07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Ráðherra:

Jeg býst ekki við, að segja hjer margt um þetta mál, sem háttv. deild sje ekki fullkunnugt þegar áður.

Fyrirspurninni á þgskj. 43 má skifta í þrent. Í fyrsta lagi er þar spurt, hvers vegna sje enn ekki reist loftskeytastöð sú í Reykjavík, sem gjört er ráð fyrir í lögunum frá 1912, og aftur í nýrri lögum nr. 35 frá 20. okt. 1913. Í öðru lagi er þar spurt, hvort ekki hafi verið tekið lán í þessu skyni árið 1913, og í þriðja lagi, hvaða ráðstafanir stjórnin hafi gjört í þessu efni.

Jeg held, að jeg verði að svara fyrstu spurningunni síðast, því að svörin við annari og þriðju spurningunni verða væntanlega svör við henni jafnframt.

En áður en jeg fer að svara þessum einstöku spurningum, vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um undanfara málsins, og er þá fyrst að athuga leyfisskrá þá frá 28. júlí 1906, er þá var gefin út til handa Stóra Norræna ritsímafjelaginu. Háttv. fyrirspyrjandi talaði ekki um þetta sjerstaklega, en það er nauðsynlegt til skýringar málinu. Samkvæmt 6. gr. í þessari skrá, hafa ekki aðrir en þetta fjelag leyfi til símalagningar, eða »annara til almenningsnota ætlaðra rafmagnssambanda« milli Íslands og annara hluta Norðurálfu, með þeirri undantekningu þó, að ef Ísland vill, þá er því heimilt að setja á stofn þráðlaust hraðskeytasamband milli Færeyja og einhvers staðar í nánd við Reykjavík, ef fjelagið fær sömu borgun fyrir símskeyti send með loftskeytatækjunum, eins og fyrir sæsímaskeyti til og frá eða gegn um Ísland. Enn fremur er það tekið fram, að ef slíkt samband kemst á, og verður reglulega notað, þá færist á meðan tillag landssjóðs til fjel., sem nefnt er í 2. gr. skrárinnar, niður um 13 þús. kr. á ári.

Það er þá eftir þessu heimilt að reisa þessa stöð, sem hjer er um að ræða, með því skilyrði, að landið fái ekki aðra borgun fyrir hraðskeytin en þessa niðurfærslu á borguninni til fjelagsins eftir 2. gr., sem þá yrði ekki nema 22 þús. kr. á ári. Sömuleiðis er það heimilt eftir þessari sömu 6. gr., að reisa hjer stöð til sambands við skip á sjó úti, og til þess að reisa slíka stöð, þarf enga samninga við Stóra Norræna. En þá kemur nú spurningin um það, hvort reisa megi stöð, til þess að senda þráðlaus hraðskeyti, er nái lengra en kringum Ísland og til Færeyja. Ef koma ætti á hraðskeytasambandi milli Íslands og einhvers annars lands, utan Norðurálfu, þá skal fjelagið eiga kost á að athuga það mál, samkv. 7. gr. leyfisskrárinnar, og að öllu jöfnu hafa forgangsrjett, til þess að taka að sjer fyrirtækið, ef það vill. Í þessu sambandi ætti helst að geta komið til mála hraðskeytasamband við Ameríku. Nú er þá eftir að athuga það, hvort vjer gætum komist í loftskeytasamband við eitthvert annað land í Norðurálfu, auk Færeyja. Það ætti nú líklega helst að geta verið Noregur, og þá sennilega við Bergen, eða Skotland.

Eftir leyfisskránni tel jeg oss ekki heimilt, að stofna slíkt samband, nema þá með samkomulagi við Stóra Norræna. En geta skal jeg þess, í sambandi við þetta, að þegar ritsímalánið var tekið 1913, þá slakaði fjelagið nokkuð til á rjetti sínum, sem það hafði samkv. leyfisskránni. Svo stendur sem sje skrifað í skuldabrjefinu — og það má skoða sem samning um þetta efni — að þegar liðin eru þau tuttugu ár, sem til eru tekin í skránni, þá megi falla burtu þær takmarkanir og skuldbindingar, sem um þetta eru í 6. gr., ef lánið er að fullu greitt, þó aldrei fyrr en leyfistíminn er út runninn. Er þá svo að sjá, sem 6. gr. gæti orðið úr gildi numin að þessu leyti, þá er svo væri komið.

Eins og jeg þegar hefi drepið á, er hjer þá um fjóra möguleika að ræða:

1. Minsta stöðin, sem að eins stæði í sambandi við skip kringum landið.

2. Stöð, sem að eins næði sambandi við Færeyjar.

3. Stöð, sem næði til Noregs eða Skotlands, og

4. Stöð, sem drægi alla leið til Ameríku.

Svo að maður taki nú 3. möguleikann fyrst, þá ætti sú stöð að hafa afl til skeytasendinga á hjer um bil 1400 kílómetra færi. Landssímastjóri hefir gjört áætlun um, að slík stöð myndi kosta um 150 þús. kr. Jeg átti nú í ferð minni til Kaupmannahafnar tal við umboðsmann Marconifjelagsins þar um þetta, og gjörði hann ráð fyrir, að hún yrði nokkru ódýrari, eða um 130 þús. kr. Þetta sagði hann að ætti að vera 10 »kílóvatta« stöð, en jeg er nú ekki svo vel að mjer, að jeg geti skýrt það öllu nánar. Aftur á móti ætti 1½ »kílóvatt« að vera nægilegt fyrir stöð, sem eingöngu hefði samband við skip umhverfis landið, og taldi hann, að hún myndi kosta 28–30 þús. kr., en jeg sje, að landssímastjóri hefir áætlað hana á 40 þús. kr. Þá er nú eftir stöðin, sem ætti að ná til Ameríku, og er sagt, að það þurfi að vera 150 »kílóvatta« stöð, og muni kosta eitthvað 3/4–1 miljón króna, svo að það virðist útilokað, sennilega um langan tíma, að það borgi sig að reisa hana.

Jeg hefi þá talað um þessar fjórar mismunandi stöðvar, sem til greina gætu komið, og nefnt hvað heyrst hefir, að hver þeirra um sig myndi kosta, og eins og áður er sagt, þá eru áætlanir landsímastjóra alt af nokkru hærri; það munar þetta einum til tveim tugum þúsunda. Jeg skal geta þess, að þessi umboðsmaður Marconifjelagsins, sem jeg gat um áðan, hefir átt í brjefaskiftum, út af byggingu stöðva, fyrir Marconifjelagið í Lundúnum, og sagði fjelagið, að efni til þeirra væri nú 10% dýrara en í meðalári, vegna stríðsins, en hins vegar fengist víst hæglega leyfi til útflutnings á öllu slíku til Íslands, ef á þyrfti að halda. Og jeg skal enn fremur geta þess, að þær áætlanir þessa manns, sem jeg gat um áðan, voru bygðar á þessari 10% verðhækkun.

Jeg skal þá víkja að því, að svara 2. spurningunni um það, hvort ekki hefði verið tekið lán til loftskeytastöðvar árið 1913. Samkvæmt heimild þeirri í lögunum, er háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) mintist á, var heimilað nægilega stór lántaka, til þess að leggja síma og kaupa talsímakerfi o. fl., er 5. og 6. gr. símalaganna greinir. Og þar á meðal loftskeytastöðin, er getur um í 6. gr. símalaganna. Mátti nota þetta lán til þess, að láta reisa loftskeytastöð í Reykjavík, í samræmi við gildandi samninga. Eða með öðrum orðum: Það er heimilað að reisa loftskeytastöðina fyrir einhvern hluta þessa láns, án þess, að segja megi að lánið ætti sjerstaklega að taka til þess, að reisa hana. Þessi lánsheimild var notuð 1913. Lánið var tekið í lok nóvembermánaðar og innborgað 1. desember sama ár í reikning landssjóðs við Privatbankann, að því er jeg ætla. Lánsupphæðin var 500,000 kr., og var ekki sjerstaklega ætluð til þess, að reisa loftskeytastöð fyrir, eins og jeg áður hefi tekið fram. Spurningin á þgskj. 43, er því ekki allskostar rjett orðuð; það er að eins heimild til þess að verja af láninu til þess fyrirtækis. Þessu láni hefir verið varið eftir fyrirmælum símalaganna, smátt og smátt notað til þess, að leggja síma fyrir, og reisa stöðvar. Síðast, er jeg fjekk reikning yfir lánið, voru eftirstöðvar af þessu láni 112,085 kr. En síðan hafa verið veittar 15,000 kr. til síma frá Djúpavogi til Hornafjarðar og enn fremur samþykt að veita 24,500 kr. til aukalinu frá Reykjavík og að Kalastaðakoti. Enn þá er þá ónotað af láninu 72,585 kr., auk vaxta, sem bætst hafa við. Jeg hefi þá svarað 2. spurningunni og sný mjer að hinni 3., um það, hverjar ráðstafanir stjórnin hafi gjört, til þess að reisa loftskeytastöðina. Mjer virðist sem byrjað hafi verið á ráðstöfunum þar að lútandi árið 1913, þegar leitað var hófanna við dönsku stjórnina, og símastjóri hjer stóð í brjefaskiftum við dönsk »autoritet«, viðvíkjandi því, hvort Danir hefðu ekki í huga, að reisa loftskeytastöð í Færeyjum. Úr því hefir ekkert orðið, og Danir virðast hættir að hugsa um það, þó að Landsímastjórinn gjöri hjer vonir um að svo muni verða (sbr. Alþt. 1914 A. bls. 600). Að öðru leyti hefir ekki verið gjört neitt að ráði, annað en að seint á árinu 1913 komu fram tvö tilboð um loftskeytastöð, annað frá fjelagi, er »Telefunken« heitir, hitt frá frá frönsku fjelagi »La societé francaise Radioelectrique«. Bæði tilboðin voru einungis um samband við skip. Þau munu hafa þótt óaðgengileg, því að hvorugu var tekið. T. d. átti stöð sú, er franska fjelagið hugsaði sjer að reisa, að eins að vera til bráðabirgða. Skylda átti að vera, að kaupa hana eftir 30 ár en halda henni við þann tíma.

Jeg skal þó geta þess, að í júnímánuði í fyrra, hafði stjórnin málið í huga. Vilhjálmi Finsen ritstjóra var veittur örlítill styrkur, 300 kr., til þess að fara utan og kynna sjer fyrirkomulag loftskeytastöðva. En hann er hinn eini sjerfræðingur hjer á landi í þeirri grein. Hann fór og utan, en bæði var nú þá, að stríðið var byrja, og svo hitt, að fararstyrkurinn var mjög af skornum skamti, svo að jeg veit ekki hvort för hans hefir orðið að tilætluðum notum.

Jeg hygg nú að jeg hafi svarað 2. og 3. spurningu háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), um lántökuna og ráðstafanir um að koma upp stöð. Sýnist mjer þá ekki þurfa að fara frekar út í 1. spurninguna, vegna þess, að svarið við henni er innifalið í því, er jeg hefi nú sagt, og má draga út úr því hversvegna stöðin hefir ekki verið reist. Vel má líka vera, að fyrirrennarar mínir hafi gjört fleira en mjer er kunnugt um, í þessu efni, því að jeg hefi ekki annað fyrir mjer haft en þau skjöl, er fyrirliggjandi eru í stjórnarráðinu og að þessu lúta.