12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

29. mál, ullarmat

Pjetur Jónsson:

Háttv. framsm. minni hl. (P. Þ.), hefir haldið því fram móti matinu, að það kæmi ekki sjerstaklega ,við samningi vorum við Breta. Viðvíkjandi þeirri ástæðu er hann færði fyrir þessu, er það að segja, að lögin hafa í þessu falli sömu þýðingu eftir stríðið sem nú.

Annað atriði, sem jeg hjó eftir er kostnaðurinn. Sami kostnaður verður við lögin eftir stríðið, en auk þess fellur verðið þá, og kostnaðurinn verður því eins tilfinnanlegur.

Sami háttv. þm. (P. Þ.), taldi það galla við matið, að þeir, sem hefðu slæma ull, fengju ekki eins hátt verð. Þetta er einmitt aðaltilgangur laganna. Jeg benti á það við 1. umr. málsins, að jeg vissi ekki til, að Englendingar gætu miðað við aðra flokkun, ef matið væri ekki, heldur var áður en ullarmatslögin komu. Var sú almenna flokkun þessi:

1. fl. norðlensk ull

2. fl. norðlensk ull

1. fl. sunnlensk ull

2. fl. sunnlensk ull

Það er alveg víst, að 1. flokks vöru mundu Englendingar ekki kalla, nema 1. fl. norðlenska ull.

Jeg held því að afleiðingarnar af ullarmatinu yrðu aðallega þær, að nokkuð af sunnlensku ullinni kæmist í 1. flokk, sem annars gæti ekki komist þangað. Og þegar þess er gætt, hve sáralítill munur er á 1. og 2. flokki, þar sem verðmunur er að eins 10 aurar á tvípundi, eða með öðrum orðum minni en verðmunur sunnlenskrar ullar og norðlenskrar, þá sje jeg ekki annað en að það sje hreinn hagur fyrir Sunnlendinga að vera í sambandinu. Þeir, sem helst má segja, að verði fyrir skaða við ullarmatið, eru þeir, sem áður höfðu góða ull, en frá þeim hefi jeg ekki heyrt talað um neinar kvartanir. Jeg vil krefjast þess, að þeir, sem eru að klifa á þessum skaða, sýni með rökum í hverju hann er fólginn. En enginn slík rök eru enn fram komin, og mótmæli jeg harðlega öllu þessu skaðamasi, þangað til slík rök koma. Flutningsm. (B. J.) talaði um gífurlegan kostnað, sem ullarmatið hefði í för með sjer. Ekki get jeg nú kallað þann kostnað gífurlegan, þótt eytt sje 1.600 krónum, til þess að borga ullarmatið. Þann kostnað mundi hitt án efa jafna upp, að miklu eða öllu leyti, að Englendingar mundu án efa heimta dómkvadda vigtarmenn, þar sem ræðismaður Englendinga hjer í Reykjavík hefir hingað til látið sjer nægja og tekið gilda vigt þá, sem matsmenn út um landið hafa gefið upp.

Jeg tala ekki um þetta mál út í bláinn. Jeg tala af 20—30 ára kynningu á tilraunum að bæta ull og ullarverð. Og mjer er kunnugt um að mörgum mönnum er hrein óþökk á öllu hljei á ullarmati, einkum þeim, er búa sunnanlands.