22.07.1915
Efri deild: 13. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

20. mál, stjórnarskrármálið

Magnús Pjetursson:

Jeg skal ekki lengja mjög umræður, en jeg vil gjöra stutta grein fyrir atkvæði mínu, þó háttv. deildarmenn sjeu sjálfsagt orðnir þreyttir af ræðuhöldum.

Eftir mínum skilningi á fyrirvaranum og tilgangi hans, eins og jeg álít og veit að fjöldi Sjálfstæðismanna alt af hafa litið á hann, þá sje jeg ekki betur en að honum sje fullnægt með því, er gjörðist í ríkisráðinu 19. júní síðastliðinn, og að því leyti get jeg lýst ánægju minni yfir staðfestingu stjórnarskrárinnar. En jafnframt skal jeg lýsa yfir því, að jeg er algjörlega mótfallinn skilningi og skoðun Heimastjórnarmanna í þessu efni, en get skrifað undir flest í ræðu háttv. þm. Vestm. (K. E). En jeg er þó ekki vel ánægður með alt hjá hæstv. ráðherra eða framkomu hans. Jeg er ekki samþykkur því, er hjer hefir sagt verið um utanför, aðferð o. s. frv., en jeg hefi ekki getað sannfærst um það, að það hafi verið rjett gjört, að kveðja ekki saman aukaþing, áður en stjórnarskráin var staðfest. En þó jeg viti, að hæstv. ráðherra hefir þar nokkrar málsbætur, þá vil jeg þó víta þetta og fleira í aðferð hans á umliðnu vori. Jeg greiði því atkv. með ánægjuyfirlýsingunni um staðfestinguna, en ekki með aðferð þeirri, sem höfð hefir verið, sem jeg tel hættulega og gefa ilt fordæmi.

Viðvíkjandi þingsályktunartillögunni og dagskrá þm. Vestm. (K. E.) vil jeg geta þess, að jeg sje ekki betur en að dagskrá háttv. þm. Vestm. (K. E.) sje betri í garð ráðherra en þingsályktunartillagan, því hún styrkir hæstv. ráðherra meira, og. það er meðal annars ástæðan til þess, að jeg greiði henni atkvæði.

Þó háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) sje dauður, þá vil jeg þó mótmæla því, að það viti allir að fyrirvaranum sje ekki fullnægt. Þetta er alveg rangt. Það er sannfæring mín, að honum sje fullnægt, og því sama hafa aðrir Sjálfstæðismenn lýst yfir.

Þótt það verði sagt, að jeg bregðist sjálfstæðisflokknum og missi traust þjóðarinnar, þá læt jeg það sem vind um eyrun þjóta, og hygg þar ekki mikið mark á takandi. En reynslan sker úr, hvernig þjóðin dæmir framkomu einstakra þingmanna í þessu máli.