22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

20. mál, stjórnarskrármálið

Kristinn Daníelsson:

Jeg get tekið undir þau orð háttv. flutnm. þessarar tillögu (J. Þ.), að mikið hefir þegar verið talað um þetta mál. En þó þykir mjer hlýða að nokkur orð sjeu töluð um það einnig hjer í þessari háttv. deild frá sjónarmiði mínu og þeirra, sem eins líta á það og jeg.

Jeg get ekki neitað því, að jeg undraðist, er jeg sá þessa tillögu, að sjá 3 sjálfstæðismenn, menn, sem hafa játast til þeirrar pólitísku stefnu, að vernda sjerstaklega og ella sjálfstæði landsins, rita nafn sitt á þessa tillögu. Sjá þá halda því fram, að staðfestingarskilmálar stjórnarskrárinnar 19. júní þ. á. sje í fullu samræmi við fyrirvara þann, sem sjálfstæðismenn gjörðu á Alþingi 1914 til varnar íslensku sjálfstæði og íslenskum málstað, þegar þó allir vita, að svo er alls ekki, sem jeg nú vona að geta sannað, þó að það sje svo augljóst, að hvert mannsbarn sjái. Enda viðurkenna það allir, nema þeir, sem þurfa að halda hinu fram, til að verja ráðherra og gjörðir hans.

Og væri nú svo, að einhver viti ekki eða skilji til fulls, þá ætti valið þó ekki að vera vandasamt, að vera í liði með þeim, sem vita; að minsta kosti til varúðar, að vera Íslands megin, þegar danskur og íslenskur málstaður eru að togast á.

Hitt undraðist jeg ekki, að við tillögu þessa er hnýtt ánægjuyfirlýsing yfir staðfesting stjórnarskrárinnar. Það er hvorttveggja, að þjóðin óskaði staðfestingar, enda hefir það ráð mjög verið notað, að hampa henni óspart, til að láta menn gleyma því, hvað dýru verði hún hefir verið keypt.

En jeg undrast, að sjá þessa tillögu borna fram af sjálfstæðismönnum til að storka samherjum sínum, þegar þeir eru að vara við, að nú sje verið að gjöra yfirsjón gegn sjálfstæði Íslands. Því að, þó tillögunni væri vís sigur í þessari háttv. deild, og það yrði síðan dómur sögunnar, að nú hafi verið gjörð yfirsjón, þá verður sú yfirsjón við þetta enn stærri. En þó að ekki væri þann dóm að óttast, þá er tillagan þó tilgangslaus; öllu komið fram án hennar.

Tillagan segir, að staðfestingarskilmálarnir sjeu í fullu samræmi við fyrirvarann. Jeg gæti afsakað þetta í munni þeirra, sem töldu fyrirvarann óþarfan, og þó ekki. Úr því að hann var sendur, þá ættu ekki heldur þeir að vilja, að vilji Alþingis væri að engu hafður og fótum troðinn.

En alt öðru máli er þó að gegna um sjálfstæðism., þar sem fyrirvarinn var ávöxtur af stjórnmálastefnu sjálfra þeirra. Þeir höfðu sjálfir samið og samþykt hann í ákveðnum tilgangi og ætlað honum ákveðið verk að vinna.

Og nú sjá þeir opnum augum, að tilganginum er ekki náð, verkið ekki að eins óunnið, heldur niðurstaðan orðin gagnstæð.

Skoðun þessara tveggja stjórnmálaflokka var gagnólík.

Hinir fyrri, sem töldu fyrirvarann óþarfann, litu svo á, eins og framsm. stjórnarskrármálsins í Ed. 1914 komst að orði, að það væri að vísu „engin ókurteisi að láta hann fylgja . . ... heppilegt, að álit Alþingis yrði kunnugt, hjer og erlendis.“

En sjálfstæðismenn vildu meira, — ekki að eins að álit Alþingis yrði kunnugt, heldur að það yrði tekið gilt af hinum aðila, konungsvaldinu. Annars vildu þeir ekki kaupa staðfesting stjórnarskrárinnar með ákvæðinu um að konungsvaldið rjeði, hvar sjermálin væru borin upp.

Þetta er ómótmælanlegt, að þessi var tilgangurinn. Þess vegna var búist við, að svo kynni að fara, að stjórnarskráin yrði að falla: Meðal annars sagði sami framsm. í Ed. um orðið „áskilur“ í fyrirvaranum: „sem hugsanlegt væri, að ekki yrði ósaknæmt gagnvart því, að stjórnarskrárfrv. næði fram að ganga.“

Enginn gjörði ráð fyrir, að stjórnarskráin yrði staðfest, nema skilyrði Alþingis væri fullnægt.

Enginn gjörði ráð fyrir, að sjálfstæðismenn fengi þeim manni umboð til að fara með stjórnarskrána, sem ljeti sjer nægja, að gjöra álit Alþingis kunnugt — það var áður fullkunnugt, — án þessa að fá það tekið gilt.

Enda gjörðu þeir það ekki, og sá maður, sem fór með það, skildi rjett hlutverk sitt og hlaut almanna lof fyrir, þjóðarinnar og allra stuðningsmanna sinna á þingi.

Hinn manninn tók konungsvaldið, sem vjer áttum ágreininginn við. Hann hafði ekkert þinglegt umboð, til þess að ráða þessu máli til lykta, og ekkert fremur fyrir það, þótt hann ynni verk sitt í því trausti, að verða varinn á eftir, aðallega af mótstöðuflokki sínum, sem stóð á alt öðrum grundvelli, þeim grundvelli, að engan fyrirvara þyrfti, og átti samkvæmt þjóðræði og þingræði engu að ráða um úrslit þessa máls, svo lengi sem nýjar þjóðkosningar efldu hann ekki til að taka það í sína hönd og fara aðra braut. En ráðherra hefir þó ekki enn fært sönnur á, að hann hafi átt vísan meiri hluta, þegar hann tók við völdum. Og þá. að konungi sje það rjett, að taka sjer ráðherra til að gegna stjórnarstörfum, þá er það vafalaust brot á þingræði, að ráðherra tekur að sjer að leysa „kabinets“-spursmál á þann hátt, sem orðið er.

Með þessu hefir verið unnið það hermdarverk á íslensku þingræði, sem ekki að eins allt þingið ætti að rísa á móti, heldur hver einasti þingmaður að hafa liberum veto ¢: áskilja sjer rjett að mótmæla; hermdarverk, sem unnið er á þingræðinu í sambandi við grundvallarrjettindi landsins, frumparta sjálfstæðis vors, hlýtur að vera óafmáanlegur blettur á sögu þingsins og um leið þjóðarinnar.

En lengra skal jeg ekki að sinni rekja þá sögu, heldur snúa mjer að fyrirvaranum.

Ekki skal jeg tala langt um tildrög hans öll, því það er svo margsögð. saga.

Jeg vil að eins minna á, hvernig baráttan, sem hann er vaxinn af, byrjaði með því markmiði, að hafa sjermálin út úr ríkisráðinu. Og nú ætlar hún að enda með því, að þau sjeu með góðu samþykki Íslendinga látin vera þar kyr.

Það er í minni, að sá vitri maður Magnús Stephensen landshöfðingi árið 1897 hóf málaleitanir við stjórnina á eigin hönd um það, að málin væri ekki borin upp fyrir konungi í ríkisráði. Hann sýndi sig þar sem djúpvitran föðurlandsvin, sem skildi, hvar lágu aðalrætur sjermálarjettinda vorra. Og enginn mun bregða þeim manni um, að hann væri neinn róttækur angurgapi.

En ekki setti hann fyrir sig, að það væri vandfundinn staður, til að bera upp málin,. eða ábyrgð, sem Danir ættu að bera á oss. gagnvart öðrum þjóðum.

Sami var vilji Alþingis 1897. Sá stjórnmálaflokkurinn, sem sjálfur mun þá hafa talið sig róttækari, vildi ekki samþykkja frumvarp til breytingar á stjórnarskránni, nema í það væri sett ákvæði um, að sjermálin mætti ekki bera upp í ríkisráði Dana.

En svo snerist þetta nú svo undarlega 1903, að jafngildi þessa ákvæðis, eða eins. gott þótti þá sama stjórnmálaflokki það vera, að setja í stjórnarskrána það ákvæði,. að málin skyldi bera upp í ríkisráðinu.

Þetta, sem var nú í sjálfu sjer fráleitt, var afsakað með því, að úr því að vjer settum það sjálfir, þá væri það sönnun fyrir, að vjer rjeðum því sjálfir og gætum breytt því þegar vjer vildum; það væri að eins meðan vjer sjálfir vildum svo vera láta, án allrar íhlutunar Dana. Og svo miklu þótti þetta skifta, að sjálfur foringi heimastjórnarmanna, Hannes Hafstein, kvaðst mundu verða landvarnarmaður, ef hann hjeldi, að þetta væri ekki áreiðanlegt.

Nú hefir baráttan haldið áfram á þessum grundvelli: Málin út úr ríkisráðinu, eða til bráðabirgða staðfesting þess, að vjer rjeðum sjálfir uppburði þeirra, að uppburður sjermálanna væri sjermál, staðfesting, sem engin gat hugsast önnur en viðurkenning frá Dana hálfu, að minsta kostiað þeir hættu að mótmæla þessum rjetti vorum, og hegðuðu sjer samkvæmt því, án íhlutunar í mál vor.

Vjer vitum hvernig þetta hefir farið. Það nægir að minna á ártölin, þá muna allir atburðina, sem við þau eru bundin. 1911, þegar ákvæðið um uppburð sjermálanna í ríkisráðinu var tekið út úr stjórnarskránni, og skilaboð konungs 1912, þar sem hann setur sig á móti þessu. Þann miðlunarveg, sem farinn var 1913, þegar sett var inn í stjórnarskrána, að málin skyldu borin upp þar, sem konungur ákveður. Því næst það, sem gjörðist í ríkisráðinu 20. okt. 1913, þar sem konungur setti sig aftur eindregið á móti, sem kom í ljós í opnu brjefi sama dag, meðundirrituðu af ráðherra Íslands.

Þar var boðin staðfesting stjórnarskrárinnar með þeim skilyrðum; að ákveðið yrði eitt skifti fyrir öll, að málin skyldu borin upp í ríkisráðinu, og — ekki að Íslendingar rjeðu sjálfir breytingum á því, heldur að á því gæti engin breyting orðið, nema Alþingi og Ríkisþing samþykti sambandslög. Með öðrum orðum nema Íslendingar gæfust upp við allt, sem þeir höfðu barist fyrir, sem var, að taka málin út úr ríkisráðinu, eða fá viðurkent, að þeir rjeðu sjálfir með konungi, hve nær þeir gjörðu það.

Þá er komið að dyrum fyrirvarans. Opna brjefið 20. okt. 1913, hafði fengið Alþingi úr tvennu vöndu að ráða, að gefa annaðhvort upp staðfesting stjórnarskrárinnar eða þann rjett, sem það hafði verið að berjast fyrir.

Það var gjörð tilraun til að bjarga hvorutveggja, með fyrirvaranum.

Jeg segi tilraun, því að Alþingi var sjer þess vel meðvitandi, að það afgreiddi málið í óvissu, að svo gat farið, að annhvort yrði að víkja, staðfestingin eða rjetturinn. En þá blandaðist engum hugur um, að það var staðfestingin, sem átti að víkja.

Þegar talað er um fyrirvarann, þá má gjöra það, og hefir það verið gjört, með tvennu móti :

1. að tala um, hvað honum var ætlað að vinna; þann tilgang, sem í honum felst, án þess að binda sig við sjálf orð hans;

2. að taka hann sjálfan, eins og orð hans liggja fyrir.

Hvorttveggja þetta er í sínum fulla rjetti. En verði ekki sama niðurstaðan, sem sjálfsagt ætti að verða á hvorn háttinn sem er þá neitar víst enginn, að þá á að halda sjer við orð fyrirvarans sjálfs.

Því að þótt allir hefðu sama tilgang, var lengi verið að velja um orðalagið, sem örugt væri til að ná honum. Það orðalag, sem á honum er, varð ofan á, og það eitt hefir gildi. Þeir, sem eru sama hugar, sem þessi tillaga, þeir hafa nú mest talað á fyrnefndan háttinn, að binda sig ekki svo við orð fyrirvarans.

Þeir hafa talað um auglýsinguna til Dana, sem fyrirvarinn hefði átt að fyrirbyggja, en fyrirvarinn nefnir hana ekki, því að hún sjálf var aldrei aðalatriði, þótt hún væri ósamrýmanleg því, sem var aðalatriðið.

Þeir hafa talað um, hvað ráðherra hafi sagt og sagst halda fast við, en það var ekki heldur neitt aðalatriði, heldur hitt, hvað hann fengi konung til að segja á sina ábyrgð. eða segja ekki, til þegjandi samþykkis, svo að það, sem ráðherrann hafði sagt, mætti þá standa óhaggað.

Þeir hafa hliðrað sjer hjá orðum sjálfs fyrirvarans, einkum þessum aðalorðum hans: „áskilur að hann verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður“.

Tilgangur fyrirvarans var vitanlega sá, að lýsa yfir, að vjer gengjum ekki að skilyrðum opna brjefsins, um að ákveða eitt skifti fyrir öll, og um óbreytanleik á uppburði málanna, og um samverknað dansks löggjafarvalds, eða, sem hefði verið enn verra, danskra stjórnarvalda, en að setja vor skilyrði í staðinn, skilyrði, sem án þeirra mátti ekki taka móti staðfestingu stjórnarskrárinnar.

Tilgangnr fyrirvarans var sá, að koma því til leiðar, að rjettur vor til að ráða uppburði sjermálanna, og einnig að taka þau út úr ríkisráði, væri viðurkendur, að minsta kosti ekki vjefengdur, og um engar skorður samið fyrir framkvæmd þessa rjettar vors.

Og á ýmsan hátt mætti orða tilganginn, sem allt ber að sama brunni: Uppburður sjermálanna óvjefengt sjermál.

Hefir nú þessum tilgangi verið náð með staðfestingarskilmálum stjórnarskrárinnar? Nei, þjer hljótið allir að svara: Nei, því að orðum fyrirvarans hefir ekki verið fullnægt, skilmálarnir eru ekki í samræmi við fyrirvarann, hvað sem þessi tillaga segir.

Fyrirvarinn byrjar á þeim inngangi, að lýsa yfir, að ef svo yrði litið á, að með því, sem gjörðist í ríkisráði 20. október 1913, sbr. opið brjef s.d., hafi uppburður sjermálanna verið lagður undir danskt valdsvið, þá mótmælti Alþingi því.

Það var nú enginn efi á, að svo var litið á, að þetta yrði afleiðingin, því að einmitt þetta, sem ráðherra gjörði 20. okt., varð honum að falli.

En nú á það ekki að verða þeim ráðherra að falli sem gjörir alveg hið sama, þótt í lítið eitt öðru sniði sje. Nú á að verðlauna það með traustsyfirlýsingu, sem þá kostaði ráðherrastólinn.

Af því að Alþingi leit svona á þá, kom það með skilyrði sitt, sem er nú aðalkjarni og efni fyrirvarans, að það áskilur, að væntanlegur konungsúrskurður um uppburð sjermálanna verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð Íslands ráðherrans eins, án íhlutunar Dana, svo að það standi fast, að uppburður sjermálanna sje sjermál.

„Áskilur að væntanlegur konungsúrskurður verði skoðaður“. Af hverjum? Auðvitað ekki af Alþingi; ekki gat þurft að áskilja það.

Enda vill svo vel til, að jeg get vitnað í eigin orð hæstv. ráðherra um það, af hverjum sje átt við, að hann verði skoðaður. Þegar háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) á síðasta þingi bar fram þessa spurningu: Af hverjum? þá svaraði núverandi ráðherra: „Hver ætti að skoða hann svo? Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að það er vitanlega konungsvaldið“.

Vjer skulum þá rifja upp þessi skilyrði Alþingis.

1. Að úrskurðurinn verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður.

2. Að hann verði breytanlegur á ábyrgð

Íslandsráðherrans eins, án íhlutunar dansks löggjafarvalds eða stjórnarvalda, og

3. því haldið föstu, að uppburður sjermálanna sje viðurkendur sjermál.

Eru nú staðfestingarskilmálarnir í samræmi við þetta? Spurningin er næstum því móðgandi, að ætla nokkrum manni að láta sjer detta slíkt í hug, þegar maður nú les skilmálana og allar umbúðirnar, sem staðfestingin og úrskurðurinn byggist á.

Það er þá fyrst, að hann sje skoðaður af konungsvaldinu o.s.frv.; fyrir því vottar ekki, ekki einu sinni með þegjandi samþykki. Þvert á móti; konungur hefir þar orð um (vitanlega með samþykki ráðherrans), sem eru þessu alveg ósamrýmanleg. En sjálfur núverandi ráðherra vildi jafnvel fara lengra en að láta sjer nægja. þegjandi samþykki. Hann segir í grein í Ísafold 31. desember 1914:

„Það, sem vjer vildum fá skýrt fram, var það, hvort konungur skoðaði málið sjermál eða eigi. En þá yfirlýsingu .

höfum vjer alls eigi fengið“.

Jeg undirstrika þessi orð ráðherra 31. des., að hann vill að það komi skýrt fram, og gjörir ráð fyrir yfirlýsingu um það, og bið menn að bera það saman við afstöðuna nú, er þeir athuga orð konungs, til að leita þar að þessari skýru yfirlýsingu.

Nei, ef úrskurðurinn væri skoðaður af konungsvaldinu sem eingöngu íslenskur og á valdi Íslendinga,

1. þá gæti konungur ekki talað um samkomulag frá öllum. hliðum ;

2. þá gæti hann ekki vitnað í vilja sinn í ríkisráðinu áður, því að þá væri hann breyttur;

3. þá gæti hann enn síður aftekið breytingu í sinni stjórnartíð, og

4. þá gæti hann allra síst talað um aðra skipun jafn trygga, og

5. þá hefði hann ekki lagt fyrir að birta skýrslu um þetta í Danmörku.

Öll þessi orð hefir konungur um.

Með öðrum orðum, það er vandlega forðast eitt einasta orð til viðurkenningar skilyrði Alþ., en hvert orð er í góðu samræmi við opna brjefið. Hefði fyrirvaranum verið fullnægt, kom ekki til mála neitt af þessum orðum. Þetta, hvert um sig, og einkum alt saman, er svo bersýnilegt, að það er raunalega broslegt, að fullorðnir Íslendingar skuli vera að togast á um það.

Og þetta alt, sem konungur segir, er sama sem að Íslandsráðherrann segi það sjálfur, því hann hefir sjálfur fyrirfram samið orðin, eða samið um, að konungur skyldi segja þessi orð og gengið að því.

Þegar ráðherra og fylgismenn hans hafa slegið því fram, að forsætisráðherrann bæri ábyrgð á þeim orðum konungs, sem komið geta í bág við fyrirvarann, þá bætir það síst úr fyrir ráðherra, því að fyrst ber nú forsætisráðherrann sína ábyrgð að eins fyrir Dönum, og í öðru lagi, það sem mest vegur, að ef forsætisráðherrann á að bera einnig ábyrgð á orðum konungs í þessu máli, þá felst í því viðurkenning fyrir því, að þessi athöfn, sem átti að vera alíslensk, sje líka dönsk. Jeg heyrði reyndar ráðherra í neðri deild verja þetta með samlíkingu, eitthvað á þá leið, að túneiganda væri ekki um að kenna, þótt ókunnug kýr kæmi í tún hans, og fyrir það væri þó ekki heimil þar beit fyrir hana. En hann gleymdi að taka það með, að það var hann sjálfur í þessari samlíkingu, sem hleypti forsætiskúnni í sjermálatúnið.

Nei, annaðhvort eru umræðurnar í ríkisráði íslensk athöfn, eins og fyrirvarinn áskildi, og þá ber Íslandsráðherra oss einn ábyrgð á öllum orðum konungs, eða hann hefir gengið að því, að þetta væri einnig dönsk athöfn og brotið með því fyrirvarann.

Hitt kemur ekki að haldi, þótt hann hafi áður sagst halda sjer við íslensku skoðunina, þegar hann á eftir verður að taka ábyrgð á orðum konungs.

Og nú vil jeg víkja að hinum einstöku atriðum í orðum konungs.

1. Það er fyrst samkomulagið frá öllum hliðum. Þau orð er reynt að rjettlæta með því, að Danir verði að veita samþykki til, að ríkisráðið, sem þeir einir ráða yfir, skuli vera uppburðarstaðurinn. Jeg býst nú við, að enginn hefði fundið að, ef orð forsætisráðherrans hefðu lotið að því, að veita slíkt samþykki Dana. En á það hefir vitanlega aldrei verið minst, hvorki 1913,1914 nje 1915. Nei; það, sem Danir leggja til þessa samkomulags, setja þeir ekki fram sem slíkt leyfi, heldur sem ríkisrjettarlega kröfu, sem konungur styður og ráðherra Íslands gengur að. Allir geta sjeð, hvert samræmi er í þessu við fyrirvarann.

Þar sem konungur vitnar í vilja sinn í ríkisráðinu áður, þá sýnir það óbeinlínis, sem, þegar athugaðir eru allir málavextir, verður sama sem beinlínis, að hann heldur fast við fyrri skoðun sina í heild, að engin ný fyrirvaraskoðun hefir nú fengið gildi hjá honum, enda mun enginn láta sjer detta það í hug, að halda því fram í neinni alvöru, að hann hafi breytt skoðun sinni.

3. Þegar konungur aftekur (Alþ. má eigi vænta, segir hann, og ráðherraábyrgðin gefur þeim orðum kraft og gildi), að breyting verði um sína tíð, þá er það í besta samræmi við opna brjefið, en í fullu ósamræmi við fyrirvarann, sem áskilur frjálsa breytingu á konungsúrskurðinum. Maður má ekki láta þetta nýja snið villa sjer sýn. Aðalatriðið er rjettur Íslendinga til að breyta úrskurðinum, ákveða sjálfir. Og í þessa konungs tíð, — í því felst ekki nein viðurkenning eða fyrirheit um neinn rjett í seinni konunga tíð. Hann telur sig hafa rjett, til að ákveða fyrir sina tíð, að ekki sje til neina að fara fram á breyting. og að sjálfsögðu gjörir hann ráð fyrir því sama um seinni konunga tíð, nema þessi önnur jafntrygga skipun komi í staðinn. Þessi orð eru í góðu samræmi við opna brjefið, sem líka talar um nýja skipun, en í engu samræmi við fyrirvarann. Því hvað er það, sem á að tryggja? Og hver á að tryggja?

Það, sem á að tryggja, er auðvitað þetta eftirlit Dana með því, að vjer förum ekki út fyrir sjermálasviðið, eftirlit, sem er alósamrýmanlegt við það, að uppburður sjermálanna sje sjermál, sem vjer ráðum einir yfir, þegar Danir eiga að hafa eftirlitsrjett og þá um leið ákvörðunarrjett um, hvað þeim kann að þykja vera sammál. Og það eru auðvitað dönsk stjórnarvöld, sem ætlað er að sjá um, að eftirlitið sje nógu trygt, þegar ný skipun verður á gjörð. Það er þess vegna svo langt frá að orð konungs útiloki íhlutun Dana, að ómögulegt er að skilja þau öðruvísi en að þau stefni beint þangað.

5. Og þetta því fremur, þegar þar við bætist enn, að konungur leggur fyrir, að birta í Danmörku þetta samkomulag. Hvort það er gjört með konunglegri auglýsingu, eða í öðru formi, getur ekki skift máli. Nú er því haldið fram og talinn mikill vinningur, að hinn ráðgjörga konunglega auglýsing sje fallin burt, og í staðinn komin að eins þessi birting. Á það var að vísu lögð áhersla, að auglýsingin yrði ekki gefin út, en ekki af því, að hrín í sjálfu sjer hefði neinn rjettarskapandi kraft, án þess, sem á undan var gengið, og sem hún átti að vera til ómótmælanlegs vitnisburðar um fyrir Dani. Og sama er nú að segja um þessa birtingu, og enginn sýnilegur munur á. Að líkja því við óbrotna frjettaskýrslu um fundarhald, er fráleitt, þar sem þetta er eftir ósk forsætisráðherrans, skipun konungs í ríkisráði og samþykt af Íslandsráðherra, öllum vitanlega í sama tilgangi og með sama gildi, sem konunglegu auglýsingunni var áður ætlað. Þannig er það bert, að fyrirvarinn hefir engin áhrif haft á skoðun konungsvaldsins, að hjá því hefir fyrir hann enginn nýr skoðunarmáti fengið gildi.

Konungur stendur við alt hið fyrra. Hann samþykkir ekki beint. Það játa allir. Hann gjörir það ekki heldur með þögn. Því getur enginn neitað. Því hann hefir orð um, öll í samræmi við fyrri skoðun. Það er því enn þá óhætt að taka undir orð hæstv. ráðherra, er jeg áður vitnaði til:

„Það, sem vjer vildum fá skýrt fram, var það, hvort konungur skoðaði málið sjermál eða eigi. En þá yfirlýsingu höfum vjer alls eigi fengið.“

Jeg heyrði í neðri deild hæstv. ráðherra segja, að þeir, sem teldu opna brjefið ekki vera úr gildi með hinum nýju staðfestingarskilmálum, yrðu þá að kannast við, að það hefði verið í gildi eins, ef konungur hefði samþykt fyrirvarann með þögn. Jeg skal játa, að jeg fyrir mitt leyti kveið því 1914, að þessu kynni að verða haldið fram, og ljet því í ljós, að ekki væri áreiðanlegt, að neitt kæmi oss að fullu haldi, annað en bein viðurkenning. En þó var sá mikli munur, að ef þögn konungs við tillögu ráðherra, og síðan undirskrift, varð að skoða sem samþykki á fyrirvaranum, sem erfitt mundi að neita, þá var með honum opna brjefið búið að missa gildi sitt, þó það væri ekki afnumið með sjerstöku opnu brjefi.

Annað atriði fyrirvarans var það, að væntanlegur konungsúrskurður um uppburð sjermálanna skyldi verða breytanlegur á ábyrgð Íslandsráðherra eins, án danskrar íhlutunar.

Staðfestingarskilmálarnir innihalda ekkert þessu í vil.

Á óbreytanleikann hefi jeg áður minst, að konungur heldur honum föstum, að eins nú í annari mynd, til tekur fyrir sína tíð, sem nægir til að sýna, að breytanlegur að Íslands vild á hann ekki að vera.

Um íhlutun danskra stjórnvalda þarf ekki frekari vitna en í sjálfan þennan konungsúrskurð, og það er hann, sem fyrirvarinn á sjerstaklega við, — hann er gjörður með íhlutun danskra stjórnvalda.

Forsætisráðherrann blandar sjer í málið. Hann talar um það eins og einn viðkomandi og lýsir skoðun sinni á því, og hefði ráðherra Íslands átt að fyrirbyggja það.

Hann talar um, að enginn ágreiningur sje um uppburðinn og konungur tekur það upp.

Hann talar um, að engin breyting geti orðið, nema ný skipun komi í staðinn, sem veiti tryggingu, og konungur tekur það einnig upp.

Hann talar um, að eftir rjettarsambandi landanna þurfi stað, þar sem fjarlægðar verði vafaspurningar.

Þessi orð eru nú flutt úr munni konungs, þar sem þau voru í fyrra uppkastinu og lögð forsætisráðherranum í munn, þar sem þau í fljótu bragði kunna að sýnast minna saknæm, en í raun og veru er sama hvor þeirra segir þau — það hefir Dönum sýnilega þótt, — þar sem grundvallarhugsunin. sem í þeim liggur, þessi um eftirlitið með vafaspurningum, felst einnig í orðum konungs um hina jafn tryggu skipun.

Að lyktum sækir hann um leyfi konungs, til að birta í Danmörku skýrslu um það, sem fram hefir farið, og konungur leggur svo fyrir að það skuli gjört og ráðherra samþykkir það, í stað þess, að afstýra því, sem stóð í valdi hans eftir orðum sjálfs hans um konunglegu auglýsinguna áður. Um hana sagði hann í áður tilvitnaðri Ísafoldargrein 31. des. 1914:.

„Já, það var alvara mín. Það stendur í valdi ráðherra Íslands, að afstýra því, að hún (auglýsingin) sje gefin út, og þá ber hann ábyrgð á því, ef hún er gefin út.“

Þannig hefir ráðherra ætlast til eins mikils af öðrum, og á sama hátt stóð nú þessi birting í valdi hans sjálfs, og nú ber hann ábyrgð á henni.

Allt þetta, sem forsætisráðherrann segir, er eins og allir vita, allt eftir fyrir fram gjörðu samkomulagi við ráðherra vorn, þar sem hvert orð er nákvæmlega vegið og yfirvegað.

Og með ábyrgð sinni á orðum konungs, sem eru. sama efnis og ummæli forsætisráðherrans, staðfestir ráðherra vor líka orð hans.

Að vísu tekur hann til máls á eftir forsætisráðherranum og segist halda við íslensku skoðunina, og þetta er stundum í umtalinu orðað svo, að hann hafi mótmælt forsætisráðherranum, þar sem hann þó mótmælir engu orði, og eins og áður er sagt, gefur beinlínis samþykki sitt til að birta. Og þegar svo konungur á eftir með samþykki ráðherra, fær að taka upp flest orð forsætisráðherrans, vitanlega á ábyrgð Íslandsráðherra, þar sem það er íslenskt sjermál, sem er til meðferðar, þá er það víst engin fjærstæða, að segja, að samningur sje kominn á, og þannig gangi Íslendingar að því, að láta þetta vera.

Allt öðru vísi var það, að fyrv. ráðherra mótmælti bæði hans hátign konunginum og forsætisráðherranam á ríkisráðsfundi 30. nóv. 1914. Jeg skal með leyfi hæstv. forseta leyfa mjer að lesa upp nokkrar setningar.

Hans hátign konungurinn segir: „En eins og hinu stjórnskipulega sambandi milli Danmerkur og Íslands er nú háttað, er uppburður íslenskra laga og mikilvægra stjórnarathafna í ríkisráði mínu eina tryggingin fyrir því, að þau sjeu íslensk sjermál, og hafi ekki að innihalda ákvæði, er snerta sameiginleg ríkismál“.

Þessu mótmælti ráðherra vor Sigurður Eggerz, og sagði:

„Jeg get ekki viðurkent, að sambandinu milli Íslands og Danmerkur, hvort sem það er skoðað frá sögulegu, lagalegu eða eðlilegu sjónarmiði, sje svo háttað, að það sje nauðsynlegt þess vegna, að bera íslensk mál upp í ríkisráðinu“.

Sömuleiðis mótmælti hann því, að forsætisráðherrann taki ábyrgð á íslensku sjermáli. Og fyrir þessa framkomu fyrv. ráðherra, Sigurðar Eggerz, var það ekki síst, að Íslendingar voru honum þakklátir.

Og þegar allt er nú þannig í garðinn búið, sem jeg hefi lýst, þá held jeg að ekki þurfi að fjölyrða um þriðja atriði fyrirvarans, að „uppburður sjermálanna sje sjermál“, að það sje ekki orðið annað en ímynduð formel teóría, formfræðileg setning, sem sæmilega hafi átt að ganga frá, að ekki kæmist í framkvæmd.

Það er sjálfsagt satt, að þetta eru formfræðileg (formei teoretisk). spursmál, sem deilt er um, en sjálfstæðisbarátta vor gengur út á, að gjöra þau að nokkru meiru, að koma þeim í framkvæmd.

Enn vil jeg minnast á þau ummæli hæstv. ráðherra, að enginn andblástur, „ingen Stemning“, sem það er kallað í dönskunni, hafi verið vakin gegn uppburði íslenskra mála í ríkisráðinu.

Hæstv. ráðherra sagði um daginn í Nd., að það hafi verið borið á hann á þingmálafundi í Hafnarfirði, að hann hefði skýrt rangt frá þessu (Ráðherra: Já, það var sagt, að jeg hefð skýrt rangt frá); en til sönnunar því, að þetta væri rjett skýrt frá, vitnaði hann i, að í sjálfum fyrirvaranum stæði „uppburður sjermálanna í ríkisráði Dana“.

Jeg skal nú játa, að það var mjög óheppilegt, að þessi orð skyldu vera látin standa í fyrirvaranum, og það sýnir, hve hugmyndir manna í sundurlyndinu geta ruglast, jafnvel um aðalatriði. En á Hafnarfjarðarfundinum var nú lögð aðaláhersla á, ekki að beinlínis væri rangt skýrt frá, heldur, að það hafi átt illa við, að ráðherra byrjaði þessa framsögu sína í ríkisráðinu með því, eins og að afsaka það, sem ætti að komast að, um uppburð í ríkisráðinu. Það var ekki talið neitt aðalatriði í málinu, að ráðherra hefði haft. þessi ummæli, þótt að þeim væri fundið, sem óviðeigandi, að hjer hafi enginn andblástur verið á móti ríkisráðssetu ákvæðinu: (Ráðherra : Nei, það var sagt, að jeg hefði skýrt rangt frá í „Forestillingunni“) En jeg ætla ekki að fríkenna ráðherra frá því, að hann hafi skýrt hjer rangt frá, því. að það hefir vitanlega verið „Stemning“ á móti uppburði mála vorra í ríkisráðinu.

Hæstv. ráðherra vitnaði í Nd. í orð þingmanns, sem hefði sagt á Alþingi 1913, að ákvæðið um að konungur rjeði sjálfur, væri grímuklætt ríkisráðsákvæði, og vildi sanna með því, að sá maður hefði ekki. gjört ráð fyrir öðru en að málin yrðu, borin upp í ríkisráði. Jeg skal nú kannast við faðernið, að það var jeg, sem hafði þessi ummæli. En hæstv. ráðherra gleymdi að segja líka frá því, að fyrir þessa sök. var jeg mótfallinn og talaði á móti þessu ákvæði, af því að undir því byggi uppburður í ríkisráði, svo að hjá mjer var sannarlega „Stemning“ á móti því. Og jeg vil aftur minna á Magnús. landshöfðingja Stephensen. (Ráðherra: Hann hefir ekki tekið þátt í þessum deilum. — Forseti: Ekki samtal). Hann vildi. í framkvæmd fá málin út úr ríkisráðinu, svo hjá honum hefir líka verið „Stemning“ á móti, og marga fleiri mætti telja. Yfirleitt hefir öll þessi seinasta barátta vor, verið ein samfeld „Stemning“ á móti því að sjermálin væru borin upp í ríkisráði.

Skilyrðið fyrir því, að vjer vildum sætta oss við það um sinn, hefir ávalt verið þetta: að hitt væri á undan gengið, að orðið væri að ómótmæltum rjetti vorum, að vjer rjeðum því sjálfir. En nú hefir um ófyrirsjáanlegan tíma sá rjettur vor verið gefinn upp. Allur þessi þáttur í sjálfstæðisbaráttu vorri er orðinn að engu, eða verra en það. Vjer eru orðnir undir, Danir ofan á, allt fyrir samtakaleysi sjálfra vor. Enda hælast nú Danir um, og í norskum blöðum ámæla vinir vorir oss fyrir staðfestuleysi. Jeg segi þetta ekki sem beina lagasönnun fyrir því, að vjer höfum farið halloka. En allir sjá hvað af því má ráða.

Vjer afhendum nú næstu kynslóð skert rjettindi lands vors.

Það hefir verið haft eftir mjer, að jeg hafi á fundinum í Hafnarfirði, eins og komist er að orði í Ísafold, „staðfest það, að engin landsrjettindi væru skert“. Þessi orð hefi jeg aldrei talað. Því skert landsrjettindi er allt annað heldur en það, að allur rjettur vor sje glataður, rjetturinn til að vera sjálfstætt ríki. Hitt sagði jeg, að sá grundvallarrjettur vor, ríkisrjettindin, væri ekki, gæti ekki glatast á þenna hátt. Til þessi væri öll þessi aðferð ólögleg. En þar fyrir getur rjettur vor verið skertur, rjetturinn til að ráða sjálfir að öllu yfir sjermálum vorum. Reyndar veit jeg að til eru þeir, sem líta svo á, að sjermálarjetturinn liggi svo nærri sjálfum undirstöðurjettinum, ríkisrjettinum, að þar standi og falli hvað með öðru, og víst má svo skerða góðan grip, þótt ekki sje honum lógað með öllu, að hann sje lítt nýtur eftir.

Jeg hafði þessi ummæli til þess, að víta þá aðferð, sem mjög hefir verið gripið til, að vilja rjettlæta staðfestingarskilmálana, ósamræmi þeirra við fyrirvarann, og afsaka framkomu hæstv. ráðherra með því viðkvæði („frase“) að landsrjettindin sjeu þó ekki töpuð, „engin landsrjettindi glötuð“, „að óskertum landsrjettindum“, og þar fram eftir. Eins og sjálfstæðisbarátta vor hefði átt að hafa það eitt mark, að glata ekki sjálfum landsrjettindunum, rjettinum til að vera sjálfstætt ríki.

Ríkisrjettindi vor liggja fyrir ofan oss, eins og það takmark, sem vjer keppum upp að, til að koma þeim í framkvæmd. Barátta vor hefir verið, að reisa stiga upp að þeim, og vjer vorum að setja eitt haft í stigann. En nú hefir ómild dönsk hönd brotið fyrir oss haftið, og vjer höfum hrapað niður á við.

Nú vona jeg, að enginn beri upp á mig, að jeg hafi talið rjettindi vor óskert. Jeg játa, að jeg mun fylla flokk þeirra manna, sem telja ríkisrjettindin ekki dauð, en rjettindi vor eru skert, rjetturinn yfir sjermálum vorum.

Jeg hygg, að jeg hafi þá gjört nægilega grein fyrir því, hvernig jeg lít á þessa tillögu, sem hjer liggur fyrir, og hvers vegna jeg legg til, að hún nái ekki fram að ganga.

En til þess að hún fái sæmilegan dauðdaga, vildi jeg mega leggja til, að hún verði afgreidd með rökstuddri dagskrá, er jeg skal leyfa mjer að lesa upp og síðan afhenda hæstv. forseta og biðja hann að bera undir atkvæði, svo hljóðandi :

Um leið og efri deild Alþingis lýsir yfir því, að hún telur landið óbundið af öðrum skilmálum fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar en þeim, sem felast í fyrirvara Alþingis 1914, tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá.

Háttv. deildarmenn munu kannast við efni þessarar dagskrár. Það er sama till., er borin var fram í háttv. Nd., og að vísu feld þar. En jeg ber hana hjer fram, til þess að einnig þessi háttv. deild eigi kost á að gjöra sitt til að tryggja þessi rjettindi vor, með því að samþykkja hana. Það var tekið fram í Nd., að tillagan væri ekki borin upp til að lýsa vantrausti á ráðherra, heldur að eins til öryggis fyrir landið, sem allir ættu að meta mest, og jeg vil taka fram, að sama vakir fyrir mjer.

Það kann að þykja djarft, eftir útreiðina í Nd., að bera hana nú upp í þessari háttv. deild, þar sem vjer höfum í áranna rás jafnan átt að venjast meira afturhaldi, linari sókn í sjálfstæðisbaráttu vorri og viðureign við danskt ofurefli. En nú er þessi deild skipuð fleiri mönnum, sem til sjálfstæðisstefnunnar hafa talið sig, heldur en nokkru sinni fyr. Og nú vil jeg skjóta því hjer til Sjálfstæðismanna, að afneita ekki stefnu sinni.

Jeg skal ekki fitla við veikgeðja tilfinningar eða ögra þeim með fríuorðum, en jeg skýt því til karlmannlegrar skyldurækni þeirra, að bregðast ekki því trausti, sem sjálfstæðisnafninu á að fylgja, nú þegar á það reynir, nú þegar eru enn, sem oftar í sögu vorri, dönsk yfirdrotnan annars vegar, en íslensk sjálfstæðisþrá hins vegar. En ef þjer nú, flokksbræður, eruð samt á öðru máli heldur en jeg, þá vorkennið mjer, sem er nú nokkuð farinn að eldast, miklu eldri en konungurinn, þótt mjer sárni, að sjá fram á, að ekki muni um mína daga verða neitt framspor í sjálfstæðisviðleitni vorri.

Jeg legg svo þetta litla innlegg fram í málinu :

Ísland

gegn

Danmörku

og málið undir dóm háttv. deildar.