28.08.1915
Neðri deild: 45. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra.:

Jeg skal ekki viðhafa mörg orð í þetta sinn. Jeg vil að eins leyfa mjer að minnast á fáeinar brtt. með nokkrum orðum.

Það eru þá fyrst tvær brtt. á þgskj. 579. Við 2. umr. tók landsreikninganefndin það fram, að hún hefði skorað á stjórnina, að greiða ekki meira til æðstu stjórnar landsins en fjárveiting stæði til. En tilgangur nefndarinnar var ekki annar en sá, að tekin væri strax hæfileg fjárveiting, svo að ekki þyrfti að leita til aukafjárveitingar og umframgreiðslu. En nú er jeg hræddur um að fjárveitingin til skrifstofukostnaðarins hrökkvi ekki til. Dýrtíðarráðstafanirnar auka að miklum mun kostnaðinn. Símagjöldin verða t. d. töluvert hærri en vanalega, sökum hinna margvíslegu ráðstafana, er gjöra þarf fram yfir það, sem vanalegt er. Og hvort sem háttv. deild samþykkir að veita 20000 kr. til kostnaðarins eða ekki, þá hefir það engin áhrif á fjárhaginn í heild sinni. Því stjórnin og skrifstofurnar geta ekki hætt að rækja störf sín þess vegna. Jeg fyrir mitt leyti vil gjarnan gjöra alt, er í mínu valdi stendur, til þess að fullnægja óskum reikningslaganefndarinnar.

Hin brtt. á þgskj. 579, er við 15 gr., 34. lið. Jeg fer fram á að hækkaður sje styrkurinn til dr. Helga Jónssonar. Nafni hans Pjeturss fær 1800 kr. styrk, og jeg get enga skynsamlega ástæðu sjeð til þess að gjöra Helga Jónsson lægri. Mjer er það kunnugt, að þessi maður stundar ágætlega sínar vísindalegu rannsóknir. Hann hefir nýlega gefið út á ensku bók um íslenska grasafræði. Hann er þar að auki alþektur elju- og starfsmaður. Jeg vil svo leyfa mjer að drepa lítið eitt á nokkrar aðrar brtt. Mjer þykir gott, að háttv. þm. Dal. (B. J.) er viðstaddur, því jeg vildi gjöra nokkrar athugasemdir við till. hans sumar, og ræðu hans. Í fyrsta lagi fer hann fram á, að fjárveitingin til Miklavatnsáveitunnar sje feld í burtu. Mig brestur, satt að segja, þekkingu til þess að svara þessu svo sem verðugt væri, en jeg efast ekki um, að háttv. samþingismaður minn (S. S.), muni hlaupa undir bagga með mjer. (Sigurður Sigurðsson: Mjer dettur það ekki í hug, að svara honum). Háttv. þm. Dal. (B. J.) athugaði alveg rjettilega í einni ræðu sinni fyrir skemstu, að sumar fjárveitingar væru gróðahnykkur, þó að þær ykju reikningslegan halla í svip. Þetta er laukrjett hjá hv. þm. En hv. þm. á þá líka að draga rjettar ályktanir af þessari rjettu setningu sinni. Og ef hann gjörir það, þá brýtur þessi brtt. hans algjörlega í bága við frumsetninguna. Jeg þarf ekki að skýra það fyrir honum nje hv. deild, að áveituvatn eykur frjómagn engisins, sem á er veitt, svo að þar sprettur miklu betur eftir. (Bjarni Jónsson: Jú, að vísu, en vatnið streymir ekki upp í móti). Hv. þm. skýrir frá því, að hann hafi gjört þá uppgötvun, að vatnið renni ekki upp í móti. Ekki þori jeg nú að fullyrða að engum hafi verið kunn þessi uppgötvun áður, en gjarna skal jeg unna háttv. þm. ærunnar af henni. En jeg ætla nú að gjöra ráð fyrir að þetta sje rjett, og þá kemur það algjörlega heim og saman við tilganginn, að nota sjer þetta náttúrulögmál, að vatnið rennur ekki upp á við. Tillaga háttv. þm. er því röng, ef hagnýta skal þessu nýuppfundnu fræðisetningu hans. (Bjarni Jónsson: Það verður þá að lækka mýrina.) Jeg hygg að verkfræðingar, er á þetta líta, álíti mögulegt að framkvæma áveitur, án þess að grípa þurfi til þessa kostaboðs háttv. þm. Dal., um að lækka mýrina, sökum þess, að yfirborð árinnur er ekki alstaðar jafnhátt yfir sjávarmál, og svo þess, að áin rennur niður í móti. Þó nú einhver mistök kunni að hafa verið á þessu í byrjun, (Bjarni Jónsson: Það hefi jeg aldrei sagt), þá munu verkfræðingar álíta, að áveitan sje vel framkvæmanleg, enda þótt þeir hafi bygt á þessu nýja náttúrulögmáli, er kenna mætti við háttv. þm. Dal. (B. J.) Jeg hefi ekki annað ábyggilegra en þeirra orð fyrir mjer í þessu efni, og vona að óhætt sje að treysta því.

Þá vill og háttv. þm. Dal. (B. J.) kippa á burtu styrknum til landmælinganna. Jeg stend þar algjörlega á öndverðum meið honum. Það má einu gilda, hverjir framkvæma mælingarnar. Þetta er hið mesta nauðsynjaverk, og er þar að auki prýðilega af hendi leyst. Landaverkfræðingur hefir og látið álit sitt í ljós á því, hve nauðsynlegt þetta sje, enda er það auðskilið, að allir þeir, sem við einhverjar verklegar framkvæmdir fást út um land, hafa ágætan leiðarvísi í uppdrættinum. Jeg er því samþykkur auðvitað, að skemtilegast hefði verið, að við hefðum getað leyst þetta verk af hendi sjálfir, en nú stendur svo á fyrir okkur, að okkur vantar til þess bæði fólk og fje. (Bjarni Jónsson: Við höfum nóga menn).

Þar sem háttv. þm. Dal. (B. J.), stingur upp á því, að burtu sje feld fjárveitingin til Bernarsambandsins, þá vil jeg ekkert fullyrða um nauðsyn þessa styrks, en jeg álít samt hyggilegra að láta fjárveitinguna halda sjer í þetta sinn og athuga málið svo nákvæmar síðar, annað hvort hjer eða í Ed.

Þá hefir komið fram brtt, frá þeim háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og háttv. 1. þm. (G.-K. (B. K.), um meðferðina á styrknum til skálda og listamanna. Jeg skal gjarna játa, að það sje gott fyrir stjórnina að fá nöfnin sett í fjárlögin. Og eftir allar þær efasemdir sem komið hafa fram um hlutdrægni stjórnarinnar, þá býst jeg við að fylgja þessum brtt.

Þá hefir og komið viðaukatillaga frá háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), er vill að 3 manna nefnd sje falið að úthluta styrknum. En mjer er satt að segja ekki ljóst hvað sú nefnd á að gjöra, þegar þingið og fjárlaganefndin í samráði hafa ráðstafað öllum styrknum fyrirfram, þó að stjórnin eigi að úthluta honum í orði kveðnu. Jeg hygg líka hendingu eina, ef þessi 3 manna nefnd væri svo skipuð, að hún hefði betra vit á að ráðstafa styrknum en þing og stjórn í sameiningu. Jeg efast mikillega um, að þessir þrír vitringar geti betur gjört, þó að þeir setjist á rökstóla. Þeir geta sannarlega orðið hlutdrægir líka.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að minnast á fleiri brtt. Jeg vil að eins geta þess, að jeg mun geta felt mig við flestar. brtt. fjárlaganefndarinnar.