16.08.1915
Efri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Steingrímur Jónsson :

Þrátt fyrir hina löngu ræðu háttv. þm. Skagf. (J. B.), þá verð jeg að játa það, að jeg er engu nær um það, hvers vegna honum er það kappsmál, að þessi lína verði gjörð að fyrsta flokks línu, ef tilgangurinn er ekki sá, að fá framlag hlutaðeigandi hjeraða endurborgað.

Hver er tilgangurinn, ef hann er ekki sá, að fá þessar tíu þúsund krónur endurgreiddar? Er það að eins til þess að fá það heiðurssæti að vera í fyrsta flokki?

Nei, það heiðurssæti getur ekki verið nokkrum manni áhugamál; það hlýtur að vera aðal tilgangurinn að fá 10000 kr. framlagið endurgoldið, og að koma stöðvarkostnaðnum á Siglufirði, og ef til vill á hinum stöðvunum, yfir á landssjóð.

Látum nú svo vera, sem þessi krafa sje rjett, en það gæti dregið óþægilegan dilk á eftir sjer, ef Alþingi færi að samþykkja hana. Það yrði þá erfiðara að neita, þegar næsta beiðni kemur; og sýnt er fram á það, að tillagið hafi verið hátt og línan borgi sig vel, þó sú lína má ske gefi ekki eins miklar tekjur eins og Siglufjarðarlínan.

Þegar línurnar greiða lögvexti, 5%, og auk þess álitlega upphæð í afborgun á höfuðstólnum, þá mundu þær vilja eiga rjett á því, að vera settar í fyrsta flokk, því eigi getur það, í þessu sambandi, haft mikil áhrif, hvort stofnkostnaður endurgreiðist á t. d. 8 eða 10 árum.

Sem dæmi get jeg tekið línuna til Húsavíkur, sem kostaði kr. 19.500, en við lögðum sjálfir til 1/3 eða kr. 6,500. Þessi lína hefir að sönnu ekki gefið eins mikið af sjer og Siglufjarðarlínan, en síðastliðið ár hefir hún þó gefið af sjer um 3 þúsund krónur, og mega það heita nettótekjur, því ekkert hefir verið lagt til starfrækslu nema 60 kr. á Húsavík, og alls ekkert til aðgjörðar. Þetta er mikið, yfir 20% af því, sem landssjóður lagði fram. Líkt er um Vopnafjarðar og Fáskrúðsfjarðar línurnar; þar lögðu hrepparnir fram til helmings. Um Patreksfjarðarlínuna var mikið deilt, en þar var nokkur hluti af framlaginu gefinn eftir. Jeg er því hræddur um, ef Siglufjarðarlínan er gjörð að 1. flokks línu, þá verði afleiðingin sú, að allar aðrar 2. flokks línur komi á eftir og gjöri kröfu til þess sama. Það getur verið að. þetta sje rjett, en það er stórkostlegt peningaspursmál og bakar landssjóði mikinn kostnað, því nú er svo ti1 háttað, að góðu línurnar bera þær lakari. Síminn hefir hingað til getað lagt talsvert af mörkum til að leggja nýjar línur, og mun geta það framvegis. Hygg jeg því rjett, að láta þetta mál bíða, þar til allar 2. flokks- og hinar helstu 3. flokks línur eru lagðar. Jeg vildi gjöra dálitla athugasemd við hliðarálmur, sem gjörðar hafa verið að 1. flokks linum. Jeg held nú að að eins ein slík. lina sje til, nefnilega Vestmannaeyjalínan, en eina ástæðan fyrir henni er sú, að hún ber uppi Suðurlandslínuna, og að með símanum yfir sundið er komist í samband við megnið af öllum siglingum til landsins. (Karl Einarsson: Við hefðum aldrei greitt neitt til þeirrar línu). Og eins og háttv. þm. Vestm. (K. E.) sagði,. hefðu eyjarskeggjar víst aldrei borgað neitt til línunnar. Jeg vil því ekki samþykkja þessa breytingartillögu, þar eð jeg óttast. afleiðingarnar.