06.09.1915
Efri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

141. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson:

Jeg neita því algjörlega, að það hafi vakað fyrir oss, að rýra virðing embættismanna eða níðast á þeim, þegar vjer lögðum til, að dagpeningar þeirra væru fastákveðnir með 6 kr. á eftirlitsferðum þeirra.

Jeg tók það fram, og tek það enn fram, að þóknun þingmannanna er ekki sambærileg við laun embættismannanna. Sumir þeirra hafa 13–14 kr. á dag fyrir embættisstörf sín, eða þaðan af meira, og þessi laun fá þeir jafnt, hvort sem þeir eru heima eða á ferð. Auk þess leggjum vjer til, að þeir fái 6 kr. í dagpeninga á ferðum sínum; hafa þeir þá þessa dagana um 20 kr. á dag. Það er því fjarri, að nokkuð sje verið að níðast á embættismönnunum. Eigi að síður var það eigi ástæðulaust, að fastákveða fæðispeningana, því að svo er komið, að sumir starfsmenn landsins eru farnir að reikna sjer 10 kr. á dag í fæðispeninga, auk föstu launanna, og má því nærri geta, að fáir muni trúa. því, að þessir menn sjeu svo þurftarfrekir, að þeir þurfi að eta fyrir 10 kr. á dag. Það mun öllum hollast að dagpeningarnir sjeu fastákveðnir; þá eru menn lausir við eftirköstin og eftirtölurnar. Það má auðvitað tína margt til, til að skrúfa upp reikninga. En mun ekki vera skemtilegra að vera laus við að semja þessa reikninga? Alþingi hefir nú þótt þörf á að grípa hjer inn í, og þykist sjálfsagt hafa gjört það þannig, að það níðist alls eigi á embættismönnum. Annar ferðakostnaður er borgaður eftir sjerstökum reikningi.

Það nær engri átt, að þingmenn vilji skoða sig sem embættismenn, og um eftirlaun til þingmannaekkna er það að segja, að þar hefir verið fylgt sömu reglu, þegar komið hefir fyrir að þeim hafa verið veitt þau; sem annars hefir fylgt verið, þegar það hefir komið fyrir, að þjóðnýtum mönnum, eða ekkjum þeirra, hafa verið veitt eftirlaun. Það er annars miklu meira talað um eftirlaun og afnám eftirlauna, en unnið sje að því, enda tel jeg það ekki rjett, að þau sjeu afnumin, og sakast því eigi fyrir mitt leyti um, þótt þar verði lítið ár framkvæmdum.

Jeg er ekki hræddur við það, þótt dagpeningamálinu sje skotið undir dóm þjóðarinnar. Jeg er viss um, að alþýðu manna mun þykja það fullsómasamleg borgun handa embættismönnum hennar, að þeir fái, auk ferðakostnaðar, um 20 kr. hvern dag, sem þeir eru utan heimilis. Og jeg er ekki viss um, að hv. 5. kgk. (G. B.) heppnist að fá hana á sitt mál, þótt snjall sje, hvað langar ritgjörðir sem hann semdi um vanrækt vandamál þings og þjóðar, að minsta kosti mundi vissara fyrir hann að koma þeim inn á hvert heimili.