17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Sigurður Eggerz:

Það gleður mig, að hæstv. ráðherra hefir tekið í sama strenginn og jeg, um að stjórnin hafi gjört það, er gjöra bar. Og þar sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að jeg hefði ekki látið gjöra neitt í þessu máli, þá vil jeg láta þess getið, að jeg greiddi Jóni verkfræðingi Ísleifssyni 200 krónur fyrir teikningar og ýmsan undirbúning málsins, er sýnir þó, að jeg hefi undirbúið málið. (Ráðherra: Jeg hefi greitt honum 150 krónur, er eftir stóðu). Jeg vonast því til, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hafi ekkert að athuga við þá fjárveitingu, úr því hún lenti í því kjördæmi, sem ekki þarf að spara við.

Jeg er á sama máli og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) um gildi mannslífanna, en jeg vil þó vona, að þau hafi líka gildi í öðrum kjördæmum landsins. En mig rekur minni til þess, að háttv. 1. þm. Árn. talaði ekkert í þá átt, er tillagan um að brú yrði gjörð á Jökulsá á Sólheimasandi, sem hefir þó orðið 40 mönnum að fjörtjóni, lá hjer fyrir á þingi, og greiddi meira að segja atkvæði á móti henni. Svona mikils virði voru mannslífin honum þá, enda var það utan hans kjördæmis.