12.01.1917
Neðri deild: 25. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Það er næsta undarlegt, hversu mikið kapp 2. þm. Árn. (E. A.) leggur á að koma þessu frv. fyrir kattarnef. Fyrst finnur hann að orðalagi frv., og þegar hann hefir fengið að laga það eftir vild, þá ræðst hann á frv. sjálft, efni þess. Það er naumast hægt að ímynda sjer, að honum gangi annað til en að vinna á móti síldarútvegsmönnunum.

Hann reynir að finna frv. alt til foráttu, og er með dylgjur um, að auðsjeð sje hvert stefni og hverja leið eigi að fara. En jeg veit ekki til, að jeg hafi farið leynt að neinu. Jeg hefi opinberlega játað, hver tilgangurinn sje með frv., sá, að bæta landsins sonum upp þann skaða, sem þeir verða fyrir af útflutningsgjaldslögunum.

Jeg held, að það væri best að láta svo, sem þetta mál kæmi engum við, nema oss Íslendingum. Því verður ekki á móti mælt, að Norðmenn standa sig eins vel við að borga 3 kr. eins og vjer 1 kr. 25 a. Hvað sem segja má um hitt frv., þá er eitt víst, og það er, að það er sjálfsagt, að bæði frv. sæti sömu forlögum.