú eins og það er virt, og varla verður það með rökum sagt um okkur þessa nefndarmenn, að við aukum þingkostnaðinn fram úr hófi fyrir mælgi sakir. En ef þeir eru einhverjir mælskugarparnir, sem má segja um, að þeir tali bæði í tíma og ótíma, þá þeir um það. Nefndin áleit, að það lægi fyrir utan hennar verksvið að vita það, og þar sem málfrelsi er í rauninni sjálfsagt í þinginu, þá getur hún ekki talið það eftir, þótt þeir tali að sumra dómi nokkuð fram yfir það, sem nauðsyn krefur. Það kom því ekki til mála, að gjöra neinar athugasemdir út af þessu, og það vona jeg að hæstv. ráðherra viðurkenni.

Þá var samanburður á ferðakostnaði alþingismanna og annara. Hann held jeg að verði örðugur, þar sem aðrir hafa engin árslaun og ekkert nema dagpeninga sína. Þá er engin furða, þótt þeir »beri eins mikið úr býtum« í dagpeninga, eins og hæstv. ráðherra komst að orði, eins og hinir, sem hafa föst laun, sem nema 10–20 krónum á dag, auk dagpeninga og ferðakostnaðar, en þingmenn hafa ekki nema 8–10 kr. á dag, og engin föst laun. Þetta er því engan veginn sambærilegt.

Út af því, sem minst var á Búnaðarfjelag og bændaskóla í þessu sambandi, þá er jeg þar á gagnstæðri skoðun hv. þm. Dal. (B. J.). Því verður ekki neitað, að það fjelag er sjálfstæð stofnun, sem ekki þarf að gjöra Alþingi grein fyrir starfsemi sinni, og búnaðarþingið hefir á hendi ótakmörkuð umráð yfir fje þess, án þess að það, mjer vitanlega, þurfi neitt að leita til stjórnarráðsins í því efni. Aftur á móti standa bændaskólarnir beinlínis undir stjórnarráðinu, svo að hjer er ólíku saman að jafna.