12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Karl Einarsson :

Það var tvent, er jeg áðan spurði háttv. framsögumann (B. Þ.) að, hvort að nefndin mundi ekki lagfæra frv. til 3. umræðu, og annað var um hvort skipstjórar ættu að bera ábyrgð á brotum farþega. (Björn Þorláksson: Jeg kalla nefndina saman, áður en atkvæðagreiðsla fer fram). Það læt jeg mjer nægja, ef úr því verður, og finn því ekki ástæðu til að ganga nánar inn á þetta.

Mig furðar satt að segja á umtali því, er orðið hefir um brtt. þá, er jeg ber fram með háttv. þm. Strand. (M. P.). Mig furðar það mjög, að nokkrir menn skuli halda því fram, að það eigi að gilda hjer önnur lög fyrir íslensk skip en fyrir útlend. Og jeg sje ekki hvernig menn geta komið með getsakir og óviðurkvæmilegar aðdróttanir til okkar fyrir jafnsjálfsagða tillögu. Jeg læt mjer nægja með að svara fyrir sjálfan mig; jeg virði þessar getsakir og hótanir einskis. Jeg vil taka það fram, að hver maður er nokkuð hugsar mál þetta, hlýtur, ef hann hefir sæmilega skynsemi og rjettsýni, að viðurkenna það, að það er beinn skrælingjaháttur, ef til væru tvenn lög í landi, önnur fyrir Íslendinga, en hin fyrir útlendinga, en svo verður það, ef brtt, vor verður feld.

Það er eins og við værum komnir til Japan, Kína eða í hið mikla Tyrkjaveldi, því þar lifa útlendingar, þeir er þar búa, eigi undir landslögum, heldur undir landslögum sínum.

Jeg vil benda háttv. þingmönnum á, að þó skipin hafi þessar vínbirgðir, þá verða þær mjög takmarkaðar. Sýndi jeg það ljóslega áðan, er jeg talaði, en auk þess má takmarka það enn þá frekar; væri nóg að hvert skip fengi að hafa óinnsiglaðan forða til næstu hafnar, og ef þeir hafa meira áfengi, þá eigi þeir að greiða af því toll; því það ættu þeir að gjöra eftir tolllögunum; en það lítur svo út, sem þessir háttv. þingmenn hafi hvorki hugmynd um tolllögin eða neitt annað, sem þeir þó eru að tala um.

Það er ekki nema gott, ef útgjörðarfjelögin banna, að áfengi sje haft um hönd í skipum sínum, en það bann á alveg eins við íslensk farþegaskip eins og fiskiskip.

Þá er síðasta málsgrein 1. greinar. Jeg tel heppilegast, að hún sje feld í burtu. Tel jeg miklu betra að samþykkja tillögurnar á þgskj. 296 og 264. Ef að útlend fiskiskip eru látin órannsökuð, þá skil jeg ekki þýðingu 1. gr., og það vita allir, að frönsk og norsk fiskiskip hafa miklar vínbirgðir, og ef þau mega hafa þær öldungis óáreitt, þá eru bannlögin með öllu þýðingarlaus.

Mjer var sagt áðan af fulltrúa bæjarfógetans hjer í Reykjavík, að útlend skip, sem hingað kæmu, hefðu miklar vínbirgðir innanborðs, svo ef ekki ætti að innsigla þær, þá væri jafn mikil hætta á ferðum og með hver önnur skip, ef ekki væri innsiglaðar.

Viðvíkjandi 1. brtt. á þgskj. 263 hefi jeg ekkert að athuga. Ef hún er samþykt, ætti að taka fram hvað mikinn forða íslensk fiski- og flutningaskip mættu hafa. Við þekkjum vegalengdirnar, og stjórnarráðið gæti gefið reglur þessu viðvíkjandi, en hitt kann jeg ekki við, að aðrar reglur gildi fyrir þau heldur en önnur skip.

Annars vil jeg frábiðja mjer getsakir hálfv. flutningsmanns, og vísa þeim frá mjer, þar eð jeg þykist ekki eiga þær skilið.

Um 2. brtt. á þgskj. 263 þarf ekki að fjölyrða meir en búið er. Jeg vil að eins. taka það fram, að jeg hefi ekki sannfærst af ræðu háttv. 5. kgk. þm. (G. B.). Hann. hvorki reyndi nje treysti sjer að neita, að. vín væri betra en mixtúrur til lækninga. Jeg álít því að rjett hefði verið, að leyfa læknunum að gefa lyfseðil á áfengi, sem lyfjabúðir væru skyldar að flytja inn, og löggilda þau vín, sem læknar vilja. Hitt álít jeg ekki, að einn maður eigi að ráða í þessu máli, þó góður læknir og landlæknir sje.

Hjer var jafnvel látið í ljós megnasta vantraust á læknastjettinni yfirleitt. Hv. ræðumaður (G. B.) reyndi líka að hártoga eitt orð í ræðu háttv. þm. Strand. (M. P.) og gjöra brtt. okkar hlægilega. En jeg sje enga ástæðu til að óttast hana, því hættan er nú þegar fyrir hendi, ef hún annars er nokkur, eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni. Brennivín verður jafnt drukkið eftir sem áður þrátt fyrir það: Mjer finst algjörlega ástæðulaust að halda, að læknar muni misbrúka leyfi þetta. Hv. 5. kgk. þm. (G. B.) treysti sjer heldur ekki til að halda því fram að umræddir 29 læknar notuðu ekki vín, þrátt fyrir það þó framsögumaður vildi segja svo.

Jeg vona því, að brtt. 234, 263 og 296 verði samþyktar, þar eð jeg álít þær til. mikilla bóta.